Samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008-2011

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Samantekt á skipulagi lögreglu við mótmælin 2008-2011 er heiti á skýrslu sem var unnin eftir Búsáhaldabyltinguna. Geir Jón Þórisson tók saman.

Það var að beiðni Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, að ákveðið væri að Geir Jón Þórisson, yfirlögregluþjónn, tæki að sér að skrá niður á einn stað allar þær upplýsingar sem lögreglan byggi yfir varðandi þau mótmæli sem brutust út eftir bankahrunið þann 6. október 2008, þar sem hann var á þessu tímabili starfandi yfirlögregluþjónn og kom að undirbúningi aðgerða lögreglu við mótmælin. Skýrslan er ein mikilvægasta heimildin fyrir aðgerðum lögreglu í mótmælunum veturinn 2008-2009.

Gerð skýrslu[breyta | breyta frumkóða]

Gerð skýrslunnar hófst í byrjun janúar 2012 og lauk í júní 2012, þegar skýrslunni var skilað til Stefáns Eiríkssonar, lögreglustjóra.

Skýrslan rekur stefnu og ákvarðanatöku lögreglustjóra höfuðborgasvæðisins sem og samantekt á einstaka mótmælum. Í lok skýrslunnar koma svo tölfræðiupplýsingar sem sýna m.a. fjölda lögreglumanna sem tóku þátt í starfi á vettvangi mótmælanna.

Fyrst og fremst var skýrslan byggð á gögnum og skráningum úr lögreglukerfi, þar sem dagbók var skrifuð fyrir hvern einasta dag sem mótmæli voru. Farið var yfir helstu umfjallanir fjölmiðla, greinaskrif ofl. og þannig aflað upplýsinga um gagnrýni á framgöngu lögreglunnar í mótmælum.

Skýrsluhöfundur telur þó að sjálfsagt hefði mátt leggjast í frekari rannsóknarvinnu vegna mótmælanna, en dagbækur vegna mótmælanna voru misgóðar heimildir, og telur hann þá hafa hjálpað að hann kom sjálfur að flestum mótmælunum.[1]

Samantekt skipulags á einstaka mótmælum.[breyta | breyta frumkóða]

Ákveðið var af yfirstjórn lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu að aðkoma lögreglu að mótmælendum yrði með þeim hætti að reyna í lengstu lög að forðast valdbeitingu til að halda aftur af mótmælendum, gera sér frekar far um að ræða við skipuleggjendur og þá sem fremstir voru í flokki í hverjum mótmælum fyrir sig.

Handtökur yrðu ekki framkvæmdar nema væri augljóslega ekki hægt að róa þá einstaklinga sem verst létu og /eða beyttu líkamlegu ofbeldi gegn lögreglumönnum og öðru fólki.

Lögreglumönnum var raðað í átta manna flokka sem stjórnað var af flokkstjórum. Fjöldi aðgerðahópanna tók mið að áætluðum fjölda mótmælenda og einnig hvort menn teldu að einhver átök myndu brjótast út.

Fram kemur í skýrslunni að notast hafi verið við aðferðafræði mannfjöldastjórnunar og því hafi einstaklingsframtak lögreglumanna ekki verið fyrir hendi og þar með auðveldara að tryggja öguð og markviss vinnubrögð.

Í skýrslunni er svo farið yfir einstök mótmæli eftir dagsetningum á mjög ýtarlegan hátt.[1]

Tölfræði[breyta | breyta frumkóða]

Fjöldi mótmæla frá 2008 – 2011: Fjöldi aðgerða lögreglu vegna mótmæla sem er lýst í skýrslunni voru 138.

Fjöldi lögreglumanna sem komu að mótmælunum: Samtals störfuðu 4,714 lögreglumenn í öllum mótmælunum, margir komu við sögu oftar en einu sinni.

Fjöldi klukkustunda sem mótmælin tóku: Ef gengið er út frá tímasetningum sem koma fram í skýrslunni má ætla að heildar tímafjöldi sem lögregla var við störf tengdum mótmælum hafi verið um 26.656,5 klst.

Áætlaður kostnaður: Áætlaður kostnaður LRH vegna mótmæla á fyrrgreindu tímabili er 65-70 milljónir króna. Innifalið í þeirri upphæð eru kaup á viðbótarbúnaði ofl. Embætti LRH fékk engar viðbóta fjárveitingar frá ríkinu vegna þessa kostnaðar.

