Labradorstraumurinn
Labradorstraumurinn er kaldur hafstraumur í Norður-Atlantshafi. Hann flæðir úr Norður-Íshafi meðfram strönd Labrador, umhverfis Nýfundnaland og áfram suður með Nova Scotia. Hann er framhald á Vestur-Grænlandsstraumnum og Baffinseyjarstraumnum.
Hann mætir Golfstraumnum á Miklabanka suðvestan við Nýfundnaland og aftur norðan við Ytribanka undan Norður-Karólínu. Samspil þessara tveggja strauma skapar bæði miklar þokur og auðug fiskimið.
Á vorin og snemma sumars ber þessi straumur með sér ísjaka frá Grænlandi inn á skipaleiðir yfir Atlantshafið og dæmi eru um að borgarísjakar hafi borist með straumnum allt suður til Bermúda og austur til Asóreyja. Straumurinn kælir niður austurströnd Kanada og Nýja England en hefur lítil áhrif sunnan Þorskhöfða. Þetta sést af því að trjálínan er allt að fimmtán gráðum sunnar en í Síberíu, Evrópu og á vesturströnd Kanada.