Fara í innihald

Perú

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lýðveldið Perú
República del Perú
Fáni Perú Skjaldarmerki Perú
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Firme y feliz por la unión (spænska)
Staðfastur og hamingjusamur fyrir sambandið
Þjóðsöngur:
Himno Nacional del Perú
Staðsetning Perú
Höfuðborg Líma
Opinbert tungumál spænska (quechua og aymara sumstaðar opinbert tungumál)
Stjórnarfar Forsetalýðveldi

Forseti Dina Boluarte
Varaforseti Enginn
Forsætisráðherra Alberto Otárola
Sjálfstæði frá Spáni
 • Yfirlýst 28. júlí 1821 
 • Staðfest 9. desember 1824 
 • Viðurkennt 14. ágúst 1879 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
20. sæti
1.285.216 km²
0,41
Mannfjöldi
 • Samtals (2020)
 • Þéttleiki byggðar
41. sæti
32.824.358
23/km²
VLF (KMJ) áætl. 2020
 • Samtals 505,450 millj. dala (36. sæti)
 • Á mann 15.399 dalir (85. sæti)
VÞL (2018) 0.763 (82. sæti)
Gjaldmiðill sol
Tímabelti UTC-5
Þjóðarlén .pe
Landsnúmer +51

Perú er land í vesturhluta Suður-Ameríku, með landamæri að Ekvador og Kólumbíu í norðri, Brasilíu í austri, Bólivíu í austri, suðaustri og suðri og Chile í suðri. Í vestri liggur landið að Kyrrahafinu.

Í Perú stóð Norte Chico-menningin, elsta fornmenning Ameríku, frá 30. öld f.Kr. til 18. aldar f.Kr. Þar var líka vagga Inkaveldisins þar til Francisco Pizarro lagði það undir Spán 1532 til 1536. Síðasti Inkaleiðtoginn, Túpac Amaru var þó ekki drepinn fyrr en 1572. Spænska heimsveldið gerði Perú að varakonungsdæmi með Líma sem höfuðborg. Þaðan var öllum nýlendum Spánar í Suður-Ameríku stjórnað. Landið fékk sjálfstæði í kjölfar herfara José de San Martín og Simón Bolívar árið 1821. Um miðja 19. öld batnaði efnahagur landsins vegna útflutnings á gúanói en það gekk til þurrðar um 1870. Perú beið ósigur fyrir Chile í Kyrrahafsstríðinu 1879-1883. Eftir heimskreppuna 1930 skiptust borgaralegar stjórnir og herforingjastjórnir á að fara með völd. Eftir 1979 hefur lýðræði verið virkt en á sama tíma hafa staðið yfir hörð innanlandsátök vegna starfsemi eiturlyfjahringja og skæruliðasamtaka á borð við Skínandi stíg og Byltingarhreyfinguna Túpac Amaru.

Íbúar Perú eru rúmlega þrjátíu milljónir og þar af búa tæplega þrjár milljónir í höfuðborginni, Líma. Spænska er opinbert tungumál landsins þótt frumbyggjamálin quechua og aymara njóti einnig opinberrar stöðu. Yfir 80% íbúa eru rómversk-kaþólskir. Um helmingur starfa er í þjónustugeiranum en helstu útflutningsvörur landsins eru málmar á borð við kopar, sink og gull, auk jarðolíu.

Nafn landsins er hugsanlega dregið af Birú sem var nafn höfðingja sem bjó við San Miguel-flóa við Panama, snemma á 16. öld.[1] Spænskir landvinningamenn sem komu þangað árið 1522 töldu það vera syðsta hluta Nýja heimsins.[2] Þegar Francisco Pizarro réðist inn í landið sunnan við það kölluðu þeir það Birú eða Perú.[3]

Önnur skýring er frá rithöfundinum Inca Garcilaso de la Vega, sem var sonur Inkaprinsessu og landvinningamaður. Hann segir að nafnið Birú hafi verið nafn venjulegs indíána sem varð á vegi áhafnar skips sem var í könnunarleiðangri á vegum landstjórans Pedro Arias de Ávila. Frásögninni fylgja fleiri dæmi um misskilning vegna ólíkra tungumála.[4]

Innan Spænska heimsveldisins varð nafnið opinbert við uppgjöf Toledo árið 1529, þar sem Inkaveldið var gert að héraðinu Perú.[5] Undir spænskum yfirráðum fékk landið heitið Varakonungdæmið Perú, sem varð Lýðveldið Perú eftir sjálfstæðisstríð Perú.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Perú skiptist í 25 héruð og Límaumdæmi. Í hverju héraði er lýðræðislega kjörin stjórn með héraðsforseta sem situr í fjögur ár. Yfir Líma er borgarráð.

