Abiy Ahmed
Abiy Ahmed | |
---|---|
አብይ አህመድ | |
Forsætisráðherra Eþíópíu | |
Núverandi | |
Tók við embætti 2. apríl 2018 | |
Forseti | Mulatu Teshome Sahle-Work Zewde Taye Atske Selassie |
Forveri | Hailemariam Desalegn |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 15. ágúst 1976 Beshasha, Eþíópíu |
Þjóðerni | Eþíópískur |
Stjórnmálaflokkur | Velmegunarflokkurinn (2019–) Orómó-lýðræðisflokkurinn (til 2019) |
Maki | Zinash Tayachew |
Börn | 3 |
Háskóli | Háskólinn í Addis Ababa |
Verðlaun | Friðarverðlaun Nóbels (2019) |
Abiy Ahmed Ali (amharíska: አብይ አህመድ አሊ) (f. 15. ágúst 1976) er eþíópískur stjórnmálamaður sem er fjórði og núverandi forsætisráðherra Eþíópíu, í embætti frá 2. apríl 2018. Hann er forseti Velmegunarflokksins, sem var myndaður í desember 2019 upp úr Lýðræðis- og byltingarhreyfingu eþíópísku þjóðarinnar, stjórnarflokki Eþíópíu frá falli Derg-stjórnarinnar á tíunda áratugnum. Áður var hann formaður Orómó-lýðræðisflokksins, sem var einn af fjórum aðildarflokkum í Lýðræðis- og byltingarhreyfingunni. Abiy er einnig kjörinn meðlimur eþíópíska þingsins og meðlimur í framkvæmdarnefndum stjórnarflokkanna.
Snemma eftir valdatöku sína stóð Abiy fyrir fjölda stjórnmála- og efnahagsumbóta í frjálsræðisátt. Einnig hefur hann staðið að samningu formlegs friðarsáttmála Eþíópíumanna við Erítreu. Aftur á móti hefur stjórnartíð Abiy einnig einkennst af mannskæðum átökum milli eþíópískra þjóðernishópa og af stríði alríkisstjórnarinnar gegn uppreisnarhreyfingum í Tígraí-héraði.
Abiy er fyrsti leiðtogi Eþíópíu sem er af Orómó-þjóðerni.[1] Abiy hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 2019 fyrir friðarviðræður sínar við Erítreu og umbætur innan Eþíópíu.[2]
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Abiy Ahmed fæddist árið 1976 í Eþíópíu. Faðir hans var múslimi en móðir hans kristin. Á táningsárum sínum tók hann þátt í vopnaðri andspyrnu gegn herforingjastjórn Derg, sem réð Eþíópíu til ársins 1987. Í stríði Eþíópíu og Erítreu árin 1998-2000 stýrði Abiy njósnaliði sem safnaði upplýsingum inni á yfirráðasvæði erítreska hersins. Abiy hóf þátttöku í stjórnmálum árið 2010 og var kjörinn á eþíópíska þingið fyrir Orómó-lýðræðisflokkinn.[3] Hann nam tölvuverkfræði og lauk doktorsprófi í friðar- og öryggisfræðum við Háskólann í Addis Ababa árið 2017.[4]
Stjórnartíð
[breyta | breyta frumkóða]Abiy Ahmed gerðist forsætisráðherra í apríl árið 2018 eftir að Hailemariam Desalegn sagði af sér í kjölfar tveggja ára mótmælaöldu.[5] Eftir að Abiy tók við völdum lét hann fljótt aflétta neyðarlögum sem sett höfðu verið við afsögn Desalegns þótt áætlað hefði verið að þau ættu að vara í hálft ár. Hann lét einnig sleppa pólitískum föngum, rak fjölda embættismanna sem höfðu verið sakaðir um spillingu og lýsti yfir vilja til að auka viðskiptafrelsi í landinu.[6]
Sem forsætisráðherra samdi Abiy um formlegan friðarsáttmála við Erítreu.[7] Ríkin tvö höfðu verið í stríði frá 1998 til 2000 en sáttmálinn sem batt enda á virk átök hafði aldrei verið samþykktur og því ríkti enn formlega stríðsástand milli þjóðanna. Með friðarsáttmálanum var stjórmálasambandi komið á milli ríkjanna og landamæri þeirra opnuð. Í því felst að byrjað verður að fljúga milli landanna, hafnir verða opnaðar, fólki leyft að ferðast á milli þeirra og sendiráð verða opnuð.[8]
Landamæri ríkjanna voru opnuð þann 11. september og hermenn hófust handa við að fjarlægja jarðsprengjur á landamærunum.[9]
Í efnahagsmálum hefur Abiy verið málsvari frjálslyndisvæðingar. Ríkisstjórn hans hefur meðal annars lýst yfir að hún hyggist binda enda á einokun ríkisins á raforku, flugfélögum og fjarskiptum.[10] Í október 2018 kynnti Abiy nýja ríkisstjórn þar sem helmingur ráðherra voru konur.[11]
Þótt Abiy sé fyrsti Orómóinn sem stýrir Eþíópíu hefur stjórn hans mætt harðsvírugum mótmælum af hálfu eþíópískra Orómóa, sem telja sig búa við verri kjör en aðrir landsmenn og telja stjórn Abiy ekki hafa staðið við fyrirheit um úrbætur á þjóðflokkamismunun innan ríkisins. Stórtæk mótmæli brutust út í júlí árið 2020 eftir að söngvarinn Hachalu Hundessa, vinsæll talsmaður Orómóa, var skotinn til bana.[12] Þann 8. júlí höfðu að minnsta kosti 239 manns látist í mótmælum og óeirðum sem hófust vegna morðsins.[13] Einnig var sú ákvörðum Abiy að fresta boðuðum þingkosningum sem áttu að fara fram þann 29. ágúst 2020 vegna alþjóðlega kórónaveirufaraldursins afar umdeild.[14]
Í október 2021 hóf Abiy Ahmed formlega annað fimm ára kjörtímabil.
