Alva Myrdal

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Alva Myrdal
Alva Myrdal í Tierp árið 1968.
Fædd31. janúar 1902
Dáin1. febrúar 1986 (84 ára)
ÞjóðerniSænsk
MenntunStokkhólmsháskóli
StörfFélagsfræðingur, erindreki og stjórnmálamaður
FlokkurJafnaðarmannaflokkurinn
MakiGunnar Myrdal (g. 1924)
Börn3
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1982)

Alva Myrdal (31. janúar 1902 – 1. febrúar 1986) var sænskur félagsfræðingur, erindreki og stjórnmálamaður. Hún var lengi einn af foringjum alþjóðahreyfinga afvopnunarsinna. Hún var sæmd friðarverðlaunum Nóbels ásamt Alfonso García Robles árið 1982. Eiginmaður Ölvu Myrdal frá árinu 1924 var hagfræðingurinn Gunnar Myrdal, sem einnig var Nóbelsverðlaunahafi.

Æviágrip[breyta | breyta frumkóða]

Alva Myrdal fæddist undir nafninu Alva Reimer í Uppsölum þann 31. janúar árið 1902. Hún lauk stúdentsprófi utanskóla í Stokkhólmi og útskrifaðist með kandidatsgráðu í norrænum málum, bókmenntasögu og trúarbragðasögu úr Stokkhólmsháskóla tveimur árum síðar. Hún lauk síðan bakkalársprófi í uppeldisfræði, huglægri heimspeki og geðlækningafræði. Jafnframt lauk hún námskeiði í réttarlæknisfræði og vann um hríð sem aðstoðarmaður kennara í þeirri grein.[1]

Alva kynntist Gunnari Myrdal þegar hún var sautján ára og giftist honum árið 1924. Námsárið 1929 til 1930 fengu Alva og Gunnar bæði styrk til náms í Bandaríkjunum. Þar kynntust þau afleiðingum kreppunnar miklu af eigin raun og það stuðlaði að því að þau gerðust bæði sósíalistar. Árið 1932 gengu hjónin bæði í sænska Jafnaðarmannaflokkinn.[2]

Árið 1934 gáfu Gunnar og Alva út bókina Fólksfjölgunarkreppan (sænska: Kris i befolkningsfrågan) þar sem þau færðu rök fyrir því að í Svíþjóð fæddust of fá börn vegna þess að barnafjölskyldur skorti félagslegt öryggi. Í bókinni stungu þau, úr frá sérfræðisviði Ölvu sem félagssálfræðings og Gunnars sem þjóðhagfræðings, upp á víðamiklum endurbótum og lýstu yfir jákvæðum viðhorfum til aðflutnings útlendinga til Svíþjóðar. Bókin vakti mikla athygli Svía og féll vel í kramið hjá nýstofnaðri ríkisstjórn Per Albin Hansson, sem vann að hugsjónum um sænska „alþýðuheimilið“ og norræna velferðarkerfið. Margar af tillögum Myrdalshjónanna, meðal annars um ókeypis máltíðir í skólamötuneytum, fjárstyrki til barnafjölskyldna, kynfræðslu í skólum og afléttingu á banni við auglýsingum á getnaðarvörnum, voru framkvæmdar á næstu árum.[2]

Alva og Gunnar sneru aftur til Bandaríkjanna eftir útgáfu bókarinnar og kynntu sér skólamál þar í landi. Þegar þau sneru aftur til Svíþjóðar eftir tvö ár gáfu þau út bókina Samband við Ameríku og kynntu þar hugmyndir um þróun skólakerfis að bandarískri fyrirmynd. Í og eftir seinni heimsstyrjöldina vann Alva í sænskum stjórnmálum og var einnig rektor fyrstu félagsfræðistofnunarinnar sem stofnuð var í Stokkhólmi.[2]

Árið 1949 varð Alva Myrdal yfirmaður félagsmálefnadeildar Sameinuðu þjóðanna. Frá 1951 til 1955 var hún yfirmaður þjóðfélagsvísindadeildar UNESCO og frá 1955 til 1961 var hún sendiherra Svíþjóðar í Indlandi, Mjanmar, Nepal og Srí Lanka.[2][3] Á sendiherratíð sinni varð Alva návinur forsætisráðherra Indlands, Jawaharlal Nehru.[4]

Árið 1956 gaf Alva út bókina Tvö hlutverk kvenna ásamt enska félagsfræðingnum Violu Klein. Í bókinni héldu þær því fram að líf kvenna skiptust í þrenn tímabil: Menntunartíma, barnagæslutíma og ár eftir fertugt þegar börnin hefðu náð fullorðinsaldri. Í bókinni færðu þær rök fyrir því að það væri sóun á vinnukrafti að halda konum heima eftir fertugt og mæltu með því að konur á miðjum aldri fengju aukið aðgengi að atvinnulífinu.[2]

Frá árinu 1962 var Alva samningamaður við afvopnunarviðræður stórveldanna sem fóru fram í Genf. Á sama tíma var sat hún á sænska þinginu og var frá 1966 afvopnunarmálaráðherra og kirkjumálaráðherra í sænsku ríkisstjórninni. Árið 1976 gaf Alva út bókina Afvopnunarspilið þar sem hún lýsti slæmri reynslu sinni af tólf ára afvopnunarviðræðum í Genf.[2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Alva Myrdal“. Lesbók Morgunblaðsins. 8. febrúar 1967. Sótt 18. júní 2019.
  2. 2,0 2,1 2,2 2,3 2,4 2,5 „Friðarsinni og samfélagssmiður“. Dagblaðið Vísir. 8. febrúar 1986. Sótt 18. júní 2019.
  3. Hörður Zophoniasson (24. mars 1965). „Stöndum vörð um mannréttindi“. Alþýðublaðið. Sótt 18. júní 2019.
  4. „Alva Myrdal fær friðarverðlaun í fimmta sinn“. Morgunblaðið. 14. október 1982. Sótt 18. júní 2019.