Kærur og álitamál[breyta | breyta frumkóða]

Skýrslan var gerð opinber 24. október 2014 þegar hún var afhent fjölmiðlum. Lög­regl­unni var gert að afhenda ein­tök af skýrsl­unni í kjöl­far nið­ur­stöðu úrskurð­ar­nefndar um upp­lýs­inga­mál um að Eva Hauks­dótt­ir, sem er einn nafn­greindra mót­mæl­enda í skýrsl­unni, ætti rétt á að sjá hana. Í kjöl­farið voru ein­tök send á suma fjöl­miðla. Þau ein­tök voru skömmu síðar inn­kölluð eftir að í ljós kom að hægt var að sjá afmáða text­ann, bæði í pappírs- og stafrænni útgáfu skýrslunnar. Skýrslan inniheldur viðkæmar persónuupplýsingar 75 einstaklinga þar sem meðal annars er greint frá fjölskyldutengslum einstaklinga, geðrænum vandamálum og stjórnamálaskoðunum.

Persónuvernd óskaði í kjölfarið eftir skýringum frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu. Í svari lögreglu við fyrirspurn Persónuverndar kom fram að starfsmenn sem sáu um að afmá texta í skýrslunni höfðu aðeins „almenna tölvukunnáttu“. Skortur hafi verið á nauðsynlegri yfirsýn og eftirliti, og að fram færi öryggisathugun. Alls kvörtuðu fimm til Persónuverndar vegna birtingu skýrslunnar. [2][3]

For­saga máls­ins er sú að í des­em­ber 2012 kvað úr­sk­urðar­nefnd um upp­lýs­inga­mál upp úr­sk­urð vegna kæru Evu Hauksdóttur yfir þeirri ákvörðun lög­reglu­stjór­ans á höfuðborg­ar­svæðinu að synja henni um aðgang að skýrslunni.“ Í úr­sk­urðarorðinu seg­ir: „Beiðni [A], dags. 15. sept­em­ber 2012, er vísað til lög­reglu­stjór­ans á höfuðborg­ar­svæðinu til nýrr­ar meðferðar og af­greiðslu á grund­velli upp­lýs­ingalaga nr. 50/​1996.“ Hinn 4. janú­ar 2013 synjaði lög­reglu­stjór­inn á höfuðborg­ar­svæðinu beiðninni á ný.

Synj­un lög­reglu­stjór­ans var kærð til úr­sk­urðar­nefnd­ar um upp­lýs­inga­mál í janú­ar 2013 og lauk meðferð þess máls með úr­sk­urði í júlí það ár. Í hon­um var synj­un lög­reglu­stjór­ans staðfest, en þó þannig að veita skyldi aðgang að köfl­um sem heita „Gagn­rýni. Viðhorf annarra, s.s. fjöl­miðla“ og að til­tek­inni um­fjöll­un um kær­anda.

Eva kvartaði yfir þess­um úr­sk­urði til umboðsmanns Alþing­is. Með bréfi í apríl 2013 gerði nefnd­in umboðsmanni grein fyr­ir því að hún væri reiðubú­in til að end­urupp­taka málið, bær­ist henni ósk þess efn­is frá kær­anda. Hinn 23. júní 2013 barst slík ósk og hef­ur úr­sk­urður­inn að geyma nýja niður­stöðu um skyldu lög­reglu­stjór­ans á höfuðborg­ar­svæðinu til að af­henda um­rædda skýrslu.[4]

Kæra barst einnig frá Guðmundi Franklín Jónssyni, stofnandi Hægri grænna og nú hótelstjóri á eyjunni Bornholm í Danmörku, eftir að skýrslan hafði verið birt í fjölmiðlum, en hann kærði Geir Jón Þórisson vegna ummæla í skýrslunni, en þar er Guðmundar Franklíns getið á blaðsíðu 192: „Áður en mótmælin áttu sér stað mátti sjá áskorun á netinu frá Guðmundi Franklín Jónssyni þar sem hann hvatti fólk til þess að mæta og taka með sér úldið grænmæti og annað svipað til þess að henda í bankann.“

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 „Geymd eintak“ (PDF). Afrit af upprunalegu (PDF) geymt þann 14. apríl 2016. Sótt 27. janúar 2017.
  2. „Geymd eintak“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. nóvember 2014. Sótt 9. mars 2017.
  3. http://stundin.is/frett/geir-jon-braut-log-vid-gerd-busahaldaskyrslunnar/
  4. http://www.unu.is/urskurdir/nr/8292