Stríðið í Tígraí-héraði
[breyta | breyta frumkóða]Í nóvember árið 2020 sendi Abiy eþíópíska herinn inn í Tígraí-hérað Eþíópíu eftir að vopnaðar sveitir Tígra réðust á eþíópíska herstöð. Debretsion Gebremichael, héraðsforseti Tígraí, sagði að Tígrar skyldu búa sig undir átök gegn alríkisstjórninni og að stríðsástand ríkti nú í héraðinu.[15] Mikil spenna hafði verið undanfarna mánuði á milli stjórnar Abiy og stjórnarflokks Tígraí-héraðs, Þjóðfrelsishreyfingar Tígra (TPLF). Þjóðfrelsishreyfingin hafði áður verið ein helsta þungavigtin innan Lýðræðis- og byltingarhreyfingar eþíópísku þjóðarinnar, sem stýrði Eþíópíu frá 10. áratugnum, en eftir að Abiy komst til valda döluðu áhrif Tígra verulega. Þegar Abiy steypti aðildarflokkum Lýðræðis- og byltingarhreyfingarinnar saman í nýjan flokk, Velmegunarflokkinn, árið 2019 ákvað Þjóðfrelsishreyfing Tígra að vera ekki með í nýja flokknum. Þjóðfrelsishreyfingin sætti sig ekki við frestun Abiy á þingkosningum vegna kórónaveirufaraldursins og hélt sínar eigin kosningar í Tígraí-héraði í september 2020 sem alríkisstjórnin mat ólöglegar.[16]
Þann 29. nóvember lýsti Abiy því yfir að stjórnarherinn hefði hertekið Mekelle, höfuðborg Tígraí-héraðs, og náð fullu valdi á héraðinu. Átök í Tígraí-héraði hafa þó haldið áfram.[17] Stjórnarherinn naut aðstoðar bandamanna Abiy frá Erítreu í hernaðinum gegn Þjóðfrelsishreyfingunni. Starfsmenn Amnesty International telja að bæði eþíópíski og erítreski herinn hafi framið fjölda stríðsglæpa í átökunum og að erítreskir hermenn hafi meðal annars framið fjöldamorð á óbreyttum borgurum í borginni Aksum.[18]
Kosningar voru haldnar á eþíópíska þingið í júní 2021 en vegna hernámsins og áframhaldandi átaka í Tígraí var ekki kosið í kjördæmum héraðsins.[19] Stuttu eftir að kosningarnar fóru fram náði andspyrnuhreyfing Tígra aftur völdum í borginni Mekelle. Stjórn Abiy lýsti einhliða yfir vopnahléi vegna mannúðarsjónarmiða.[20]
Í byrjun nóvember 2021 lýsti Abiy yfir neyðarástandi í Eþíópíu þar sem sveitir TPLF höfðu þá hafið framrás inn í Amhara-hérað og voru farnar að ógna höfuðborginni Addis Ababa.[21] Í desember tókst Eþíópíuher hins vegar að stöðva sókn TPLF-liða og frelsa mikilvægar borgir og bæir undan hernámi þeirra.[22] Í júní 2022 skipaði Abiy nefnd til að undirbúa friðarviðræður við uppreisnarhópana.[23]
Í nóvember árið 2022 komust sendinefndir ríkisstjórnar Eþíópíu og uppreisnarhópanna í Tígraí að samkomulagi um „varanlega stöðvun stríðsátaka“ eftir friðarviðræður í Pretoríu sem Afríkusambandið hafði milligöngu um.[24]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „Mannfall í sprengingu“. mbl.is. 23. júní 2018. Sótt 1. október 2018.
