Fara í innihald

Norman Angell

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Sir

Norman Angell
Fæddur26. desember 1872
Dáinn7. október 1967 (94 ára)
ÞjóðerniBreskur
MenntunGenfarháskóli
StörfRithöfundur, blaðamaður, fyrirlesari, stjórnmálamaður
FlokkurVerkamannaflokkurinn
MakiBeatrice Cuvellier
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1933)

Sir Ralph Norman Angell (26. desember 1872 – 7. október 1967) var enskur fyrirlesari, blaðamaður, rithöfundur og þingmaður fyrir breska Verkamannaflokkinn.[1] Angell hlaut friðarverðlaun Nóbels árið 1933 fyrir að semja bókina Blekkinguna miklu, þar sem hann færði rök fyrir því að stríð milli Evrópuþjóða myndi ekki færa neinn efnahagslegan ávinning.[2][3]

Fæðingarstaður Angells í Holbeach.

Angell var einn af sex börnum hjónanna Thomasar Angell Lane og Mary (fæddrar Brittain) Lane í Holbeach í Lincolnshire á Englandi.[3] Hann fæddist undir nafninu Ralph Norman Angell Lane en seinna á ævi sinni tók hann Angell upp sem eina eftirnafn sitt. Hann gekk í ýmsa skóla á Englandi, í Alexandre Ribot-gagnfræðiskólann í Saint-Omer í Frakklandi[3] og loks í Genfarháskóla, þar sem hann ritstýrði enskumælandi fréttablaði í Genf.[3]

Í Genf fór Angell að lítast illa á framtíðarhorfur Evrópu. Þegar hann var 17 ára flutti hann til vesturstrandar Bandaríkjanna[3] og vann þar í nokkur ár sem vínviðarræktarmaður, skurðgrafari, kúreki, landnemi, póstberi, námugrafari[4] og loks blaðamaður hjá blöðunum St. Louis Globe-Democrat og San Francisco Chronicle.[3]

Angell sneri heim til Englands í stuttan tíma til að sinna fjölskyldumálefnum árið 1898 en flutti síðan til Parísar til að vinna sem aðstoðarritstjóri hjá enskumælandi fréttablaðinu Daily Messenger[4] og síðan sem greinahöfundur hjá blaðinu Éclair. Hann vann sem fréttatengill í Frakklandi fyrir bandarísk dagblöð og sendi þeim umfjallanir um framvindu Dreyfus-málsins.[3] Á árunum 1905–12 var Angell ritstjóri Daily Mail í París.

Angell sneri heim til Englands og tók árið 1914 þátt í stofnun Lýðræðisstjórnarsambandsins (e. Union of Democratic Control), þrýstihóps sem kallaði á eftir endurskoðun á utanríkisstefnu Bretlands í fyrri heimsstyrjöldinni. Hann gekk til liðs við Verkamannaflokkinn árið 1920 og bauð sig fram á þing fyrir kjördæmið Rushcliffe árið 1922 og fyrir Rossendale-kjördæmi árið 1923. Angell sat á þingi fyrir kjördæmið Norður-Bradford frá 1929 til 1931 en eftir að Ramsay MacDonald, formaður Verkamannaflokksins, stofnaði þjóðstjórn með Íhaldsflokknum og Frjálslynda flokknum til að bregðast við kreppunni miklu tilkynnti Angell þann 24. september 1931 að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.[5] Árið 1931 hlaut Angell riddaranafnbót fyrir almenningsþjónustu sína og árið 1933 vann hann til friðarverðlauna Nóbels.[3] Angell bauð sig aftur fram á þing árið 1935 í kjördæmi Háskólans í London en náði ekki kjöri.

Frá miðhluta fjórða áratugarins talaði Angell fyrir alþjóðasamstöðu gegn herskáum utanríkisstefnum Þýskalands, Ítalíu og Japans. Hann ferðaðist til Bandaríkjanna árið 1940 til að flytja fyrirlestra þar sem hann hvatti Bandaríkjamenn til að styðja Breta í seinni heimsstyrjöldinni. Angell var áfram í Bandaríkjunum þar til hann gaf út sjálfsævisögu sína árið 1951. Hann sneri síðar aftur til Bretlands og lést, þá 94 ára, í Crodyon í Surrey árið 1967.[4]

Angell var kvæntur Beatrice Cuvellier en skildi síðar við hana og var einhleypur síðustu 55 ár ævi sinnar. Árið 1923 keypti Angell Northey-eyjuna í Essex, sem tengist meginlandinu aðeins í fjöru, og bjó í eina húsinu á eyjunni.