Héruð
Umdæmi

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]
Machu Picchu.

Perú er á miðri vesturströnd Suður-Ameríku við Kyrrahaf. Landið er að öllu leyti á Suðurhveli Jarðar. Nyrsti oddi landsins er aðeins 3,3 km sunnan við miðbaug. Landið þekur 1.285.216 km². Það á landamæri að Ekvador og Kólumbíu í norðri, Brasilíu í austri, Bólivíu í suðaustri og Chile í suðri. Andesfjöll liggja samsíða ströndinni og afmarka þau þrjú landfræðilegu svæði sem Perú er venjulega skipt í.

Í vestri er ströndin (costa), mjótt láglendissvæði sem er að mestu þurrt fyrir utan nokkra dali sem árstíðabundin vatnsföll hafa skapað. Í Andesfjöllunum (sierra) er Andeshálendið, Altiplano, og hæsti tindur landsins, Huascarán, sem nær 6.768 metra hæð yfir sjávarmáli. Þriðja landsvæðið er skógurinn (selva) á Amasónsvæðinu austan við fjöllin. Um 60% af landinu eru þetta svæði. Í Perú eru 54 vatnasvið; 52 þeirra eru lítil vatnasvið sem renna út í Kyrrahafið, eitt er hluti af vatnasviði Amasónfljóts sem rennur út í Atlantshaf og nær yfir 75% af landsvæði Perú, og eitt er lokað vatnasvið Titikakavatns. Í Perú er að finna 4% af ferskvatni jarðar.

Flestar ár Perú eiga upptök sín í Andesfjöllum og renna út í ýmist Kyrrahaf, Amasónfljót eða Titikakavatn. Þær ár sem renna út í Kyrrahafið eru stuttar og árstíðabundnar. Þverár Amasónfljóts eru lengri og hægari eftir að þær renna út úr fjallgarðinum. Þær ár sem renna út í Titikakavatn eru stuttar og breiðar. Lengstu ár Perú eru Ucayali, Marañón, Putumayo, Yavarí, Huallaga, Urubamba, Mantaro og Amasónfljót.

Stærsta stöðuvatn Perú er Titikakavatn sem liggur á landamærum Perú og Bólivíu, hátt í Andesfjöllum, og er jafnframt stærsta stöðuvatn Suður-Ameríku. Í strandhéruðunum eru stór uppistöðulón.

Loftslagsbelti í Perú.

Veðurfar í Perú er fjölbreytt og stafar af staðsetningu landsins suður af miðbaug, háum fjöllum, breytilegri landfræði, Humboldt-straumnum og El Niño-sveiflunni. Við ströndina er hiti tempraður, lítil úrkoma og mikill raki nema í norðurhlutanum þar sem er meiri hiti. Í fjallahéruðunum er mikil úrkoma á sumrin og hiti og raki minnka eftir því sem ofar dregur, upp að ísi lögðum tindum Andesfjalla. Amasónsvæðið í Perú einkennist af rigningu og háum hita, nema í syðsta hlutanum þar sem eru kaldir vetur og árstíðabundin úrkoma.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Porras Barrenechea, Raúl. El nombre del Perú. Lima: Talleres Gráficos P.L. Villanueva, 1968, p. 83.
  2. Raúl Porras Barrenechea, El nombre del Perú, p. 84.
  3. Raúl Porras Barrenechea, El nombre del Perú, p. 86.
  4. Vega, Garcilasco, Commentarios Reales de los Incas, Editorial Mantaro, Lima, ed. 1998. pp. 14–15. Fyrsta útgáfa í Lissabon 1609.
  5. Raúl Porras Barrenechea, El nombre del Perú, p. 87.
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.