Fara í innihald

Ýsa

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Ýsa
Ýsa á færeysku frímerki
Ástand stofns
Vísindaleg flokkun
Ríki: Dýraríki (Animalia)
Fylking: Seildýr (Chordata)
Flokkur: Geisluggar (Actinopterygii)
Ættbálkur: Þorskfiskar (Gadiformes)
Ætt: Þorskaætt (Gadidae)
Ættkvísl: Melanogrammus
Tegund:
Melanogrammus aeglefinus

Tvínefni
Melanogrammus aeglefinus
Carolus Linnaeus, 1758
Samheiti

Ýsa (fræðiheiti: Melanogrammus æglefinus) er fiskur sem er algengur á grunnsævi á norðurhveli jarðar. Hún lifir á 10-200 metra dýpi og er útbreidd í Norður-Atlantshafi. Hún er náskyld þorski og verður allt að metri að lengd og 20 kíló að þyngd. Hún er blágrá að lit, með svarta rönd eftir síðunni og skeggþráð á neðri góm. Fæða ýsu er fjölbreytileg, hún étur ýmis botndýr s.s. skeljar, snigla og marflær og smáfiska eins og sandsíli, loðnu og spærling.

Ýsan er eftirsóttur matfiskur.

Heimkynni[breyta | breyta frumkóða]

Ýsa er í Norður-Atlantshafi. Í Norðaustur-Atlantshafi er hún í Norður-Íshafi og Barentshafi og allt suður í Biskajaflóa. Við Grænland er hún sjaldséð en í Norðvestur-Atlantshafi er hún frá Nýfundnalandi til Hatterashöfða í Bandaríkjunum.

Ýsan finnst allt í kringum Ísland. Hún er mun algengari við sunnan- og vestanvert landið en í kalda sjónum norðanlands og austan. Oft er mikið um ýsu við Ingólfshöfða, Dyrhólaey og Vestmannaeyjar auk Faxaflóa, í Breiðafirði og við Ísafjarðardjúp. Ýsan er grunnsævis- og botnfiskur sem lifir á 10-200 metra dýpi og stundum dýpra á leir- og sandbotni.

Fæða[breyta | breyta frumkóða]

Ýsuseiðin éta einkum ýmis smákrabbadýr eins og ljósátu, rauðátu. Fullorðin ýsa étur frekar ýmis konar fiskmeti, mest loðnu, en fæða hennar er mjög margvísleg. Hún étur botndýr eins og krabba og lindýr, einnig smáfiska eins og sandsíli, smásíld og spærling étur, sem og rækju, fiskseiði, síldarhrogn og fleira. Mörg rándýr leggjast á ýsuna. Þar má nefna háf, þorsk, löngu, lúðu og fleiri stóra fiska. Selir og smáhveli láta hana ekki heldur í friði.

Vöxtur og lífssaga[breyta | breyta frumkóða]

Hrygningin stendur yfir í rúma tvo mánuði eða frá apríl til maíloka. Fjöldi eggja er frá þúsund og upp í milljón, fer allt eftir stærð hrygnunnar. Eggin eru sviflæg, vatnstær og um 1,5 mm í þvermál. Klak tekur um 12-14 daga og er lirfan um 4,5 mm við klakið. Ýsuseiðin leita til botns 2-3 mánaða gömul og eru þau þá 4-5 cm löng. Bæði eggin og lirfurnar berast með straumum vestur og norður með landinu, og jafnvel stundum austurfyrir.

Fyrstu æviár sín vex ýsan tiltölulega hratt. Hún getur verið orðin um 20 cm þegar hún er eins árs og á öðru aldursári rúmlega 30 cm. Yfirleitt er hún veidd á milli 50-65 cm löng, en stærsta ýsan sem hefur verið veidd við Ísland reyndist 112 cm. Lengd ýsu eftir aldri er nokkuð mismunandi eftir því hvort hún elur aldur sinn í hlýja sjónum sunnanlands eða þeim kalda norðanlands. Einnig verða ýsur í hlýja sjónum fyrr kynþroska en þær í kalda sjónum. Yfirleitt verður hún kynþroska 3-4 ára gömul. Ýsan getur orðið a.m.k. 15 ára gömul, og er hámarksþyngd hennar talin vera um 14 kg. Ýsan er flokkuð eftir stærð og kölluð eftir því, smáýsa kallast sú ýsa sem er á bilinu 25-45 cm, miðlungs – eða kurlýsa er 45-60 cm stór og stórýsa er stærri en 60 cm. Ýsur lengri en 80 cm eru samt sem áður sjaldséðar.

Ýsuveiðar við Ísland[breyta | breyta frumkóða]

Ýsan er að langmestu leyti veidd í botnvörpu og á línu. Ýsuafli íslenskra skipa á Íslandsmiðum var um 109 þúsund tonn árið 2007. Ýsa veiðist allt árið en þó mest á hrygningartíma eða í apríl og maí. Ýsa er vinsælasti matfiskur á Íslandi og er árleg ýsuneysla innanlands um 5.000 tonn eða um 5% af heildarafla.

Ýsuafli á Íslandsmiðum 1945-2007

1945 18.992
1946 19.302
1947 20.892
1948 28.130
1949 30.764
1950 28.385
1951 22.164
1952 15.116
1953 14.895
1954 21.258
1955 21.652
1956 25.889
1957 31.194
1958 28.636
1959 27.670
1960 46.411
1961 55.070
1962 54.276
1963 51.606
1964 56.689
1965 53.560
1966 36.204
1967 38.072
1968 34.024
1969 35.036
1970 31.928
1971 32.393
1972 29.250
1973 34.586
1974 34.401
1975 36.658
1976 34.871
1977 35.428
1978 40.552
1979 52.152
1980 47.915
1981 61.033
1982 67.038
1983 63.889
1984 47.216
1985 49.553
1986 47.317
1987 39.479
1988 53.087
1989 61.799
1990 66.030
1991 53.538
1992 46.139
1993 47.006
1994 58.430
1995 60.125
1996 56.223
1997 43.256
1998 40.712
1999 44.729
2000 41.698
2001 39.825
2002 49.951
2003 60.330
2004 84.563
2005 96.580
2006 96.591
2007 109.313
2008 58.593
2009 31.489
2010 24.183
2011 11.398

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

  • Gunnar Jónsson, Íslenskir fiskar (Reykjavík: Fjölvi, 1992).

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

  • Hafrannsóknastofnun:Helstu nytjastofnar, Ýsa
  • Matís:Ýsa Geymt 8 október 2006 í Wayback Machine
  • „Er ýsan hrææta?“. Vísindavefurinn.
  • Upplýsingaveita Sjávarútvegsráðuneytisins: Ýsa
  • Hagstofa Íslands: Afli eftir tegundum
  Þessi líffræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.