Tobias Asser

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tobias Asser
Tobias Asser árið 1911.
Fæddur28. apríl 1838
Dáinn29. júlí 1913 (75 ára)
ÞjóðerniHollenskur
MenntunHáskólinn í Amsterdam
Háskólinn í Leiden
StörfLögfræðingur
TrúGyðingdómur
MakiJohanna Ernestina Asser (g. 1864)
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1911)

Tobias Michael Carel Asser (28. apríl 1838 – 29. júlí 1913) var hollenskur lögmaður og lögfræðingur af gyðingaættum.

Árið 1911 vann Asser friðarverðlaun Nóbels (ásamt Alfred Hermann Fried) fyrir störf sín á sviði alþjóðlegs einkamálaréttar, sér í lagi fyrir að taka þátt í stofnun Haag-ráðstefnunnar um alþjóðlegan einkamálarétt (HCCH).

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Tobias Michael Carel Asser fæddist þann 28. apríl í Amsterdam í Hollandi.[1] Hann var sonur Carels Daniel Asser (1813–85) og sonarsonur dómarans Carels Asser (1780-1836). Asser nam lögfræði við Háskólann í Amsterdam og Háskólan í Leiden og varð seinna lagaprófessor við Háskólann í Amsterdam.

Asser tók þátt í stofnun lögfræðitímaritsins Revue de Droit International et de Législation Comparée ásamt John Westlake og Gustave Rolin-Jaequemyns. Hann var einnig meðal stofnenda Alþjóðaréttarstofnunarinnar (fr. Institut de Droit International) árið 1873.[2] Árið 1880 varð Asser meðlimur í Konunglegu lista- og vísindaakademíunni í Hollandi.[3]

Haag-ráðstefnan um alþjóðlegan einkamálarétt[breyta | breyta frumkóða]

Asser var meðal fremstu hugsuða á sviði alþjóðlegs einkamálaréttar og taldi að traustir lagarammar í kringum samskipti einkaaðila milli ríkja myndu stuðla að friði og stöðugleika. Árið 1893 átti Asser frumkvæði að fyrstu samkomu HCCH, alþjóðastofnunar sem fjallaði um alþjóðlegan einkamálarétt. Ríkin sem tóku þátt voru Austurríki-Ungverjaland, Belgía, Frakkland, Þýskaland, Ítalía, Lúxemborg, Holland, Portúgal, Rúmenía, Rússland, Spánn og Sviss. Asser var kjörinn forseti samkomunnar og síðan endurkjörinn á næstu þremur samkomum sem haldnar voru árin 1894, 1900 og 1904. Undir forystu Assers stóð HCCH fyrir ýmsum milliríkjasamningum, Haag-sáttmálunum, sem samræmdu reglur alþjóðlegs einkamálaréttar á sviðum hjónabands (1902), skilnaðar (1902), forsjár (1902), einkamála (1905), réttaráhrifa hjónabands (1905) og sviptingar borgararéttinda (1905).

Árið 1911 hlaut Asser friðarverðlaun Nóbels. Í ræðu sinni við verðlaunaathöfnina þann 10. desember 1911 lagði Jørgen Løvland, formaður Nóbelsnefndarinnar, sérstaka áherslu á störf Assers á sviði alþjóðlegs einkamálaréttar og á afrek hans með stofnun HCCH og sagði að Asser væri „eftirmaður eða endurlífgari frumkvöðlastarfs Hollendinga á sviði alþjóðalaga á sautjándu öld“, Hugo Grotius samtíðar sinnar.[4]

Friðarráðstefnurnar í Haag[breyta | breyta frumkóða]

Asser var einn af fulltrúum Hollendinga á báðum friðarráðstefnunum í Haag árið 1899 og 1907.[2]

Fasti gerðardómurinn[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1902 sat Asser í fyrstu gerðarnefndinni sem tók fyrir milliríkjadeilu á vettvangi Fasta gerðardómsins, sem hafði verið stofnsettur í kjölfar fyrstu friðarráðstefnunnar í Haag árið 1899. Asser tók jafnframt þátt í stofnun þess sem átti síðar eftir að verða Alþjóðaréttarháskólinn í Haag, en lifði ekki nógu lengi til að sjá opnun hans árið 1923.[2]

Asser lést þann 20. júlí árið 1913 í Haag.

Nafngiftir[breyta | breyta frumkóða]

Rannsóknarstofnun í alþjóðlegum einka- og opinberum rétti, Evrópurétti og alþjóðlegum gerðardómum er nefnd eftir Asser. Stofnunin heitir T.M.C. Asser Instituut og er staðsett í Haag.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. C. G. Roelofsen, "Asser, Tobias Michel Karel (1838-1913)", Biografisch Woordenboek van Nederland, 2013. Sótt 23. apríl 2020.
  2. 2,0 2,1 2,2 „In Memoriam: T. M. C. Asser“. American Journal of International Law. American Society of International Law. 8 (2): 343–44. apríl 1914.
  3. „Tobias Michaël Carel Asser (1838 - 1913)“. Royal Netherlands Academy of Arts and Sciences. Sótt 23. apríl 2020.
  4. „Tobias Asser - Facts“. www.nobelprize.org. Sótt 3. nóvember 2017.