Abiy Ahmed

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Abiy Ahmed
አብይ አህመድ
Abiy.jpg
Forsætisráðherra Eþíópíu
Núverandi
Tók við embætti
2. apríl 2018
Persónulegar upplýsingar
Fæddur15. ágúst 1976 (1976-08-15) (43 ára)
Besjasa, Kaffa-fylki, Eþíópíu
ÞjóðerniEþíópískur
StjórnmálaflokkurOrómó-lýðræðisflokkurinn
MakiZinash Tayachew
Börn3 dætur
HáskóliHáskólinn í Addis Ababa

Abiy Ahmed Ali (amharíska: አብይ አህመድ አሊ) (f. 15. ágúst 1976) er eþíópískur stjórnmálamaður sem er 15. og núverandi forsætisráðherra Eþíópíu, í embætti frá 2. apríl 2018. Hann er formaður Lýðræðis- og byltingarhreyfingar eþíópísku þjóðarinnar og Orómó-lýðræðisflokksins, sem er einn af fjórum aðildarflokknum í Lýðræðis- og byltingarhreyfingunni. Abiy er einnig kjörinn meðlimur eþíópíska þingsins og meðlimur í framkvæmdarnefndum stjórnarflokkanna.

Síðan hann tók við völdum hefur Abiy staðið fyrir fjölda stjórnmála- og efnahagsumbóta í frjálsræðisátt. Einnig hefur hann staðið að samningu formlegs friðarsáttmála Eþíópíumanna við Erítreu.

Abiy er fyrsti leiðtogi Eþíópíu sem er af Orómó-þjóðerni.[1]

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Abiy Ahmed gerðist forsætisráðherra í apríl árið 2018 eftir að Hailemariam Desalegn sagði af sér í kjölfar tveggja ára mótmælaöldu.[2] Eftir að Abiy tók við völdum lét hann fljótt aflétta neyðarlögum sem sett höfðu verið við afsögn Desalegns þótt áætlað hefði verið að þau ættu að vara í hálft ár. Hann lét einnig sleppa pólitískum föngum, rak fjölda embættismanna sem höfðu verið sakaðir um spillingu og lýsti yfir vilja til að auka viðskiptafrelsi í landinu.[3]

Sem forsætisráðherra samdi Abiy um formlegan friðarsáttmála við Erítreu.[4] Ríkin tvö höfðu verið í stríði frá 1998 til 2000 en sáttmálinn sem batt enda á virk átök hafði aldrei verið samþykktur og því ríkti enn formlega stríðsástand milli þjóðanna. Með friðarsáttmálanum var stjórmálasambandi komið á milli ríkjanna og landamæri þeirra opnuð. Í því felst að byrjað verður að fljúga milli landanna, hafnir verða opnaðar, fólki leyft að ferðast á milli þeirra og sendiráð verða opnuð.[5]

Landamæri ríkjanna voru opnuð þann 11. september og hermenn hófust handa við að fjarlægja jarðsprengjur á landamærunum.[6]

Í efnahagsmálum hefur Abiy verið málsvari frjálslyndisvæðingar. Ríkisstjórn hans hefur meðal annars lýst yfir að hún hyggist binda enda á einokun ríkisins á raforku, flugfélögum og fjarskiptum.[7]

Í október 2018 kynnti Abiy nýja ríkisstjórn þar sem helmingur ráðherra voru konur.[8]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Mann­fall í spreng­ingu". . (mbl.is). 23. júní 2018. Skoðað 1. október 2018.
  2. „Neyðarlögum aflétt í Eþíópíu". . (RÚV). 5. júní 2018. Skoðað 1. október 2018.
  3. Kristinn Valdimarsson (12. júlí 2018). „Sögulegar sættir milli Eþíópiu og Erítreu“. Varðberg. Sótt 1. október 2018.
  4. „„Stríðinu er lokið“". . (mbl.is). 9. júlí 2018. Skoðað 1. október 2018.
  5. „Guterres til Eþíópíu í kjölfar friðarsamkomulags". . (Vísir). 9. júlí 2018. Skoðað 1. október 2018.
  6. „Landamærin opnuð á ný eftir 20 ár". . (RÚV). 11. september 2018. Skoðað 1. október 2018.
  7. „ከኢህአዴግ ስራ አስፈፃሚ ኮሚቴ የተሰጠ መግለጫ ግንቦት 28 ቀን 2010“. eprdf.org.et (Amharíska). የኢትዮጵያ ህዝቦች አብዮታዊ ዴሞክራሲያዊ ግንባር. 5. júní 2018. Sótt 1. október 2018.
  8. „Helmingur ráðherra í Eþíópíu nú konur“. Vísir. 16. október 2018. Sótt 16. október 2018.


Fyrirrennari:
Hailemariam Desalegn
Forsætisráðherra Eþíópíu
(2. apríl 2018 – )
Eftirmaður:
Enn í embætti