Ný gjöf
![](http://upload.wikimedia.org/wikipedia/commons/thumb/6/67/NewDeal.jpg/220px-NewDeal.jpg)
Ný gjöf (enska: New Deal) eða uppstokkunin (oft nefnd „viðreisnaráætlun“ eða „viðreisnarlöggjöf Roosevelts“ í íslenskum fjölmiðlum á 4. áratug 20. aldar) var nafn á aðgerðaáætlun sem Franklin D. Roosevelt Bandaríkjaforseti hrinti í framkvæmd til þess að takast á við kreppuna miklu í Bandaríkjunum á fjórða áratugnum. Nafn áætlunarinnar fékk Roosevelt úr spilamennsku.[1][2] Það vísar til þess að stokka spil og gefa upp á nýtt.
Stefnan sem Roosevelt kynnti með nýju gjöfinni var fráhvarf frá ríkjandi efnahagshugmyndum þessa tíma sem gerðu ráð fyrir mjög takmörkuðum ríkisafskiptum af atvinnulífinu.[2][3] Roosevelt áleit að til þess að halda uppi iðnaði í stóru landi eins og Bandaríkjunum þyrfti að byggja upp samgönguinnviði. Meðal þess sem stjórn hans réðist í með nýju gjöfinni voru ný bankalög, ný efnahagslög, félagslegar umbætur sem tryggðu stöðu verkalýðsfélaga og atvinnuleysisbætur. Roosevelt lét einnig banna barnavinnu.[2] Roosevelt setti lög sem skertu laun opinberra starfsmanna, þar á meðal sjálfs forsetans, og nýtti sparnaðinn (sem nam um fimm hundruð milljónum dollara) til þess að koma á fót ýmsum nýjum verkefnum sem sköpuðu atvinnu.[4]
Efnahagslíf Bandaríkjanna batnaði mjög á árum nýju gjafarinnar og atvinnuleysi minnkaði.[4] Gagnrýnendur stefnunnar hafa hins vegar bent á að efnahagurinn hafi ekki náð fullri viðreisn fyrr en með þátttöku Bandaríkjanna í seinni heimsstyrjöld og uppgangi hergagnaiðnaðarins í kjölfarið.
Stefna Roosevelts og heiti hennar var tilvísun í efnahagsaðgerðir fyrri Bandaríkjaforseta. Theodore Roosevelt hafði á sínum tíma sett fram stefnu sem kallaðist „réttlát gjöf“ (e. Square Deal) og Woodrow Wilson hafði rekið stefnu sem hann kallaði „nýja frelsið“ (e. New Freedom).[5] Seinni forsetar Bandaríkjanna, sér í lagi úr Demókrataflokknum, áttu eftir að gefa efnahagsstefnum sínum svipuð nöfn: Harry S. Truman fylgdi nýju gjöfinni eftir með „réttlátu gjöfinni“[6] (e. Fair Deal), John F. Kennedy kallaði stefnu sína „nýjar hugsjónalendur“[7] (e. New Frontier), en Lyndon B. Johnson nefndi stefnu sína „hið mikla þjóðfélag“ (e. Great Society).[8]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Urður bókafélag. bls. 299.
- ↑ 2,0 2,1 2,2 „Roosevelt og New Deal-stefnan“. Morgunblaðið. 10. apríl 2005. Sótt 11. desember 2018.
- ↑ „Alþýðulist gegn kreppu“. Þjóðviljinn. 18. apríl 1989. Sótt 11. desember 2018.
- ↑ 4,0 4,1 Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Urður bókafélag. bls. 300.
- ↑ Skúli Magnússon (26. júlí 1940). „Hinn brosandi forseti“. Fálkinn. bls. 5-6.
- ↑ „Bandaríkin eftir 1945“. NT. 19. maí 1985. bls. 14-15.
- ↑ Þorsteinn Thorarensen (27. nóvember 1963). „Hver verður stefna JOHNSONS?“. Vísir. bls. 7; 10.
- ↑ Jóhann Hannesson (27. nóvember 1963). „Andleg heilsa einstaklingsins í velferðarþjóðfélagi“. Vikan. bls. 10-11; 41.