Fara í innihald

Léon Jouhaux

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Léon Jouhaux
Jouhaux árið 1951.
Fæddur1. júlí 1879
Dáinn28. apríl 1954 (74 ára)
ÞjóðerniFranskur
StörfVerkalýðsleiðtogi
MakiAugustine Brüchlen (1899-2003)
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1951)

Léon Henri Jouhaux (1. júlí 1879 – 28. apríl 1954) var franskur verkalýðsleiðtogi. Hann var aðalritari franska Alþýðusambandsins (fr. Confédération générale du travail eða CGT) frá 1909 til 1947 og stofnandi og forseti Verkalýðsaflsins (fr. Force ouvrière), klofningshreyfingar úr Alþýðusambandinu, frá desember 1947 til dauðadags. Jouhaux hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1951.

Jouhaux fæddist í Pantin í Seine-Saint-Denis í Frakklandi. Faðir hans var verkamaður í eldspýtnaverksmiðju í Aubervilliers. Jouhaux hætti framhaldsnámi þegar faðir hans missti dagtekjur sínar vegna verkfalls. Þegar Jouhaux var sextán ára fékk hann vinnu í verksmiðjunni og hóf um leið störf í stéttarfélagi verksmiðjumannanna. Árið 1900 tók Jouhaux þátt í verkfalli til þess að mótmæla notkun á hvítum fosfór, sem hafði blindað föður hans, í verksmiðjunni. Jouhaux missti vinnuna fyrir vikið en var síðar endurráðinn fyrir tilstilli stéttarfélagsins.

Árið 1906 var Jouhaux kjörinn af stéttarfélögunum sem fulltrúi þeirra til franska Alþýðusambandsins (CGT). Þar komst hann fljótt til metorða sem verkalýðsforingi. Árið 1909 tók hann til bráðabirgða við stöðu gjaldkera Alþýðusambandsins og stuttu síðar varð hann aðalritari þess. Sem leiðtogi CGT barðist Jouhaux fyrir dæmigerðum markmiðum verkalýðshreyfinga þessa tíma eins og átta klukkustunda vinnudegi, réttarins til sameiginlegra kjaraviðræðna og launuðum leyfum. Þegar vinstriflokkar mynduðu ríkisstjórn undir forsæti Léons Blum árið 1936 náðust mörg af þessum markmiðum með Matignon-samkomulaginu, sem Jouhaux undirritaði fyrir hönd Alþýðusambandsins. Jouhaux hafði átt drjúgan þátt í því að sameina franskar vinstrihreyfingar til að mynda stjórnina, en með því hafði hann farið fyrir brjóstið á sumum róttækari verkalýðsfélögum sínum, sem þótti samvinna kommúnista og jafnaðarmanna í lýðveldisstjórninni stangast um of á við marxískar kenningar.[1]

Jouhaux stóð fyrir nokkrum fjöldamótmælum í aðdraganda seinni heimsstyrjaldarinnar og undir stjórn hans hvatti Alþýðusambandið til þess að reynt yrði að halda friðinn. Eftir að stríðið braust árið 1939 út studdi Jouhaux þó þjóð sína þar sem hann óttaðist að sigur nasista myndi marka endalok lýðræðis í Evrópu. Eftir að Frakkland var sigrað og hertekið lét Vichy-stjórnin handtaka Jouhaux og senda hann í Buchenwald-fangabúðirnar.

Eftir stríðið klauf Jouhaux sig úr Alþýðusambandinu og stofnaði sósíaldemókratísku hreyfinguna Verkalýðsaflið (fr. Force ouvrière eða CGT-FO). Klofningurinn varð vegna ósættis milli jafnaðarmanna og kommúnista innan Alþýðusambandsins, en Jouhaux og aðrir hófsamir jafnaðarmenn vændu kommúnistaarm samtakanna um að beita verkföllum í þeim eina tilgangi að fella ríkisstjórn Frakklands, sem þá var skipuð jafnaðarflokkum.[2]

Árið 1951 hlaut Jouhaux friðarverðlaun Nóbels fyrir störf sín í þágu friðar og alþjóðasamvinnu.[3] Norska Nóbelsnefndin lét þau orð falla að með verðlaununum væri ekki aðeins verið að heiðra Jouhaux, heldur verkalýðsstéttina í heild sinni.[4]

Á alþjóðavettvangi átti Jouhaux þátt í að leggja grunn að Alþjóðavinnumálastofnuninni (ILO)[4] og var jafnframt kjörinn í mikilvæg embætti við ýmis alþjóðleg verkalýðssambönd, meðal annars við Alþjóðasamband verkalýðsfélaga (IFTU) og Heimssamband verklýðsfélaga (WFTU) eftir seinna stríð.

Léon Jouhaux lést árið 1954 og var grafinn í Le Père Lachaise-kirkjugarðinum í París.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Leon Jouhaux“. Fálkinn. 26. janúar 1940. Sótt 24. mars 2020.
  2. „Franska alþýðusambandið klofið“. Alþýðublaðið. 20. desember 1947. Sótt 24. mars 2020.
  3. „Jafnaðarmenn samtíðarinnar: Léon Jouhaux“. Kyndill. 1. nóvember 1951. Sótt 24. mars 2020.
  4. 4,0 4,1 „Verkalýðsforinginn, sem hlaut friðarverðlaun Nobels 1951“. Alþýðublaðið. 5. janúar 1952. Sótt 24. mars 2020.