Fara í innihald

Atlantshaf

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Norður-Atlantshafi)
Mynd af Norður og Suður Atlantshafi
Atlantshaf

Atlantshaf er annað stærsta úthaf heims á eftir Kyrrahafinu og skiptist í tvennt við miðbaug: Norður- og Suður-Atlantshaf. Það þekur um fimmtung jarðar og skilur að meginlöndin Evrópu og Afríku í austri og Norður- og Suður-Ameríku í vestri. Í austri mætir Atlantshafið Indlandshafi við 20. lengdargráðu austur. Hafið tengist einnig Kyrrahafinu um Norður-Íshaf í norðri og Drakesund í suðri.

Elsta heimild um nafnið Atlantshaf eru Sögur Heródótosar frá því um 450 f.Kr. þar sem talað er um Ἀτλαντὶς θάλασσα (Atlantis þalassa) eða „haf Atlass“, sem vísar annað hvort til títansins Atlass eða Atlasfjalla sem draga nafn sitt af honum. Suður-Atlantshaf hefur verið kallað Eþíópíuhaf (dregið af nafni Eþíópíu) allt fram á miðja 19. öld[1]. Áður en Evrópubúar kynntust öðrum úthöfum jarðarinnar var orðið „úthaf“ einfaldlega notað um hafið handan við Gíbraltarsund. Forn-Grikkir töldu þetta haf vera stórfljót sem rynni umhverfis heiminn.

Atlantshafið liggur í S-laga sveig milli meginlandanna Evrasíu og Afríku í austri og Ameríku í vestri. Það er hluti af einu samtengdu heimshafi ásamt hinum úthöfunum. Það skiptist við miðbaug í Norður-Atlantshaf og Suður-Atlantshaf.

Landfræði

[breyta | breyta frumkóða]

Atlantshafið greinist frá Norður-Íshafi með línu sem liggur frá Grænlandi, um Ísland og SvalbarðaNoregi[heimild vantar] og Suður-Íshafinu við 60. breiddargráðu suður. Mörk Atlantshafs og Indlandshafs eru skilgreind við 20. breiddargráðu austur við línu sem nær frá Agúlhashöfða á Afríku í norðri að Suðurskautslandinu í suðri. Samkvæmt eldri skilgreiningum sem ekki gera ráð fyrir Suður-Íshafinu nær þessi lína alveg að strönd Suðurskautslandsins en annars að 60° suður þar sem Suður-Íshafið hefst. Í austri mætir Atlantshafið Kyrrahafi í Drakesundi milli Hornhöfða í Suður-Ameríku og Suðurskautsskaga á Suðurskautslandinu.

Flatarmál hafsins er 82.440.000 km² án innhafanna en ef öll innhöf, flóar og strandhöf eru talin með er flatarmálið 106.460.000 km² eða 22% af flatarmáli jarðar. Helstu innhöf, flóar og sund Atlantshafsins eru t.d. Karíbahaf, Mexíkóflói, Lawrenceflói, Miðjarðarhaf, Svartahaf, Norðursjór, Grænlandshaf, Noregshaf og Eystrasalt. Meðaldýpi hafsins er 3.339 metrar (með innhöfum)[2] en mesta dýpi er 8.380 metrar við Púertó Ríkó-álinn sem er norðan við eyjuna.

Atlantshafið tekur við gríðarlega miklu magni vatns frá meginlöndunum því mörg helstu fljót heims renna til þess, eins og Lawrencefljót, Mississippi, Amasónfljót, Kongófljót, Nígerfljót, Rín og fleiri.

Hafsbotn Atlantshafsins einkennist helst af Atlantshafshryggnum en hann liggur frá norðri til suðurs eftir hafinu endilöngu og nær yfir þriðjung af flatarmáli botnsins. Sums staðar er hryggurinn ofansjávar en eyjarnar Asóreyjar, Ascension-eyja, Sankti Helena, Tristan da Cunha, Gough og Bouvet-eyja eru allt eldfjallaeyjar sem rísa upp af hryggnum. Ísland er einnig á hryggnum en það er á hæsta punkti hans og fyrir miðju. Austan og vestan hryggjarins eru 3.600-5.500 metra djúp hafsvæði þar sem botninn er sums staðar fjalllendur á meðan annars staðar eru sléttur. Eftir því sem nær dregur meginlöndunum er botninn hæðóttari með bratta upp á landgrunn. Botn Atlantshafsins er að mestu þakinn kalkkenndu seti en á meira en 5.000 metra dýpi er rautt leirkennt efni gjarnan ríkjandi. Mest ber á lífrænu seti skeldýra á neðansjávarhryggnum. Kísilgúrset er mest á syðstu breiddargráðunum. Um 2/5 hlutar botnsins eru þaktir kalkkenndum örsmáum skeldýrum. Sandur þekur um fjórðung botnsins og afgangurinn er þakinn grjóti, möl og skeljum. Fíngert efni berst gjarnan með aflandsvindum frá eyðimerkursvæðum við vesturströnd Afríku. Á norðurslóðum er hins vegar talsvert af stóru og smáu grjóti sem borgarísjakar bera með sér.[3]

