Fara í innihald

Sankti Helena

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Saint Helena
Fáni Sankti Helenu Skjaldarmerki Sankti Helenu
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Loyal and Unshakeable
(enska: Trú og óbrigðul)
Þjóðsöngur:
My St. Helena Island (óopinber)
Staðsetning Sankti Helenu
Höfuðborg Jamestown
Opinbert tungumál enska
Stjórnarfar Breskt handanhafssvæði

Konungur Karl 3.
Landstjóri Philip Rushbrook
Breskt yfirráðasvæði
 • Nýlendustofnun 1657 
 • Krúnunýlenda 22. apríl 1834 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)

121 km²
0
Mannfjöldi
 • Samtals (2016)
 • Þéttleiki byggðar

4.534
37,5/km²
Gjaldmiðill Sankti Helenupund (SHP)
Tímabelti UTC
Þjóðarlén .sh
Landsnúmer +290

Sankti Helena (sem stundum hefur verið nefnd Elínarey [1] eða Elínareyja á íslensku [2]) er nafn á eyju í Suður-Atlantshafi, en vísar einnig til breskrar stjórnsýslueiningar, sem nær, auk Sankti Helenu, yfir eyjarnar Ascension og Tristan da Cunha. Sankti Helena er líklega frægust fyrir að hafa hýst Napóleon Bónaparte síðustu ár hans í útlegð.

Eyjan er einangruð eldfjallaeyja sem liggur á milli Afríku og Suður-Ameríku í Suður-Atlantshafi. Hún var óbyggð þegar Portúgalir uppgötvuðu hana árið 1502. Hún var notuð sem áfangastaður á siglingaleiðinni milli Gamla og Nýja heimsins öldum saman. Breska Austur-Indíafélagið tók yfir stjórn eyjarinnar árið 1658 og Edmund Halley notaði eyjuna til að rannsaka stjörnur á suðurhimninum árið 1676. Sjúkdómar, þurrkar og uppblástur hrjáðu íbúana. Árið 1723 voru íbúar rúmlega þúsund talsins, þar af um 600 þrælar. Bretar sendu Napoléon Bonaparte þangað í útlegð árið 1815 og þar var hann til dauðadags árið 1821. Í kjölfar Indlandslaganna 1833 varð Sankti Helena að krúnunýlendu eins og Indland. Efnahagur eyjarinnar batnaði vegna hörframleiðslu í byrjun 20. aldar en eftir að gerviefni tóku við hnignaði framleiðslunni og hún lagðist af árið 1965. Árið 2002 fengu íbúar breskan ríkisborgararétt. Frá 2012 unnu bresk stjórnvöld að byggingu flugvallar sem tók til starfa árið 2017.

Vegna einangrunar eyjarinnar er mikið af lífríki hennar sérstætt. Þar voru engin spendýr fyrir komu mannsins en mikið og fjölbreytt fuglalíf. Loftslag eyjunnar er hitabeltisloftslag en hitinn er tempraður af Bengúelastraumnum og staðvindum sem blása nær stöðugt.

Stjórnmál

[breyta | breyta frumkóða]

Framkvæmdavald á eyjunni liggur hjá Bretakonungi Karli 3. sem skipar landstjóra til að fara með það vald á eyjunni sjálfri. Landstjórinn er skipaður í samráði við bresku ríkisstjórnina. Varnar- og utanríkismál eru í höndum Bretlands.

Löggjafarráð Sankti Helenu er skipað 15 fulltrúum og situr í einni deild, auk þingforseta og varaþingforseta. Tólf fulltrúar eru kosnir til fjögurra ára í senn. Þeir þrír fulltrúar sem eru eftir eru aðalritari, fjármálaritari og yfirsaksóknari. Landstjórinn veitir framkvæmdaráðinu forsæti. Í framkvæmdaráðinu sitja þrír skipaðir fulltrúar og fimm fulltrúar úr löggjafarráðinu sem landstjóri skipar. Það er enginn kjörinn forsætisráðherra og landstjórinn fer með embætti stjórnarleiðtoga.

Ascension-eyja og Tristan da Cunha hafa umsjónarmann sem landstjóri Sankti Helenu skipar.

Stjórnsýslueiningar

[breyta | breyta frumkóða]

Sankti Helena skiptist í átta umdæmi sem jafnframt eru hagskýrslusvæði og kjördæmi. Tvö fjölmennustu umdæmin eiga tvo fulltrúa hvort í löggjafarráðinu en hin einn hvert.

Umdæmi Sankti Helenu
Umdæmi Sankti Helenu
Umdæmi Stærð
km2
Íbúar
2008
Alarm Forest 5,9 276
Blue Hill 36,5 153
Half Tree Hollow 1,6 901
Jamestown 3,6 714
Levelwood 14,0 316
Longwood 33,4 715
Sandy Bay 15,3 205
Saint Paul's 11,4 795
Konunglega póstskipið
St. Helena
171
Jamestown-höfn - 9
Alls 121,7 4.255

Árið 2005 kynnti breska ríkisstjórnin áætlanir um að reisa Sankti Helenu-flugvöll á eyjunni. Árið 2010 samþykkti stjórnin að taka þátt í kostnaði við völlinn. Árið 2011 var samið við suðurafrískt verkfræðifyrirtæki og áætlað var að flugvöllurinn hæfi starfsemi 2016. Kostnaður var áætlaður 250 milljón pund. Hugmyndin var að með flugvellinum yrði eyjan sjálfbærari og ekki eins háð opinberum fjárframlögum. Væntingar voru um 30.000 ferðamenn á ári.

Fyrsta flugvélin lenti á flugvellinum 15. september 2015 og flaug síðan nokkrum sinnum til að prófa radíóleiðsögubúnað vallarins. Opnun flugvallarins var frestað vegna vinds og vindsniða. Árið 2017 var samið við suðurafríska fyrirtækið Airlink um reglulegt flug til eyjarinnar. Þann 14. október 2017 hófst vikulegt flug Airlink milli Jóhannesarborgar og Sankti Helenu með þotu af gerðinni Embraer E-jet. Flugið tekur sex tíma miðað við fimm daga siglingu frá Höfðaborg.

Vindsniði úr einni átt og meðvindur úr annarri gera aðflugið að Sankti Helenu erfitt og hafa í för með sér takmarkanir á fjölda farþega. Þoka gerir lendingar líka erfiðar.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Tímarit.is
  2. Tímarit.is
  Þessi Afríkugrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.