Ný gjöf

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Veggmynd innblásin af framkvæmdaráætlunum fjórða áratugarins eftir William Gropper.

Ný gjöf (enska: New Deal) var nafn á aðgerðaáætlun sem Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseti hrinti í framkvæmd til þess að takast á við kreppuna miklu í Bandaríkjunum á fjórða áratuginum. Nafn áætlunarinnar fékk Roosevelt úr spilamennsku[1][2] og vísar það til þess að verið sé að stokka upp spilum og gefa upp á nýtt.

Stefnumálin sem Roosevelt kynnti með nýju gjöfinni voru fráhvarf frá ríkjandi efnahagshugmyndum þessa tíma, sem gerðu ráð fyrir mjög takmörkuðum ríkisafskiptum af atvinnulífinu.[2][3]

Roosevelt gerði sér grein fyrir því að til þess að geta haldið uppi iðnaði í eins stóru landi og Bandaríkjunum þyrfti að byggja upp samgönguinnviði landsins. Meðal þess sem stjórn hans réðst í með nýju gjöfinni voru ný bankalög, ný efnahagslög, umbætur á félagslega kerfinu sem tryggðu réttindastöðu verkalýðsfélaga og atvinnuleysisbætur. Roosevelt lét einnig banna barnavinnu.[2] Roosevelt setti lög sem skertu laun opinberra starfsmanna, þar á meðal sjálfs forsetans, og nýtti sparnaðinn (sem nam um fimm hundruð milljónum dollara) til þess að koma á fót ýmsum nýjum verkefnum sem sköpuðu atvinnu.[4]

Efnahagslíf Bandaríkjanna batnaði mjög á árum nýju gjafarinnar og atvinnuleysi minnkaði.[4] Gagnrýnendur stefnunnar hafa hins vegar bent á að efnahagurinn hafi ekki náð fullri viðreisn fyrr en með inngöngu Bandaríkjanna í seinni heimsstyrjöldina og með hergagnaiðnaði sem þá fór á flug í landinu.

Stefna Roosevelt og nafngift hennar var að nokkru leyti tilvísun í efnahagsaðgerðir fyrri Bandaríkjaforseta. Theodore Roosevelt hafði á sínum tíma viðhaldið stefnu sem kallaðist „réttlát úthlutun“ (e. Square Deal) og Woodrow Wilson hafði rekið stefnu sem hann kallaði „nýja frelsið“ (e. New Freedom).[5] Seinni forsetar Bandaríkjanna, sér í lagi úr Demókrataflokknum, áttu eftir að gefa efnahagsstefnum sínum svipuð nöfn: Harry S. Truman fylgdi nýju gjöfinni eftir með „réttlátu gjöfinni“[6] (e. Fair Deal), John F. Kennedy kallaði stefnu sína „nýjar hugsjónalendur“[7] (e. New Frontier) en Lyndon B. Johnson nefndi stefnu sína „hið mikla þjóðfélag“ (e. Great Society).[8]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Urður bókafélag. bls. 299.
  2. 2,0 2,1 2,2 „Roosevelt og New Deal-stefnan“. Morgunblaðið. 10. apríl 2005. Sótt 11. desember 2018.
  3. „Alþýðulist gegn kreppu“. Þjóðviljinn. 18. apríl 1989. Sótt 11. desember 2018.
  4. 4,0 4,1 Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Urður bókafélag. bls. 300.
  5. Skúli Magnússon (26. júlí 1940). „Hinn brosandi forseti“. Fálkinn. bls. 5-6.
  6. „Bandaríkin eftir 1945“. NT. 19. maí 1985. bls. 14-15.
  7. Þorsteinn Thorarensen (27. nóvember 1963). „Hver verður stefna JOHNSONS?“. Vísir. bls. 7; 10.
  8. Jóhann Hannesson (27. nóvember 1963). „Andleg heilsa einstaklingsins í velferðarþjóðfélagi“. Vikan. bls. 10-11; 41.