Fara í innihald

Shirin Ebadi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Shirin Ebadi
شيرين عبادى‎
Shirin Ebadi árið 2017.
Fædd21. júní 1947 (1947-06-21) (77 ára)
StörfLögfræðingur, dómari
TrúSjía-íslam
MakiJavad Tavassolian
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels
Undirskrift

Shirin Ebadi (persneska: شيرين عبادى‎; f. 21. júní 1947) er íranskur lögfræðingur, fyrrverandi dómari og mannréttindafrömuður. Hún hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2003 fyrir starf sitt í þágu lýðræðis og mannréttinda, sérstaklega réttinda kvenna, barna og flóttafólks.

Ebadi var starfandi dómari, fyrst kvenna í Íran, þegar íranska byltingin skall á árið 1979. Nýja klerkastjórnin sem tók við völdum leysti hana strax frá störfum þar sem sjaríalög banna konum að vera dómarar.[1] Eftir að hún var rekin úr dómaraembættinu gerðist Ebadi lagaprófessor við Háskólann í Teheran. Hún hóf jafnframt að tala fyrir auknum réttindum kvenna og barna. Málflutningur hennar hjálpaði meðal annars umbótasinnanum Mohammad Khatami að vinna sigur í forsetakjöri landsins árið 1997. Trúarleiðtogar landsins hafa margsinnis fordæmt Ebadi og hún sat mörgum sinnum í fangelsi til ársins 2003.[1]

Meðal þeirra málefna sem Ebadi hefur lagt áherslu á er að konur fái réttindi til jafns við karla í hjónaböndum, til dæmis rétt til skilnaðar og möguleika á forræði yfir börnum sínum. Hún hefur lagt áherslu á að hægt sé að færa íslömsk lög til nútímans án þess að ógna trúnni sjálfri.[1][2]

Shirin Ebadi hlaut heiðursdoktorsnafnbót félagsvísinda- og lagadeildar Háskólans á Akureyri þann 6. nóvember árið 2004.[2] Árið 2009 hraktist Ebadi frá Íran vegna aukinna ofsókna gegn stjórnarandstæðingum.[3] Sama ár gerðu írönsk stjórnvöld Nóbelsverðlaunin hennar upptæk.[4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 „Baráttukonan Shirin Ebadi“. Múrinn. 14. október 2003. Sótt 31. október 2018.
  2. 2,0 2,1 „Shirin Ebadi gerð að heiðursdoktor“. Akureyrarbær. 3. nóvember 2004. Sótt 31. október 2018.
  3. „Vesturlöndin styðja einræðisherra með því að taka við fé þeirra“. RÚV. 18. júní 2014. Sótt 31. október 2018.
  4. „Íranar stálu friðarverðlaunum Nóbels“. Vísir. 27. nóvember 2009. Sótt 31. október 2018.