Fara í innihald

Óscar Arias Sánchez

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Óscar Arias Sánchez
Óscar Arias árið 2018.
Forseti Kosta Ríka
Í embætti
8. maí 1986 – 8. maí 1990
VaraforsetiJorge Manuel Dengo Obregón
Victoria Garrón de Doryan
ForveriLuis Alberto Monge
EftirmaðurRafael Ángel Calderón Fournier
Í embætti
8. maí 2006 – 8. maí 2010
VaraforsetiLaura Chinchilla
Kevin Casas
ForveriAbel Pacheco
EftirmaðurLaura Chinchilla
Persónulegar upplýsingar
Fæddur13. september 1940 (1940-09-13) (83 ára)
San José, Kosta Ríka
ÞjóðerniKostarískur
StjórnmálaflokkurÞjóðfrelsisflokkurinn
MakiMargarita Penón Góngora (skilin)
Börn2
HáskóliBoston-háskóli
Háskóli Kosta Ríka
Hagfræði- og stjórnmálafræðiháskólinn í London
Háskólinn í Essex
StarfStjórnmálamaður
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1987)
Undirskrift

Óscar Rafael de Jesús Arias Sánchez (f. 13. september 1940) er kostarískur stjórnmálamaður sem hefur tvívegis verið forseti Kosta Ríka; frá 1986 til 1990 og frá 2006 til 2010. Arias hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1987 fyrir að vinna að gerð friðaráætlunar til að binda enda á Mið-Ameríkukreppuna.[1][2]

Óscar Arias er kominn úr ríkri kaffiræktarfjölskyldu. Hann hóf nám sitt heima í Kosta Ríka en gekk síðan í Boston-háskóla í Bandaríkjunum og í Hagfræði- og stjórnmálafræðiháskólann í London. Hann gekk í kostaríska Þjóðfrelsisflokkinn (PLN) á áttunda áratugnum og var útnefndur ráðherra landsskipulags og efnahagsstjórnar í ríkisstjórn forsetans José Figueres Ferrer árið 1972. Arias varð aðalritari PLN árið 1979 og átti eftir að verða forseti lýðveldisins fyrir flokkinn á tveimur tímabilum.

Forsetatíðir

[breyta | breyta frumkóða]

Arias var kjörinn forseti í fyrra skiptið árið 1986. Ásamt honum var í fyrsta sinn kjörin kona í embætti varaforseta landsins, Victoria Garrón.

Á stjórnartíð Arias var mikill efnahagsuppgangur og atvinnuleysi lækkaði í Kosta Ríka. Forsetatíð Arias einkenndist þó fyrst og fremst af friðarumleitunum hans og harðri andstöðu hans gegn stuðningi Bandaríkjanna við kontraskæruliða í borgarastyrjöldinni í Níkaragva. Þar sem Arias viðhélt formlegu hlutleysi Kosta Ríka var hann í aðstöðu til að gerast óhlutdrægur milligöngumaður og sem slíkur gerðist hann helsti hönnuður friðaráætlunar sem fulltrúar El Salvador, Gvatemala, Hondúras og Níkaragva undirrituðu þann 7. ágúst árið 1987. Andstaða Bandaríkjamanna við samninginn gerði hann erfiðan í framkvæmd en Arias var engu að síður sæmdur friðarverðlaunum Nóbels hið sama ár fyrir að standa að gerð hans.

Eftir að kjörtímabili Arias lauk árið 1990 reyndi hann mörgum sinnum að koma á stjórnarskrárbreytingum til að nema úr gildi bann gegn því að fyrrum forsetar byðu sig fram til endurkjörs. Árið 2003 lögðu stuðningsmenn Arias fram kæru til hæstaréttar Kosta Ríka þar sem dregið var í efa að bannið við endurframboði fyrrum forseta stæðist stjórnarskrá landsins. Í apríl sama ár féllst hæstirétturinn á rök þeirra og dæmdi bannákvæðið ógilt.[3]