Veðurfar í Norður-Atlanshafi ræðst helst af ríkjandi vindáttum og loftmössum frá Norður-Ameríku. Mikill hitastigsmunur er á milli heimskautaloftsins og hlýrra loftstrauma frá Kyrrahafi, Mexíkóflóa og Golfstraumnum. Á þessu svæði skapast sterkir hringvindar út frá kröftugum lægðum sem eru á leið sinni yfir Nýfundnaland og Ísland. Hringvindarnir eru sterkari á veturnar en sumrin en lægðirnar flytja hita, raka og hreyfiafl frá hitabeltinu. Lægðirnar viðhalda líka vestanvindum á miðlægum breiddargráðum. Á háþrýstisvæðum milli 15°N og 30°N gætir yfirleitt ekki ofsaveðra en þar mæta vestanvindar úr norðri hitabeltisvindum úr suðri. Vindarnir sökkva um 300 m á dag og loftþrýstingur hækkar sem veldur því að veðrið verður oft sólríkt og úrkomulaust. Stöðugir norðaustanvindar blása hins vegar sunnan við þetta háþrýstibelti.[4]

Vestanvindabeltið í Suður-Atlantshafi teygist alla leið til Suðurskautslandsins frá 40°S en þar er háþrýstibeltið í kringum 30°S. Þessi hringferill gengur rangsælis og skapar staðvinda norðan beltisins en hringrásin er öfug miðað við norðurhvelið vegna Coriolis-krafta. Lognbeltið er á þessu svæði en það verður til þar sem staðvindar úr suðaustri mæta staðvindum úr norðaustri. Í kringum miðbaug á þessu svæði er einnig mikil úrkoma sem orsakast af stígandi heitu og röku lofti. Veðurlag í háþrýstibeltinu er nokkuð stöðugt og sólríkt en frekar óstöðugt og vindasamt á hærri breiddargráðum. Mikill hitamunur á ísköldu Suðurskautslandinu og hafinu umhverfis það skapar þennan óstöðugleika .[5]

Yfirborðshiti hafsins fer eftir því hvert straumarnir í því liggja. Miðbaugsstraumurinn flytur sjó frá norðri til suðurs; hann kemur upp að ströndum Norður- og Suður-Ameríku en á þessu svæði er hlýtt yfirborðslag. Hins vegar flytja Kanaríeyja- og Benguela-straumarnir kaldan sjó að miðbaug. Þetta gerir það að verkum að sjórinn er hlýrri við austur- og vesturstrendur á beltunum 10°S-30°S og 10°-30°N. Þetta snýst þó við á hærri breiddargráðum.

Í Norður-Atlantshafi flytur Labradorstraumurinn kaldan sjó suður að 40°N en Golfstraumurinn flytur hins vegar hlýjan sjó norður með Noregsströndum. Andstæður eru á milli Suður- og Norður-Atlanshafsins sem orsakast af yfirborðsstraumum sem verða til vegna ríkjandi vindátta og landslags stranda. Falklandseyjastraumurinn blandast Brasilíustraumnum og Labradorstraumurinn blandast Golfstraumnum sem veldur því að yfirborðshiti breytist hratt á stuttri vegalengd en mesta breytingin er þó við Golf- og Labradorstraumana en sú breyting er yfirleitt kölluð „kaldi veggurinn”. Yfirborðshiti í hitabeltinu ræðst af loftslagsþáttum en hann er nánast sá sami alls staðar í beltinu og þar af leiðandi er enginn mælanlegur hitamunur á straumum þar.

Í Norður-Atlantshafi lækkar hitinn úr 5°C niður í 2½°C á 1.000 m dýpi við botninn. Í Suður-Atlantshafi er hitamunur frekar breytilegur en hann lækkar í 4°C á 1.000-1.300 m dýpi og lækkar svo eftir því sem neðar dregur og er 2°C-4°C á 2 km dýpi. Þegar komið er á botninn er hitastigið orðið 1°C og þar tekur Suður-Íshafið við. Við Suðurskautslandið er sjávarhiti í kringum frostmark og jafnvel undir því á stórum hafsvæðum þar í kring.[6]

Seltustig Atlantshafsins getur farið upp í 3,7% en engin stór höf í heiminum eru svo sölt. Algengast er þó að seltan sé um 3,5%. Magn seltu fer eftir því hvernig straumum, úrkomu og uppgufun er háttað.[7]

Lífríki og fiskveiðar

[breyta | breyta frumkóða]
Atlantshafsþorskur- mikilvægasti nytjafiskur Norður-Atlantshafsins

Helsta lífríki Atlantshafsins eru þörungar, þari, svif, skeldýr, fiskar, svampar, krabbar, sjóskjaldbökur og sjávarspendýr. Í Atlantshafi eru bestu og mest nýttu fiskimið í heiminum, en það gefur af sér milljónir tonna af fiski á ári, bæði til manneldis og iðnaðar. Mest af aflanum fæst á landgrunni og þá helst næringarríkum svæðum þar sem uppstreymi er gott. Mikilvægasta fisktegundin í Norður-Atlantshafi og sú sem hefur gefið mest verðmæti er þorskurinn en einnig eru ýsa, loðna, síld, humar og makríll allverðmætir stofnar. Mikilvægustu tegundirnar í Suður-Atlantshafi eru kolmunni, túnfiskur og sardína.[8]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. George Ripley; Charles Anderson Dana (1873). The American cyclopaedia: a popular dictionary of general knowledge. Appleton. bls. 69–.
  2. Amanda Briney, „Geography of the World's Oceans“. About Education. Sótt 22.5.2015.
  3. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. ágúst 2016. Sótt 5. október 2015.
  4. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. ágúst 2016. Sótt 5. október 2015.
  5. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 10. ágúst 2016. Sótt 5. október 2015.
  6. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 11. mars 2016. Sótt 5. október 2015.
  7. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. mars 2016. Sótt 5. október 2015.
  8. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. mars 2016. Sótt 5. október 2015.