- ↑ Ásgeir Tómasson (11. október 2019). „Forsætisráðherra Eþíópíu fær friðarverðlaun“. RÚV. Sótt 11. október 2019.
- ↑ „Nobel Peace Prize: Ethiopia PM Abiy Ahmed wins“ (enska). BBC. 11. október 2019. Sótt 11. október 2019.
- ↑ Davíð Stefánsson (11. október 2020). „Vindar vonar blása sterkar í Afríku“. Fréttablaðið. Afrit af upprunalegu geymt þann 3. mars 2021. Sótt 25. nóvember 2020.
- ↑ „Neyðarlögum aflétt í Eþíópíu“. RÚV. 5. júní 2018. Sótt 1. október 2018.
- ↑ Kristinn Valdimarsson (12. júlí 2018). „Sögulegar sættir milli Eþíópiu og Erítreu“. Varðberg. Sótt 1. október 2018.
- ↑ „„Stríðinu er lokið"“. mbl.is. 9. júlí 2018. Sótt 1. október 2018.
- ↑ „Guterres til Eþíópíu í kjölfar friðarsamkomulags“. Vísir. 9. júlí 2018. Sótt 1. október 2018.
- ↑ „Landamærin opnuð á ný eftir 20 ár“. RÚV. 11. september 2018. Sótt 1. október 2018.
- ↑ „ከኢህአዴግ ስራ አስፈፃሚ ኮሚቴ የተሰጠ መግለጫ ግንቦት 28 ቀን 2010“. eprdf.org.et (amharíska). የኢትዮጵያ ህዝቦች አብዮታዊ ዴሞክራሲያዊ ግንባር. 5. júní 2018. Afrit af upprunalegu geymt þann 13. júní 2018. Sótt 1. október 2018.
- ↑ „Helmingur ráðherra í Eþíópíu nú konur“. Vísir. 16. október 2018. Sótt 16. október 2018.
- ↑ „166 látnir eftir mótmæli og óeirðir í Eþíópíu“. mbl.is. 5. júlí 2020. Sótt 8. júlí 2020.
- ↑ Kristján Róbert Kristjánsson (8. júlí 2020). „Nærri 240 hafa látist í átökum í Eþíópíu“. RÚV. Sótt 8. júlí 2020.
- ↑ Kristján Róbert Kristjánsson (1. apríl 2020). „Kosningum frestað vegna kórónuveirufaraldursins“. RÚV. Sótt 28. september 2020.
- ↑ Atli Ísleifsson (6. nóvember 2020). „Óttast að Eþíópía sé á barmi borgarastyrjaldar“. Vísir. Sótt 6. nóvember 2020.
- ↑ Desta Gebremedhin (5. nóvember 2020). „Tigray crisis: Why there are fears of civil war in Ethiopia“ (enska). BBC. Sótt 10. nóvember 2020.
- ↑ „Abiy segir stjórnarherinn með fullt vald í Tigray“. mbl.is. 29. nóvember 2020. Sótt 30. nóvember 2020.
- ↑ Róbert Jóhannsson (26. febrúar 2021). „Segja Erítreu seka um glæpi gegn mannkyninu“. RÚV. Sótt 3. mars 2021.
- ↑ „Gengið til kosninga í Eþíópíu“. mbl.is. 21. júní 2021. Sótt 30. júní 2021.
- ↑ „Andspyrnuhreyfingar náðu Mekelle aftur á sitt vald“. mbl.is. 29. júní 2021. Sótt 30. júní 2021.
- ↑ „Neyðarástand í Eþíópíu vegna uppreisnarsveitar“. mbl.is. 3. nóvember 2021. Sótt 4. nóvember 2021.
- ↑ „Eþíópíuher snýr vörn í sókn“. Fréttablaðið. 12. desember 2021. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. nóvember 2022. Sótt 25. júní 2022.
- ↑ „Vilja semja um frið í Eþíópíu“. Fréttablaðið. 18. júní 2022. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. nóvember 2022. Sótt 25. júní 2022.
- ↑ „Borgarastyrjöldinni í Eþíópíu lokið“. mbl.is. 2. nóvember 2022. Sótt 6. nóvember 2022.
Fyrirrennari: Hailemariam Desalegn |
|
Eftirmaður: Enn í embætti |