Fara í innihald

Árásin á Bandaríkjaþing 2021

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Lögreglan beitir táragasi fyrir utan þinghúsið í Washington.

Árás á Bandaríkjaþing var gerð þann 6. janúar árið 2021 á þinghúsið í Washington á meðan fundur beggja deilda Bandaríkjaþings stóð yfir. Árásin var framin af stuðningsmönnum Donalds Trump fráfarandi Bandaríkjaforseta, sem vonuðust til þess að koma í veg fyrir að þingið staðfesti atkvæði bandaríska kjörmannaráðsins úr forsetakosningunum 2020, þar sem Trump hafði beðið ósigur gegn Joe Biden, frambjóðanda Demókrataflokksins. Trump hafði neitað að viðurkenna ósigur í kosningunum og ítrekað vænt Biden um svindl, en tilraunir hans til að fá niðurstöðu kosninganna hnekkt fyrir dómi höfðu allar mistekist vegna skorts á sönnunargögnum og annarra lagalegra annmarka.[1]

Að minnsta kosti fimm létust í árásinni. Lögregla skaut eina árásarkonu í átökum inni í þinghúsinu og þrír til viðbótar létust af ókunnum orsökum síðar um daginn.[2] Einn lögreglumaður lést úr sárum sínum tveimur dögum eftir árásina.[3]

Árásarmennirnir voru mestmegnis stuðningsmenn Trumps, meðlimir í öfgahægrihreyfingum og Militiahreyfingum og áhagendur samsæriskenningarinnar QAnon.[4] Sumir af þátttakendunum í árásinni kölluðu atburðinn „byltingu“. Aðrir hafa ýmist kallað árásina uppreisn, hryðjuverk eða tilraun til valdaráns.[5] Árásin var fyrsta skipti frá árinu 1814 sem tekið hefur verið yfir þinghúsið í Washington, en þá brutust breskir hermenn inn í það í stríðinu 1812 og kveiktu í því.

Atburðarás

[breyta | breyta frumkóða]

Í aðdraganda árásarinnar höfðu stuðningsmenn Trumps safnast saman í Washington á mótmælasamkomu undir formerkjunum „Björgum Bandaríkjunum“. Trump hafði þar ávarpað stuðningsmenn sína og sagt þeim að „berjast“ til að koma í veg fyrir staðfestingu á niðurstöðum kosninganna. Lögfræðingur Trumps, Rudy Giuliani, hafði þar jafnframt hvatt til þess að deilan um kosningarnar yrði útkljáð með „bardagaréttarhöldum“ (e. trial by combat). Trump hafði í kjölfarið hvatt stuðningsmenn sína til að fjölmenna að þinghúsinu til að mótmæla staðfestingu atkvæðatalningarinnar. Í kjölfarið brutust stuðningsmenn Trumps inn í þinghúsið með lítilli mótstöðu og rufu þingfundinn. Þingmennirnir og aðrir starfsmenn í þinghúsinu, þar á meðal Mike Pence, fráfarandi varaforseti Bandaríkjanna, og Kamala Harris, nýkjörinn varaforseti, flúðu af vettvangi.[6]

Eftir að árásarmennirnir höfðu tekið yfir þinghúsið og ljóst var að lögreglu borgarinnar væri ofviða að koma þeim burt var þjóðvarðlið Virginíu kallað á vettvang með leyfi fylkisstjóra Virginíu.[6] Varnarmálaráðuneyti Trumps neitaði í fyrstu að senda þjóðvarðlið alríkisstjórnarinnar á vettvang til að stilla til friðar en að endingu var þjóðvarðliðið sent eftir að Mike Pence gaf heimild fyrir því.[7]

Tilkynnt var um að heimatilbúnar sprengjur hefðu fundist í borginni nærri höfuðstöðvum bæði Demókrataflokksins og Repúblikanaflokksins á meðan árásin stóð yfir. Sprengjusveitir alríkislögreglunnar voru sendar á vettvang til að sprengja þær. Fyrir utan höfuðstöðvar Repúblikanaflokksins fannst jafnframt pallbíll með farm af riffl­um og hagla­byss­um auk skot­færa og ýmissa ótil­greindra efna.[8]

Á meðan árásarmennirnir sátu í þinghúsinu birti Trump myndbandsfærslu á Twitter þar sem hann bað stuðningsmenn sína að fara heim, en ítrekaði um leið marklausar staðhæfingar sínar um að kosningunum hefði verið stolið og að hann hefði í raun unnið yfirburðasigur. Trump sagðist jafnframt „elska“ árásarmennina.[9] Í ljósi yfirstandandi ofbeldis í höfuðborginni lét Twitter í kjölfarið loka notendaaðgangi forsetans tímabundið vegna brota á reglum miðilsins.[10] Eftir að Twitter-aðgangur Trumps var opnaður á ný aðfaranótt 8. janúar gaf hann út annað myndband þar sem hann fordæmdi árásina á þinghúsið og lofaði í þetta sinn að valdfærslan til Bidens yrði friðsamleg.[11]

Eftir að þinghúsið var endurheimt frá stuðningsmönnum Trumps komu þingmenn saman á ný og staðfestu sigur Bidens í kosningunum.[12]

Viðbrögð

[breyta | breyta frumkóða]
Ummæli eftir Donald Trump um árásina (með íslenskum textum), tveim klukkustundum eftir að byggingin var rofin.

