Túniski þjóðarsamræðukvartettinn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Fulltrúar Þjóðarsamræðukvartettsins á ráðstefnu í Vín árið 2016.

Túniski þjóðarsamræðukvartettinn (arabíska: الرباعي التونسي للحوار الوطني‎, franska: Quartet du dialogue national) eða Túniskvartettinn er hópur fjögurra samtaka sem unnu saman að því að stofna til lýðræðislegs fjölflokkakerfis í Túnis eftir túnisku byltinguna árið 2011. Eftir byltinguna var alls óvíst að lýðræði gæti orðið til í landinu og landið rambaði á barmi borgarastyrjaldar líkt og mörg önnur lönd sem höfðu farið í gegnum byltingu í arabíska vorinu.[1] Þjóðarsamræðukvartettinn átti drjúgan þátt í því að stýra landinu í átt að lýðræði eftir byltinguna og er túniska byltingin fyrir vikið gjarnan talin sú farsælasta sem braust út í arabíska vorinu.

Kvartettinn var stofnaður sumarið 2013 og vann til friðarverðlauna Nóbels árið 2015. Nóbelsverðlaunanefndin sagði kvartettinn hafa „komið á friðsamlegu, pólitísku ferli þegar landið var á barmi borgarastyrjaldar. Þannig hafi tekist að koma á stjórnkerfi í landinu sem tryggi mannréttindi allra borgaranna, burtséð frá kyni, stjórnmála- eða trúarskoðunum.“[1]

Þjóðarsamræðukvartettinn telur til sín eftirfarandi stofnanir:

  • Verkalýðshreyfingu Túnis (UGTT eða Union Générale Tunisienne du Travail)
  • Iðnaðar-, viðskipta og handiðnahreyfingu Túnis (UTICA eða Union Tunisienne de l’Industrie, du Commerce et de l’Artisanat)
  • Mannréttindabandalag Túnis (LTDH eða La Ligue Tunisienne pour la Défense des Droits de l’Homme)
  • Lögmannaráð Túnis (Ordre National des Avocats de Tunisie)

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 „Túnis-kvartettinn hlýtur Friðarverðlaun Nóbels“. Vísir. 9. október 2015. Sótt 1. október 2018.