Fara í innihald

Anwar Sadat

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Anwar Sadat
محمد أنور السادات
Sadat árið 1980.
Forseti Egyptalands
Í embætti
28. september 1970 – 6. október 1981
Forsætisráðherra
Listi
Varaforseti
ForveriGamal Abdel Nasser
EftirmaðurHosni Mubarak
Forsætisráðherra Egyptalands
Í embætti
15. maí 1980 – 6. október 1981
ForsetiHann sjálfur
ForveriMustafa Khalil
EftirmaðurHosni Mubarak
Í embætti
26. mars 1973 – 26. september 1974
ForsetiHann sjálfur
ForveriAziz Sedki
EftirmaðurAbd El Aziz Muhammad Hegazi
Persónulegar upplýsingar
Fæddur25. desember 1918
Monufía, Egyptalandi
Látinn6. október 1981 (62 ára) Kaíró, Egyptalandi
DánarorsökMyrtur
StjórnmálaflokkurArabíska sósíalistabandalagið
MakiEqbal Afifi (Madi)
Jehan Sadat
Börn7
HáskóliAlexandríuháskóli
StarfHerforingi, stjórnmálamaður
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1978)
Undirskrift

Mohamed Anwar al-Sadat (arabíska: محمد أنور السادات Muḥammad Anwar al-Sādāt) (25. desember 19186. október 1981) var þriðji forseti Egyptalands.

Sadat tók við völdum eftir dauða Gamals Abdel Nasser árið 1970. Hann leiddi Egyptaland í Jom kippúr-stríðinu gegn Ísrael árið 1973, sem jók mjög hróður hans meðal Egypta og Araba. Eftir stríðið hóf hann hins vegar friðarviðræður við Ísrael sem leiddu til þess að skrifað var undir Camp David-samkomulagið árið 1978, en með því viðurkenndu Egyptar sjálfstæði Ísraels og fengu í staðinn aftur yfirráð yfir Sínaískaga, sem Ísraelar höfðu hertekið í sex daga stríðinu 1967. Sadat hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1978 ásamt Menachem Begin, forsætisráðherra Ísraels, fyrir að skrifa undir samkomulagið.

Sadat var myrtur árið 1981 meðan hersýning stóð yfir af öfgamönnum sem voru mótfallnir friðarsamkomulagi hans við Ísraela.

Anwar Sadat fæddist 25. desember árið 1918 í þorpinu Abu El Kom við Nílarfljót. Faðir hans var skrifstofumaður hjá egypska hernum og móðir hans var frá Súdan. Fjölskyldan flutti síðar til Kaíró, þar sem Anwar Sadat gekk í herskóla og útskrifaðist þaðan er hann var tvítugur. Einn skólafélaga hans þar var Gamal Abdel Nasser, sem varð návinur Sadats.[1] Eftir að Sadat útskrifaðist árið 1938 stofnaði hann ásamt Nasser og félögum þeirra leynisamtök „Frjálsra liðsforingja“ innan hersins.[2]

Sadat var handtekinn árið 1942 fyrir að aðstoða þýskan njósnara við að flýja frá Egyptalandi. Hann sat í fangelsi í tvö ár en slapp þá og tók þátt í baráttu gegn bresku nýlendustjórninni í landinu. Sadat var síðar aftur handtekinn, í þetta sinn vegna meintrar þátttöku sinnar í morði á fjármálaráðherra Egyptalands.[2] Sadat var sleppt árið 1948. Hann starfaði um hríð sem blaðamaður, vörubílstjóri og í fleiri störfum en fékk síðan aftur inngöngu í herinn.[1]

Árið 1952 tók Sadat, ásamt Nasser og fleiri egypskum herforingjum, þátt í að steypa af stóli Farúk Egyptalandskonungi og gera Egyptaland að lýðveldi. Sadat varð forseti egypska þingsins árið 1960 og níu árum síðar skipaði Nasser hann varaforseta í stjórn sinni.[1]

Gamal Abdel Nasser lést í september árið 1970 og var Sadat þá valinn sem eftirmaður hans á forsetastól. Þegar Sadat varð forseti var víða búist við því að embættistaka hans væri aðeins bráðabirgðalausn og að forsætisráðherrann Ali Sabri yrði hinn raunverulegi „sterki maður“ stjórnarinnar. Svo fór ekki, heldur var Sadat forsetaframbjóðandi í næstu kosningum og hlaut þar formlega 90,4 prósent atkvæðanna.[3]

