Alþjóðaráð Rauða krossins og Rauða hálfmánans

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Tákn Alþjóðaráðs Rauða krossins og Rauða hálfmánans
Flag of the Red Cross.svg

Alþjóðaráð Rauða krossins og Rauða hálfmánans er sjálfstæð stofnun með aðsetur í Genf í Sviss. Allt frá stofnun þess árið 1863 hefur meginhlutverk þess verið að hafa frumkvæði að hjálparstarfi á vígvelli. Alþjóðaráðið lætur þá einkum til sín taka sem ekki geta talist beinir þátttakendur í átökunum.

Samkvæmt Genfarsamningunum[1] fjórum frá árinu 1949 er ráðinu falið að fylgjast með að samningarnir séu virtir af þeim ríkisstjórnum sem hafa undirritað þá og eiga þátt í átökum. Það eru því einkum særðir og sjúkir hermenn, stríðsfangar og almennir borgarar sem njóta verndar þess.

Starfsmenn Alþjóðaráðsins heimsækja stríðsfanga og fangelsi þar sem grunur leikur á að mannréttindabrot séu framin. Þessar heimsóknir eru stundum eina líftrygging fanganna því starfsmenn ráðsins skrá upplýsingar um þá og koma boðum á milli þeirra og fjölskyldna þeirra ef mögulegt er. Erfiðara reynist því en áður að láta fanga „hverfa“ í fangelsinu.

Alþjóðaráðið starfrækir einnig leitarþjónustu[2] sem hefur það að markmiði að sameina aftur fjölskyldur og ættingja sem hafa orðið viðskila vegna átakanna. Nöfn fjölskyldumeðlima eru skráð í gagnabanka Alþjóðaráðsins sem vinnur svo að því að leita uppi aðra meðlimi fjölskyldunnar. Á síðasta ári fundu um 25 þúsund einstaklingar ættingja sína aftur með þessum hætti.

Samstarf við landsfélög[3] Rauða krossins og Rauða hálfmánans er mikilvægur þáttur í starfsemi ráðsins og oft leggja þau ráðinu til mannskap til ákveðinna verkefna. Þannig hefur fjöldi íslenskra sendifulltrúa farið utan og starfað á vettvangi undir merkjum þess og Rauða kross Íslands.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. september 2018. Sótt 30. desember 2020.
  2. [1]
  3. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 29. desember 2009. Sótt 5. janúar 2010.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]