Nóbelsorða Angells og meðfylgjandi verðlaunaviðurkenning eru geymdar í stríðsminjasafninu í London.[6]

Blekkingin mikla

[breyta | breyta frumkóða]
Nóbelsorða Normans Angell frá árinu 1933.

Þekktasta verk Angells er bæklingurinn Sjónhverfing Evrópu frá árinu 1909, sem var birt næsta ár í bókaformi undir titlinum Blekkingin mikla (e. The Great Illusion). Boðskapur bókarinnar var sá að samruni milli efnahagskerfa Evrópuríkja hefði aukist svo að stríð milli ríkjanna yrði með öllu gagnslaust og að hernaðarhyggja væri þar með úrelt. Úrdrátturinn af baksíðu útgáfu bókarinnar frá árinu 1913 dró saman helstu rök Angells:

Gæsalappir

Hann sýnir fram á þessa greinilegu þversögn, með tilliti til efnahagsvandans, með því að sýna að auður í hinum hagfræðilega siðmenntaða heimi byggist á lánstrausti og viðskiptagerningum (sem eru afleiðing af innbyrðis efnahagstengslum vegna aukinnar verkaskiptingar og þróunar á samskiptabúnaði). Ef reynt er að hafa áhrif á lánstraust og viðskiptagerninga með því að gera eignir upptækar er þar með grafið undan stoðum auðsins, og hrun hans mun þá draga þann sem tók þær upptækar með sér; svo að ef landvinningar eiga ekki að skaða landvinningaþjóðina verður að virða eignir óvinarins, sem kemur um leið í veg fyrir fjárhagslegan ávinning af landvinningunum. Þess vegna er auður hernumdra svæða áfram í höndum íbúa hernámssvæðisins. Þegar Þýskaland innlimaði Elsass græddi enginn Þjóðverji eitt einasta mark af elsösskum eignum sem stríðsgóss. Landvinningar í nútímaheiminum eru það ferli að margfalda með x, og fá síðan upphaflegu töluna með því að deila með x. Að nútímaþjóð bæti við landsvæði sitt eykur ekki frekar við auð íbúa slíkrar þjóðar en að það myndi auka auð Lundúnabúa ef borgin London færi að innlima sýsluna Hertford.[7]

— .

Peningaleikurinn

[breyta | breyta frumkóða]

Angell var einnig hönnuður Peningaleiksins, myndrænnar aðferðar til að kenna skólabörnum grunnatriði í fjármálum og bankastarfsemi. The Money Game, How to Play It: A New Instrument of Economic Education kom fyrst út árið 1928 hjá útgáfufélaginu J. M. Dent & Sons og var bæði bók og leikur. Meirihluti bókarinnar var grein um peninga og umfjöllun um efnahagskenningar, en í henni var einnig útskýring á leikreglunum og á söguþræði leiksins.[8]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. National Archives
  2. The Edinburgh Gazette, 6. janúar 1931, bls. 12, sótt 9. júní 2016
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 3,5 3,6 3,7 Angell biography, nobelprize.org; accessed 11 September 2015.
  4. 4,0 4,1 4,2 „Ball State University“. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. september 2007. Sótt 9. apríl 2020.
  5. The Times, 25. september 1931, bls. 6.
  6. „Nobel Peace Prize gold medal 1933“. Imperial War Museum. Sótt 16. september 2018.
  7. Angell, Norman (1913), The Great Illusion: A Study of the Relation of Military Power in Nations to their Economic and Social Advantage (3. útgáfa), New York and London: G.P. Putnam's & Sons, bls. X–XI, sótt 10. júní 2016
  8. Christine Riggle (22. mars 2012). „How Depression-Era Children Learned About Money“. Bloomberg.com. Sótt 25. mars 2012.