Kryddsíld (sjónvarpsþáttur)

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search

Kryddsíld er viðtalsþáttur sem sendur er út á Stöð 2 um hver áramót (gamlársdag) og er í umsjón fréttastofu stöðvarinnar. Í þáttinn mæta stjórnmálamenn saman og svara spurningum fréttamanns stöðvarinnar. Yfirleitt er þátturinn á fremur léttum nótum þar sem farið er yfir helstu hitamál stjórnmálanna á liðnu ári. Þátturinn hóf göngu sína á útvarpsstöðinni Bylgjunni áramótin 1990 en frá 1992 var hann sendur út í sjónvarpinu. Árið 2008 varð að ljúka útsendingu vegna aðgerða mótmælenda, sem t.d. brenndu sundur kapal sem lá frá útsendingarbíl inn á Hótel Borg. [1]

Nafnið[breyta | breyta frumkóða]

Heiti þáttarins má rekja til misskilnings sem kom fyrst fram í smágrein í Morgunblaðinu 13. janúar 1981 (sjá hér) þar sem tekin var upp frétt úr Berlingske Tidende um að forseta Íslands, Vigdísi Finnbogadóttur, og Margréti Þórhildi Danadrottningu, hefði verið boðið í krydsild. Krydsild er í dönsku bein þýðing á enska orðinu crossfire sem merkir „skothríð úr báðum áttum“ og er notað yfir viðtöl þar sem tveir eða fleiri viðmælendur eru spurðir „í kross“ af blaðamanni eða -mönnum. Í greininni í Morgunblaðinu hafði blaðamaður, sem ekki var sleipur í dönsku, skilið það þannig að þjóðhöfðingjunum hefði verið boðið í „kryddsíldarveislu“. Mistökin urðu frægt dæmi um meinlega þýðingarvillu í dagblöðum.

Orðið „kryddsíld“ er stundum notað yfir sams konar viðtalsþætti á öðrum stöðvum og í íslenskri umfjöllun um slíka þætti erlendis.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. Visir.is