Alfonso García Robles
Alfonso García Robles | |
---|---|
Utanríkisráðherra Mexíkó | |
Í embætti 29. desember 1975 – 30. nóvember 1976 | |
Forseti | Luis Echeverría Álvarez |
Forveri | Emilio Ó. Rabasa |
Eftirmaður | Santiago Roel |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 20. mars 1911 Zamora de Hidalgo, Michoacán, Mexíkó |
Látinn | 2. september 1991 (80 ára) Mexíkóborg, Mexíkó |
Þjóðerni | Mexíkóskur |
Stjórnmálaflokkur | Byltingarsinnaði stofnanaflokkurinn (PRI) |
Maki | Juana María de Szyslo Valdelomar |
Háskóli | UNAM |
Starf | Stjórnmálamaður, ríkiserindreki |
Verðlaun | Friðarverðlaun Nóbels (1982) |
Undirskrift |
Alfonso García Robles (20. mars 1911 – 2. september 1991) var mexíkóskur ríkiserindreki og stjórnmálamaður sem vann til friðarverðlauna Nóbels árið 1982 ásamt Ölvu Myrdal frá Svíþjóð.
García Robles fæddist í Zamora de Hidalgo í mexíkóska fylkinu Michoacán og nam lögfræði í Sjálfstæða ríkisháskólanum í Mexíkó (UNAM), Stofnun æðri alþjóðafræða í París (1936) og Háskólanum í alþjóðalögum í Haag (1938) en hóf síðan störf í utanríkisþjónustu lands síns árið 1939.
García Robles var meðlimur í sendinefnd Mexíkó til stofnráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í San Francisco árið 1945.[1] Hann var síðan sendiherra til Brasilíu frá 1962 til 1964 og var ríkisritari í mexíkóska utanríkisráðuneytinu frá 1964 til 1970. Frá 1971 til 1975 var hann fulltrúi Mexíkó hjá Sameinuðu þjóðunum og síðan utanríkisráðherra Mexíkó frá 1975–76. Hann var síðan útnefndur fastafulltrúi Mexíkó í afvopnunarnefnd Sameinuðu þjóðanna.
García Robles hlaut friðarverðlaun Nóbels fyrir að hafa stuðlað að gerð Tlatelolco-samningsins, sem kom á fót kjarnorkuvopnalausu svæði í Rómönsku Ameríku og á Karíbahafi. Flest ríki á svæðinu undirrituðu samninginn árið 1967, en nokkur þeirra tóku sér lengri tíma til að fullgilda hann.
Hann hlaut aðild að Þjóðarakademíu Mexíkó árið 1972. Nafn hans var ritað á heiðursvegg í mexíkóska þinghúsinu San Lázaro árið 2003. Ekkja hans, Juana María de Szyslo Valdelomar, lést árið 2005, 83 ára að aldri.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Garcia Robles – mexíkanskur diplómat og sérfræðingur í alþjóðalögum“. Morgunblaðið. 14. október 1982. Sótt 2. febrúar 2020.