Linus Pauling

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Efnafræði
20. öld
Nafn: Linus Carl Pauling
Fæddur: 28. febrúar 1901
Portland, Oregon, Bandaríkjunum
Látinn 19. ágúst 1994 (93 ára)
Big Sur, Kaliforníu, Bandaríkjunum
Svið: Efnafræði, lífefnafræði, efnaverkfræði
Helstu ritverk: Um eðli efnatengisins
Alma mater: Ríkisháskólinn í Oregon (BS)
Tækniháskólinn í Kaliforníu (PhD)
Helstu
vinnustaðir:
Tækniháskólinn í Kaliforníu
Kaliforníuháskóli í San Diego
Stanford-háskóli
Cornell-háskóli
Oxford-háskóli
Verðlaun og
nafnbætur:
Nóbelsverðlaunin í efnafræði (1954)
Friðarverðlaun Nóbels (1962)
Undirskrift:

Linus Carl Pauling (28. febrúar 1901 – 19. ágúst 1994) var bandarískur efnafræðingur, lífefnafræðingur, efnaverkfræðingur, friðarsinni og kennari.

Pauling var frumkvöðull á sviði skammtaefnafræði og hlaut Nóbelsverðlaunin í efnafræði árið 1954 fyrir að lýsa eðli efnatengisins í verkum sínum. Hann gaf árið 1939 út ritgerðina Um eðli efnatengisins (e. The Nature of the Chemical Bond), sem er meðal áhrifamestu fræðirita sem gefin hafa verið út.

Pauling hlaut jafnframt friðarverðlaun Nóbels árið 1962 fyrir herferð sína gegn kjarnorkutilraunum. Hann varð þar með annar maðurinn til þess að vinna tvenn Nóbelsverðlaun í ólíkum flokkum (á eftir Marie Curie) og sá fyrsti og eini til þess að vera verðlaunaður einsamall í tveimur flokkum.[1]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Linus Pauling fæddist í borginni Portland í Oregon-fylki í Bandaríkjunum árið 1901. Pauling hóf nám í Ríkisháskólanum í Oregon árið 1917 og útskrifaðist þaðan með BS-gráðu í efnaverkfræði árið 1922. Á námsárum sínum í skólanum vann Pauling sem kennari við efnagreiningu samhliða námi en varð síðan aðstoðarkennari í efnafræði við Tækniháskólann í Kaliforníu (Caltech) á meðan hann stundaði doktorsnám þar.[2]

Á námsárum sínum í Caltech kenndi Pauling jafnframt námskeið í hússtjórnarfræði og kynntist þar Övu Helen Miller, sem hann kvæntist síðan árið 1923. Hjónin áttu eftir að eignast fjögur börn.[2] Í Caltech kynntist Pauling jafnframt og vingaðist við eðlisfræðinginn Robert Oppenheimer, sem vann við Kaliforníuháskóla í Berkeley en sinnti einnig kennslu og rannsóknum við Caltech. Pauling og Oppenheimer hugðust vinna saman að rannsóknum á efnatengjum en samstarf þeirra og vinskapur liðu undir lok eftir að Pauling fór að gruna að Oppenheimer væri að stíga í væng við eiginkonu hans.[2]

Pauling lauk doktorsprófi frá Caltech árið 1925. Næsta ár hlaut hann Guggenheim-styrk sem hann nýtti sér til að ferðast til Evrópu og kynna sér nýjungar í eðlisfræði og skammtafræði. Pauling fræddist um byggingu frumeinda og sameinda og skrifaði fjölda greina um eðli efnatengis. Eftir heimkomuna frá Evrópu varð Pauling fastakennari við Caltech-háskólann.[3] Hann gaf út bókina The Nature of the Chemical Bond árið 1939 og hún varð eitt áhrifamesta fræðirit efnafræðinnar fyrr og síðar. Á fyrstu þrjátíu árunum eftir útgáfu hennar voru tilvitnanir í hana fleiri en 16.000.[2] Pauling varð fyrstur til að setja fram kenningu um svigrúmablöndun til þess að skýra lögun sameinda eins og metans.[4] Umfjöllun Pauling í þessu riti varð til þess að hann hlaut Nóbelsverðlaunin í efnafræði árið 1954.[3]

