Fara í innihald

Paul Henri Balluet d'Estournelles de Constant

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Paul Henri Balluet d'Estournelles de Constant
Fæddur22. nóvember 1852
Dáinn15. maí 1924 (71 árs)
ÞjóðerniFranskur
StörfErindreki
MakiDaisy Sedgwick Berend
Verðlaun Friðarverðlaun Nóbels (1909)

Paul Henri Benjamin Balluet d'Estournelles de Constant, de Constant de Rebecque barón (22. nóvember 1852 – 15. maí 1924), var franskur erindreki og stjórnmálamaður sem vann friðarverðlaun Nóbels árið 1909 fyrir stuðning sinn við stofnun alþjóðlegra gerðardómstóla.

Paul Henri Balluet d'Estournelles de Constant fæddist í La Flèche í Loire-dalnum og var kominn af gamalli aðalsætt sem gat rakið sögu sína aftur til krossferðanna. Franski byltingarmaðurinn og rithöfundurinn Benjamin Constant var ömmubróðir hans.[1][2] Estournelles de Constant nam lögfræði og austurlandamál við háskólann Lycée Louis-le-Grand í París og hóf síðan störf í utanríkisþjónustunni árið 1876.[1]

Snemma á diplómataferli sínum var Estournelles de Constant staðsettur í Svartfjallalandi, Tyrkjaveldi, Hollandi og Túnis. Árið 1882 sneri hann aftur til Parísar til að gegna stöðu aðstoðarframkvæmdastjóra skrifstofu franska utanríkisráðuneytisins fyrir Botnalönd. Árið 1890 var hann sendur sem bráðabirgðasendiherra til Lundúna og átti þar þátt í að afstýra stríði vegna nýlendudeilna milli Frakklands og Bretlands.[1] Estournelles de Constant bauð sig fram á franska þingið árið 1895 og náði kjöri á neðri þingdeildina. Hann náði síðan kjöri á öldungadeild þingsins árið 1904 og hélt því þingsæti til starfsloka sinna árið 1924.[3]

Sem þingmaður hafði Estournelles de Constant afskipti af nýlendumálefnum og beitti sér jafnan gegn nýlendustefnu þriðja lýðveldisins. Hann talaði fyrir því að nýlendusæti á franska þinginu yrðu lögð niður og mælti með því að nýlendurnar yrðu gerðar að verndarsvæðum í stað þess að vera aðlagaðar að franskri menningu samkvæmt stefnu lýðveldistímans. Estournelles de Constant var harður andstæðingur stofnunar franskrar nýlendu á Madagaskar og mótmælti jafnframt skiptingu stórveldanna á Kína. Innanlands mótmælti hann því sem hann kallaði „hneykslum gagnvart góðum siðum“ (fr. outrages aux bonnes mœurs). Hann studdi Alfred Dreyfus í Dreyfus-málinu og barðist fyrir því að líkamsleifar Émile Zola yrðu lagðar í Panthéon-hvelfinguna í París vegna baráttu Zola í þágu Dreyfusar.

Ofar öllu beitti Estournelles de Constant sér fyrir bættum milliríkjasamskiptum og var dómari við Fasta gerðardóminn í Haag frá árinu 1900. Hann var fulltrúi Frakka á báðum friðarráðstefnunum í Haag árin 1898 og 1907 og lýsti þar hugmyndum sínum um sameinaða Evrópu.

Estournelles de Constant samdi ýmis sagnfræði- og stjórnmálarit og jafnvel einstaka leikrit. Hann samdi gjarnan greinar fyrir fréttablöðin Le Temps, La Revue de Paris og La Revue des deux mondes. Þar sem hann var kvæntur Bandaríkjakonu, Daisy Sedgwick Berend, ferðaðist hann einnig talsvert og skrifaði um Bandaríkin.

Skóli í heimabæ Estournelles de Constant, La Flèche, er nefndur eftir honum: le lycée général et technologique d'Estournelles de Constant. Hringleikahús í þjálfunar- og rannsóknardeild Maine-háskólans í Frakklandi ber jafnframt nafn hans.

Estournelles de Constant er jafnframt heiðraður með brjóstmynd eftir Paul Landowski á minnisvarða á Jakobínatorginu í Le Mans.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. 1,0 1,1 1,2 Laurent Barcelo (1993). „« Pro Patria Per Orbis Concordiam »: Paul d'Estournelles de Constant et la conciliation internationale“. Annales de Bretagne et des pays de l'Ouest. 100 (1): 129–141.
  2. Claude Petit (2009). „Louise d'Estournelles de Constant (1792-1860), une femme de lettres au XIXe siècle“. Cahiers Fléchois (30): 107–131.
  3. „Paul d'Estournelles de Constant, prix Nobel de la Paix 1909“. senat.fr. Franska þingið. Sótt 25. apríl 2020.