Arias bauð sig í kjölfarið fram til endurkjörs í forsetakosningum árið 2006.[4] Fyrrum forsetinn Luis Alberto Monge lýsti fyrirhuguðu endurframboði Arias sem „valdaráni“.[5] Arias var kjörinn forseti á ný með 40,5 % atkvæða þann 8. maí. Árið 2007 viðurkenndi hann formlega Alþýðulýðveldið Kína, 58 árum eftir stofnun þess.[6] Arias var milligöngumaður í stjórnarkreppunni sem fylgdi í kjölfar valdaránsins í Hondúras árið 2009.[7][8] Hann reyndi að hvetja til þess að hinum brottrekna forseta Hondúras, Manuel Zelaya, yrði hleypt aftur til landsins og leyft að ljúka kjörtímabili sínu. Arias stóð fyrir samningu samkomulags þess efnis[9] en að endingu fór samningurinn út um þúfur.[10]

Að lokinni embættistíð

[breyta | breyta frumkóða]

Arias er meðlimur í samtökunum PeaceJam og heiðursmeðlimur í Búdapest-klúbbnum.[11] Í september árið 2017 var hann meðal þeirra sem skrifuðu undir opið bréf til Sameinuðu þjóðanna þar sem hvatt var til aðgerða gegn ofsóknum á róhingjum í Mjanmar.[12]

Árið 2019 sakaði sálfræðingurinn og aðgerðasinninn Alexandra Arce von Herold Arias formlega um nauðgun við almannaráðuneytið. Eftir að hún bar fram ásökun sína stigu þrjár konur til viðbótar fram og sökuðu Arias um kynferðislega áreitni.[13][14] Arias neitaði ásökununum.[13]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Samið um rás byltingarinnar“. Morgunblaðið. 23. október 1987. Sótt 12. febrúar 2020.
  2. „Friðarsamkomulagið í Mið-Ameríku“. Dagur. 19. október 1987. Sótt 12. febrúar 2020.
  3. "Reeleccion seduce a los presidentes de America" Geymt 13 september 2013 í Wayback Machine, El Nuevo Diario, Managua, 18. júlí 2007, geymt í júlí 2009; "Reelecion presidencial: Arias sin prohobicion para postularse" Geymt 2 október 2020 í Wayback Machine, La Nacion, Kosta Ríka, 5. apríl 2003.
  4. Rónald Matute (5. apríl 2003). „Reelección presidencial: Arias sin prohibición para postularse“ (spænska). Nacionales. Sótt 13. febrúar 2020.
  5. Luis Alberto Monge (20. mars 2003). „Reelección: desafío a la Constitución“ (spænska). Nacionales. Sótt 13. febrúar 2020.
  6. Guillaume Beaulande (1. maí 2016). „L'Amérique centrale lâche Taipei“ (franska). Le Monde diplomatique. Sótt 13. febrúar 2020.
  7. Baldur Arnarson (21. júlí 2009). „Hondúras á barmi borgarastyrjaldar?“. Morgunblaðið. Sótt 13. febrúar 2020.
  8. Jean-Michel Caroit, Au Costa Rica, la médiation d'Oscar Arias sur le Honduras s'annonce laborieuse, Le Monde, 10. júlí 2009.
  9. Karl Blöndal (31. október 2009). „Brottrekinn forseti sest í valdastól á nýjan leik“. Morgunblaðið. Sótt 13. febrúar 2020.
  10. „Segir samkomulagið farið út um þúfur“. Morgunblaðið. 7. nóvember 2009. Sótt 13. febrúar 2020.
  11. The Club of Budapest[óvirkur tengill].
  12. „12 prix Nobel appellent à faire cesser les violences contre les Rohingyas. News-front, 14.09.2017“. Afrit af upprunalegu geymt þann 16. september 2017. Sótt 13. febrúar 2020.
  13. 13,0 13,1 Robles, Francis (5. febrúar 2019). „Former President of Costa Rica Is Accused of Sexual Assault“. The New York Times. Sótt 7. febrúar 2019.
  14. Cordoba, Javier (5. febrúar 2019). „Costa Rica ex-leader Oscar Arias accused of sexual assault“. The Washington Post. Afrit af upprunalegu geymt þann 5 febrúar 2019. Sótt 7. febrúar 2019.


Fyrirrennari:
Luis Alberto Monge
Forseti Kosta Ríka
(8. maí 19868. maí 1990)
Eftirmaður:
Rafael Ángel Calderón Fournier
Fyrirrennari:
Abel Pacheco
Forseti Kosta Ríka
(8. maí 20068. maí 2010)
Eftirmaður:
Laura Chinchilla