Eitt af fyrstu verkefnum Pauling á sviði lífefnafræði fólst í rannsóknum á blóðrauða. Með rannsóknum sínum sýndi Pauling fram á að blóðrauðasameindir, sem finnast í rauðum blóðkornum, breyta um lögun þegar þær binda eða losa súrefni.[2] Ásamt Robert Corey og Herman Branson sýndi Pauling árið 1951 fram á að byggingarform prótína væru alfagormur og betaplötur.[2]

Fyrir seinni heimsstyrjöldina þótti Pauling ópólitískur í hugsun, en fyrir tilstilli eiginkonu sinnar, sem var virk í friðarhreyfingum, varð Pauling á eftirstríðsárunum mikill friðarsinni og andstæðingur kjarnorkuvopna. Árið 1958 afhentu Linus og Ava Helen Sameinuðu þjóðunum áskorun með undirritun 11.000 vísindamanna þar sem farið var fram á að tilraunum með kjarnorkusprengjur yrði hætt. Áskorunin stuðlaði að því að John F. Kennedy og Níkíta Khrústsjov undirrituðu árið 1963 samning um bann gegn tilraunum með kjarnorkuvopn í gufuhvolfinu, himingeimnum og neðan sjávar.[2] Pauling var sæmdur friðarverðlaunum Nóbels sama ár.[5]

Á tíma McCarthyismans í Bandaríkjunum leiddi andstaða Paulings gegn kjarnorkutilraunum til þess að hann var stimplaður sem handbendi kommúnista. Árið 1952 var Pauling neitað um vegabréfsáritun til þess að ferðast frá Bandaríkjunum vegna stjórnmálaskoðana sinna. Árið 1960 var Pauling stefnt fyrir öryggisnefnd öldungadeildar Bandaríkjaþings, en neitaði þar að gefa upp nöfn vísindamannanna sem höfðu hjálpað honum við undirskriftasöfnunina fyrir áskorunina til Sameinuðu þjóðanna.[3]

Pauling var virkur forsvarsmaður þess að C-vítamín væru notuð sem heilsubótarefni. Hann taldi að regluleg innbyrðing C-vítamína gæti lengt líftíma fólks um 12 til 18 ár.[6] Pauling mælti með stórum skömmtum af C-vítamíni til þess að fyrirbyggja kvef og í meðferð á krabbameinum. Rannsóknir gátu ekki staðfest að C-vítamínin gerðu gagn til að vinna bug á krabbameini og stuðningur Pauling við slíkar meðferðir leiddu til þess að hann bað nokkurn álitshnekki.[2]

Pauling lést árið 1994 vegna krabbameins í blöðruhálskirtli.[2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Sævar Helgi Bragason (23. apríl 2003). „Hefur einhver hlotið Nóbelsverðlaun tvisvar sinnum?“. Vísindavefurinn. Sótt 3. apríl 2024.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 2,6 2,7 2,8 Sigmundur Guðbjarnason (18. apríl 2011). „Hver var Linus Pauling og hvert var hans framlag til fræðanna?“. Vísindavefurinn. Sótt 3. apríl 2024.
  3. 3,0 3,1 3,2 „Linus Pauling“. Lesbók Morgunblaðsins. 12. júlí 1964. Sótt 17. mars 2020.
  4. Kristján Matthíasson (6. maí 2014). „Hvað er sp3-, sp2- og sp-svigrúmablöndun kolefnis?“. Vísindavefurinn. Sótt 3. apríl 2024.
  5. „Vísindamaður og friðarpostuli“. Þjóðviljinn. 11. október 1963. Sótt 17. mars 2020.
  6. Geir Viðar Vilhjálmsson (30. nóvember 1980). „C-vítamín eykur mótstöðuafl, segir Nóbelsverðlaunahafinn Linus Pauling“. Tíminn. Sótt 17. mars 2020.