Þann 13. maí árið 1973 komst upp um samsæri gegn Sadat, sem brást fljótt við með því að láta handtaka fjölda manns og reka Ali Sabri og fleiri ráðherra sem voru honum andsnúnir úr stjórn sinni. Var Sadat þaðan af orðinn traustur í sessi sem leiðtogi Egyptalands. Sadat efndi síðan til kosninga um nýja stjórnarskrá fyrir Egyptaland.[3]

Þegar Sadat komst til valda stóð Egyptaland í viðræðum við stjórn Líbíu um að ríkin tvö myndu sameinast í eitt land í áföngum. Sadat dró það hins vegar að framfylgja samningnum þess efnis, sem leiddi til þess að samband hans við líbíska leiðtogann Muammar Gaddafi hríðversnaði. Sadat kallaði Gaddafi „sjúkan mann“ eftir ýmis atvik sem spilltu samstarfi þeirra, meðal annars eftir að Gaddafi skipulagði 40.000 manna kröfugöngu Líbíumanna til Kaíró til að krefjast efnda sameiningarsáttmálans og vegna gruns um að Gaddafi hygðist jafnvel skipuleggja valdarán gegn Sadat. Sadat reyndi að bæta samband Egyptalands við Vesturlönd en Gaddafi var æ nánari Sovétríkjunum, sem stuðlaði frekar að því að aldrei varð neitt úr sameiningunni.[3]

Jom kippúr-stríðið og eftirmálar

[breyta | breyta frumkóða]

Frá því að Sadat varð forseti gaf hann út margar yfirlýsingar um að stríð við Ísrael væri óumflýjanlegt, en að Egyptar myndu þó ekki fara í stríð fyrr en landið væri tilbúið. Þann 6. október 1973 réðust egypskir hermenn yfir Súesskurðinn og tókst að koma Ísraelum í opna skjöldu. Þetta var byrjunin á Jom kippúr-stríðinu, sem Sadat hafði skipulagt í samráði við Hafez al-Assad, forseta Sýrlands.[3] Egypski herinn náði miklum árangri á móti Ísraelsher á upphafsdögum Jom kippúr-stríðsins, sem jók mjög vinsældir Sadats. Tilfinning Egypta var sú að honum hefði tekist að hefna hernaðarósigra landsins gegn Ísraelum í fyrri stríðum ríkjanna á 20. öldinni.[4] Þótt umdeilt sé hver í raun „vann“ Jom kippúr-stríðið fannst mörgum Egyptum Sadat hafa fært þeim sjálfsvirðingu á ný.[3]

Eftir Jom kippúr-stríðið lét Sadat sleppa úr haldi fjölda pólitískra fanga og veita þeim sakaruppgjöf. Í apríl næsta ár kynnti Sadat nýja efnahagsáætlun þar sem gert var ráð fyrir ýmsum félagslegum umbótum, aukinni erlendri fjárfestingu og minnkuðum völdum lögreglunnar. Á þessum tíma batnaði jafnframt samband Egypta við Bandaríkin. Löndin tóku upp stjórnmálasamband í nóvember árið 1973 og Henry Kissinger utanríkisráðherra og Richard Nixon forseti komu í opinberar heimsóknir til Egyptalands á næstu árum.[3]

Friðarviðræður við Ísrael

[breyta | breyta frumkóða]
Sadat (til hægri) ásamt Menachem Begin og Jimmy Carter í Camp David árið 1978.

Þrátt fyrir að hafa verið helsti hvatamaðurinn að Jom kippúr-stríðinu fór Sadat á næstu árum að þreifa fyrir sér um möguleikann á að komast að friðarsamkomulagi við Ísrael. Hann ráðfærði sig við ýmsa leiðtoga annarra Arabaríkja en hlaut að mestu neikvæð viðbrögð.[1]

Árið 1977 þáði Sadat boð Ísraela um að koma í opinbera heimsókn til Jerúsalem og ávarpa ísraelska Knesset-þingið. Hann flutti þar þann 20. nóvember 55 mínútna langa ræðu þar sem hann gerði grein fyrir skilyrðum sem setja yrði við friðarsamkomulagi Egypta og Ísraela. Hann fór fram á að Ísraelar skiluðu landsvæðum sem hertekin höfðu verið í sex daga stríðinu og að til yrði sjálfstætt Palestínuríki. Hins vegar lofaði hann að viðurkenna og styðja tilveru Ísraelsríkis innan öruggra og verjanlegra landamæra, sem var nýmæli. Ræðu Sadats og nýrri samningaviðleitni hans var vel tekið í Ísrael og á Vesturlöndum en víða í Arabaheiminum var hann úthrópaður sem svikari gegn málstað Araba og Palestínumanna.[5]

