Fara í innihald

Liu Xiaobo

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Þetta er kínverskt nafn: kenni- eða fjölskyldunafnið er Liu, eiginnafnið er Xiaobo.
Liu Xiaobo
刘晓波
Fæddur28. desember 1955(1955-12-28)
Dáinn13. júlí 2017 (61 árs)
DánarorsökKrabbamein
StörfRithöfundur, mannréttindaaðgerðasinni
MakiTao Li (g. 1982; skilin 1989)
Liu Xia (g. 1996)
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (2010)

Liu Xiaobo (kínverskt letur: 刘晓波; pinyin: Liú Xiǎobō; 28. desember 1955 – 13. júlí 2017) var kínverskur aðgerðasinni og handhafi friðarverðlauna Nóbels en hann hlaut þau árið 2010 „fyrir langa og friðsamlega baráttu sína fyrir grundvallarmannréttindum í Kína“.[1] Kínversk yfirvöld brugðust illa við afhendingunni og sögðu hana ganga gegn meginreglum verðlaunanna, ásamt því að vera „guðlast“ við verðlaunin. Árið 2009 var Liu dæmdur til 11 ára fangelsisvistar fyrir að grafa undan ríkisvaldinu.[2] Hann sat í stofufangelsi þar til hann lést árið 2017.

Liu Xiaobo fæddist árið 1955 og nam bókmenntafræði í háskóla. Hann útskrifaðist með meistaragráðu frá Beis­hida-háskól­anum í Beijing árið 1984 og var í kjölfarið ráðinn sem kennari við skólann. Liu varð vinsæll fyrirlesari og vann meðal annars sem gestaprófessor við Columbia-háskóla, Óslóarháskóla og ýmsar menntastofnanir í Evrópu.[3]

Liu sneri aftur til Kína árið 1989 og tók þátt í mótmælunum á Torgi hins himneska friðar. Liu var handtekinn fyrir þátttöku sína í mótmælunum og dæmdur til tveggja ára fangelsisvistar þar sem stjórnvöld töldu hann einn af hugmyndafræðingunum að baki þeirra. Hann var aftur handtekinn og dæmdur í sex mánaða fangelsi árið 1995 og síðan dæmdur til sex ára betrunarvinnu árið 1996 fyrir að „trufla stöð­ug­leik­ann í sam­fé­lag­inu“. Kínversk stjórnvöld fylgdust grannt með honum eftir að hann lauk við að afplána dóminn.[3]

Þann 8. nóvember árið 2008 var Liu handtekinn á ný ásamt félaga sínum fyrir að safna undirskriftum á skjal sem kallaðist Kafli 08 og þeir hugðust birta tveimur dögum síðar. Í skjalinu var áskorun til kínverskra stjórnvalda um að tryggja mannréttindi og aukið almenningsfrelsi. Réttað var yfir Liu þann 23. desember árið 2009 og hann sakaður um „ógnun við öryggi rík­is­ins og brot á kín­verskum lög­um“. Á jóladag var hann dæmdur í 11 ára fangelsi og sviptur borgaralegum réttindum í tvö ár.[3]

Þann 9. október árið 2010 tilkynnti norska Nóbelsnefndin að Liu skyldi sæmdur friðarverðlaunum Nóbels. Kínversk stjórnvöld brugðust illa við fréttunum, mótmæltu valinu við sendiherra Noregs í Kína og sögðu Nóbelsnefndina með þessu skipta sér af innanríkismálum Kínverja. Hvorki Liu né eiginkona hans, Liu Xia, fengu að vera viðstödd verðlaunaafhendinguna í Ósló og því var hafður auður stóll við athöfnina til að tákna fjarveru hans.[3]

Kunngert var í maí árið 2017 að Liu væri haldinn af krabbameini í lifur. Hann var fluttur á sjúkrahús í júní sama ár og lést þann 13. júlí.[3][4]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „The Nobel Peace Prize 2010 Liu Xiaobo“. Sótt 8. október 2010.
  2. „Liu Xiaobo Nobel win prompts Chinese fury“. Sótt 8. október 2010.
  3. 3,0 3,1 3,2 3,3 3,4 Borgþór Arngrímsson (5. janúar 2020). „Bókavörðurinn blés á Kínverjana“. Kjarninn. Sótt 22. maí 2020.
  4. „Nó­bels­verðlauna­haf­inn Liu Xia­o­bo lát­inn“. mbl.is. 13. júlí 2017. Sótt 22. maí 2020.
  Þetta æviágrip er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.