Ýmsir ráðherrar og embættismenn í stjórn Trumps sögðu af sér vegna árásarinnar, meðal annars Elaine Chao samgönguráðherra,[13] Betsy DeVos menntamálaráðherra[14] og Chad Wolf starfandi heimavarnarmálaráðherra.[15]

Þann 13. janúar samþykkti fulltrúadeild Bandaríkjaþings frumvarp um að kæra Trump fyrir embættisbrot vegna þáttar hans í að egna stuðningsmenn sína til að ráðast á þinghúsið.[16] Réttarhöldum hans lauk ekki fyrr en eftir að kjörtímabili hans lauk, og var Trump þá sýknaður af öldungadeild Bandaríkjaþings. 57 þingmenn kusu með sakfellingu Trumps en 43 á móti, en tvo þriðju þingmanna þarf til að sakfella embættismann í embættismissisréttarhöldum.[17][18]

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra Íslands, fordæmdi árásina á þinghúsið og sagði hana hafa verið „að áeggjan fráfarandi forseta“.[19]

Sjá einnig

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Þórður Snær Júlíusson (6. janúar 2021). „Forseti Bandaríkjanna stýrir fordæmalausri árás á lýðræðið“. Kjarninn. Sótt 7. janúar 2021.
  2. Sunna Kristín Hilmarsdóttir (7. janúar 2021). „Fjórir látnir eftir árásina á þinghúsið“. Vísir. Sótt 7. janúar 2021.
  3. Sunna Kristín Hilmarsdóttir (8. janúar 2021). „Lög­reglu­maður lést af sárum sínum eftir á­rásina á þing­húsið“. Vísir. Sótt 8. janúar 2021.
  4. Samúel Karl Ólason (7. janúar 2021). „Öfgamenn áberandi í árásinni á þinghúsið“. Vísir. Sótt 7. janúar 2021.
  5. „„Vald­arán vit­firring­ar". mbl.is. 7. janúar 2021. Sótt 7. janúar 2021.
  6. 6,0 6,1 Vésteinn Örn Pétursson; Sylvía Hall (7. janúar 2021). „Trump einangraður eftir ótrúlega atburðarás“. Vísir. Sótt 7. janúar 2021.
  7. Einar Þór Sigurðsson (6. janúar 2021). „Allt það helsta frá óeirðunum í Washington í kvöld“. Fréttablaðið. Sótt 7. janúar 2021.
  8. „Grun­ur um tvær sprengj­ur í Washingt­on“. mbl.is. 7. janúar 2021. Sótt 8. janúar 2021.
  9. Jón Trausti Reynisson (7. janúar 2021). „Trump ávarpar innrásarfólkið: „Við elskum ykkur, þið eruð mjög sérstök". Stundin. Sótt 7. janúar 2021.
  10. „Twitter læs­ir aðgangi for­set­ans“. mbl.is. 7. janúar 2021. Sótt 8. janúar 2021.
  11. Lovísa Arnardóttir (8. janúar 2021). „Trump for­dæmdi á­rásina á þing­húsið“. Fréttablaðið. Sótt 8. janúar 2021.
  12. Sunna Kristín Hilmarsdóttir (7. janúar 2021). „Kjör Bidens staðfest þrátt fyrir innrás í þinghúsið“. Vísir. Sótt 7. janúar 2021.
  13. Magnús H. Jónasson (7. janúar 2021). „Samgönguráðherra Bandaríkjanna segir af sér“. Fréttablaðið. Sótt 14. janúar 2021.
  14. Markús Þ. Þórhallsson (8. janúar 2021). „Betsy DeVos menntamálaráðherra Trumps segir af sér“. RÚV. Sótt 8. janúar 2021.
  15. „Þriðji ráðherr­ann í rík­is­stjórn Trumps seg­ir af sér“. mbl.is. 11. janúar 2021. Sótt 14. janúar 2021.
  16. „Ákæra Trump fyr­ir embætt­is­glöp“. mbl.is. 13. janúar 2021. Sótt 14. janúar 2021.
  17. „„Sann­gjörn" rétt­ar­höld ekki mögu­leg i tæka tíð“. mbl.is. 13. janúar 2021. Sótt 14. janúar 2021.
  18. Hildur Margrét Jóhannsdóttir (13. febrúar 2021). „Trump sýknaður af ákæru um embættisglöp“. RÚV. Sótt 14. febrúar 2021.
  19. Hildur Margrét Jóhannsdóttir; Haukur Holm (7. janúar 2021). „Árás á lýðræðið „að áeggjan fráfarandi forseta". RÚV. Sótt 7. janúar 2021.