Neyðarlögin

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Neyðarlögin kölluðust íslensk lög nr. 125/2008, sem öðluðust gildi 6. október 2008 í upphafi bankahrunsins 2008. Í lögunum fólust víðtækar lagaheimildir íslenska ríkisins til aðgerða á fjármálamörkuðum. Lögin áttu að „gæta hagsmuna íslensku þjóðarinnar í hvívetna, koma í veg fyrir að þjóðin verði á skuldaklafa næstu áratugina og bjarga því sem bjargað verður miðað við núverandi aðstæður“ eins og Geir H. Haarde, þáverandi forsætisráðherra, sagði. Frumvarpið (Frumvarp um fjármálamarkaði) var samþykkt með 50 atkvæðum. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins, Samfylkingarinnar og Framsóknarflokksins samþykktu það en 12 þingmenn Vinstri grænna og Frjálslyndra sátu hjá. Lögin fólu í sér mjög róttækar heimildir um inngrip stjórnvalda á fjármálamarkaði. Lögin tóku þegar gildi, en ekki við útgáfu Stjórnartíðinda.

Helstu heimildir laganna[breyta | breyta frumkóða]

 • Ríkið má yfirtaka banka.
 • Fjármálaeftirlitinu (FME) eru veittar víðtækar heimildir til inngripa í fjármálafyrirtæki.
 • FME getur tekið völd hluthafafunda.
 • Ef FME telur nauðsynlegt að sameina fjármálafyrirtæki þarf ekki að afla samþykkis Samkeppniseftirlitis.
 • FME getur takmarkað eða bannað ráðstöfun fjármálafyrirtækis á fjármunum sínum og eignum.
 • FME getur krafist þess að fjármálafyrirtæki sæki um greiðslustöðvun.
 • Ákvörðun stjórnsýslulaga um andmælarétt og fleira verður vikið til hliðar við sérstakar ráðstafanir FME sem kalla á skjót viðbrögð.
 • FME fær heimild til að grípa til sérstakra ráðstafana vegna erfiðleika annarra eftirlitsskylda aðila en fjármálafyrirtækja.
 • Íbúðalánasjóði er heimilt að kaupa íbúðalán fjármálafyrirtækja.
 • Lög um yfirtökuskyldu ná ekki til ríksins.
 • Lög um virka eignarhluta gilda ekki um ríkið.
 • Sérákvæði í kjarasamningum falla úr gildi við yfirtöku ríkisins á fjármálafyrirtækjum.
 • Ríkissjóður getur lagt sparisjóðunum til stofnfé.
 • Lög um hámark hvers eignarhlutar eiga ekki við í tilviki ríkisins.

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]