Árið 1978 fundaði Sadat ásamt Menachem Begin, forsætisráðherra Ísraels, í Camp David í Bandaríkjunum í boði Jimmy Carter Bandaríkjaforseta. Niðurstaða viðræðanna var að leiðtogarnir undirrituðu Camp David-samkomulagið þann 17. september 1978 en í því fólst að Egyptar viðurkenndu sjálfstæði Ísraels og stofnuðu til stjórnmálasambands við ríkið en Ísraelar skiluðu Sínaískaga til Egyptalands. Jafnframt gerði samkomulagið ráð fyrir því að Palestínumenn á Vesturbakkanum og Gasaströndinni myndu fá sjálfsstjórn að fimm árum liðnum en að Ísraelar myndu áfram fá að halda herliði þar af öryggisástæðum.[6] Sadat og Begin hlutu friðarverðlaun Nóbels árið 1978 fyrir að skrifa undir Camp David-samkomulagið.[7]

Morðið á Sadat

[breyta | breyta frumkóða]

Árið 1981 hóf Sadat pólitískar hreinsanir gegn andstæðingum sínum sem skyggðu nokkuð á þá jákvæðu ímynd sem hann hafði áunnið sér í vestrænum fjölmiðlum. Á meðal þeirra tæplega 1.600 manns sem voru handteknir voru íslamistar, koptískir prestar, sósíalistar, frjálslyndir stjórnmálamenn og blaðamenn.[8]

Þann 6. október 1981 var Sadat skotinn til bana af Khaled Islambouli, liðsmanni úr Bræðralagi múslima. Þegar Islambouli skaut Sadat öskraði hann: „Niður með faraó!“.[9] Dauði Sadats var víða harmaður á Vesturlöndum en margir gagnrýnendur hans, sér í lagi liðsmenn Frelsissamtaka Palestínumanna (PLO), tóku morðinu fagnandi vegna tilfinningar um að Sadat hefði svikið málstað þeirra með undanlátssemi sinni gagnvart Ísraelum.[10]

Stjórnvöld í Egyptalandi lýstu yfir þriggja daga þjóðarsorg eftir morðið á Sadat. Athygli vakti að fáir landsmenn voru viðstaddir þegar Sadat var borinn til grafar, ólíkt útför Nassers rúmum áratugi fyrr. Margir Egyptar reiddust því að útsendingu sjónvarpsþáttarins Dallas var frestað vegna sorgartímabilsins. Allt þetta þótti til marks um skert traust Egypta á stjórnendum sínum undanfarinn áratuginn.[9]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 „Sadat: Hugrakkur og skeleggur einfari í Arabaheimi“. Morgunblaðið. 7. október 1981. bls. 16-17.
  2. 2,0 2,1 Andreas Kohlshütter (4. desember 1977). „Leið Sadats til Jerúsalem“. Morgunblaðið. bls. 33; 35.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 Jóhanna Kristjónsdóttir (10. október 1981). „Stiklað á stjórnarárum Anwar Sadats“. Morgunblaðið.
  4. „Sadat“. Vísir. 7. október 1981. bls. 15.
  5. „Fagnað sem friðarhetju, og fordæmdur sem svikari!“. Vísir. 21. nóvember 1977. bls. 9.
  6. Einar Már Jónsson (1. október 1978). „Samningarnir í Camp David“. Þjóðviljinn. bls. 4-5.
  7. „Sadat og Begin hljóta friðarverðlaun Nóbels“. Morgunblaðið. 28. október 1978. bls. 2.
  8. „Sadat: Raunsær maður rekinn áfram af ótta“. Morgunblaðið. 10. október 1981. bls. 16-17.
  9. 9,0 9,1 Magnús Þorkell Bernharðsson (2018). Mið-Austurlönd: Fortíð, nútíð og framtíð. Reykjavík: Mál og menning. bls. 147. ISBN 978-9979-3-3683-9.
  10. Árni Bergmann (8. október 1981). „Morðið á Sadat“. Þjóðviljinn. bls. 5.


Fyrirrennari:
Gamal Abdel Nasser
Forseti Egyptalands
(19701981)
Eftirmaður:
Hosni Mubarak