Fara í innihald

Vinstrihreyfingin – grænt framboð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Vinstri græn)
Vinstrihreyfingin – grænt framboð
Fylgi 12,6%¹
Formaður Guðmundur Ingi Guðbrandsson
Varaformaður Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir
Þingflokksformaður Orri Páll Jóhannsson
Framkvæmdastjóri Ragnar Auðun Árnason
Stofnár 6. febrúar 1999
Höfuðstöðvar Túngötu 14, 101 Reykjavík
Stjórnmálaleg
hugmyndafræði
Félagshyggja, umhverfisvernd, kvenfrelsisstefna og friðarhyggja
Einkennislitur grænn og rauður  
Sæti á Alþingi
Sæti í sveitarstjórnum
Listabókstafur V
Vefsíða www.vg.is
¹Fylgi í síðustu Alþingiskosningum

Vinstrihreyfingin – grænt framboð er vinstrisinnuð stjórnmálahreyfing á Íslandi sem var stofnuð þann 6. febrúar 1999. Auk hefðbundinnar félagshyggju og sósíalisma á hún margt sameiginlegt með græningjaflokkum Evrópu í stefnu sinni.

Hreyfingin bauð fyrst fram í kosningum til Alþingis árið 1999 og fékk þá 6 menn kjörna en í kosningunum 2003 tapaði hún einum manni og hafði þá 5. Í Alþingiskosningunum árið 2007 jókst fylgi hreyfingarinnar verulega og fékk hún 9 þingmenn. Í Alþingiskosningunum árið 2009 voru 14 þingmenn kosnir á þing fyrir Vinstrihreyfinguna – grænt framboð. Í þingkosningum árið 2013 fékk hreyfingin 10,9% og 7 þingmenn, sem var ívið meira en kannanir höfðu gefið til kynna. Aðildarfélög hreyfingarinnar eru svæðisfélög hennar en einnig starfa innan hennar bæði Ung vinstri græn og Eldri vinstri græn. Félagar í VG eru nú um fimm þúsund talsins og er hreyfingin meðlimur Norræna Vinstri-Græna Bandalagsins.

Tengd félög

[breyta | breyta frumkóða]

Ung vinstri græn stofnuðu með sér formlegan samstarfsvettvang haustið 2000. Þó svo að Ung vinstri græn séu ungliðahreyfing Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs þá þýðir það ekki að UVG sé í einu og öllu sammála móðurflokknum. Þvert á móti hefur verið lögð á það mikil áhersla í starfi ungliðahreyfingarinnar að hún taki sjálfstæða afstöðu til allra mála því þannig veiti hún móðurflokknum best aðhald.

Á haustdögum 2005 var ákveðið í samráði við Steingrím J. Sigfússon, að gera tilraun til að mynda hóp eldri borgara sem væru félagar eða stuðningsmenn Vinstri grænna. Eldri vinstri græn hittast að meðaltali einu sinni í mánuði.

Formenn Kjörinn Hætti Aldur við embættistöku
Steingrímur J. Sigfússon 6. febrúar 1999 23. febrúar 2013 44
Katrín Jakobsdóttir 23. febrúar 2013 5. apríl 2024 37
Guðmundur Ingi Guðbrandsson 5. apríl 2024 Enn í embætti 47

Varaformenn

[breyta | breyta frumkóða]
Varaformenn Kjörinn Hætti
Svanhildur Kaaber 6. febrúar 1999 9. nóvember 2003
Katrín Jakobsdóttir 9. nóvember 2003 23. febrúar 2013
Björn Valur Gíslason 23. febrúar 2013 7. október 2017
Edward Huji­bens 7. október 2017 19. október 2019
Guðmundur Ingi Guðbrandsson 19. október 2019 5. apríl 2024
Jana Salóme Ingibjargar Jósepsdóttir 5. apríl 2024 Enn í embætti

Landsfundir

[breyta | breyta frumkóða]

Landsfundur er æðsta vald flokksins en hann er haldinn á tveggja ára fresti. Á landsfundi er kosin stjórn flokksins og flokksráð. Í stjórn flokksins sitja 11 aðalmenn auk 4 varamanna og fer þessi hópur með daglega stjórn flokksins í samræmi við lög og samþykktir. Stjórnin hittist mánaðarlega. Flokksráð er æðsta vald flokksins milli landsfunda en það mynda aðal- og varamenn í flokksstjórn, þingmenn, varaþingmenn, sveitarstjórnarfulltrúar, formenn kjördæmisráða, formenn svæðisfélaga, fulltrúi ungliðahreyfingar flokksins og 40 fulltrúar sem kosnir eru sérstaklega af landsfundi. Varaformaður flokksstjórnar er jafnframt formaður flokksráðs.

Kjörtímabilið 2009 - 2013

[breyta | breyta frumkóða]

Kjörfylgi VG fór úr 21,7% í kosningum 2009 í 10,9% árið 2013, sem jafngildir tæplega helmings fylgistapi. Á kjörtímabilinu var tekist á innanflokks um ýmis erfið deilumál sem hreyfingin þurfti að taka afstöðu til í ríkisstjórnarsamstarfi með Samfylkingunni (t.a.m. aðildarumsókn að Evrópusambandinu, Icesave og stjórnarskrármálið). Sögðu fjórir þingmenn hreyfingarinnar sig úr þingflokknum á kjörtímabilinu 2009 - 2013. Þá lét Guðfríður Lilja Grétarsdóttir af þingmennsku um áramótin 2012 - 2013. Í kosningunum 2013 tapaðist ekki síst fylgi út á landsbyggðinni. Í Norðvesturkjördæmi fékk flokkurinn 22,8% í kosningunum 2009 og þrjá þingmenn kjörna, þau Jón Bjarnason, Lilju Rafneyju Magnúsdóttur og Ásmund Einar Daðason. Árið 2011 gekk Ásmundur Einar til liðs við Framsóknarflokkinn eftir deilur innan hreyfingarinnar um Icesave og Evrópusambandsumsóknina. Jón Bjarnason sagði sig úr þingflokki VG í upphafi árs 2013 og leiddi J-lista Regnbogans í Norðvesturkjördæmi í kosningunum 2013. VG fékk 8,5% atkvæða í kjördæminu árið 2013 og Lilja Rafney náði kjöri sem jöfnunarþingmaður. Í Norðausturkjördæmi vann VG ákveðinn varnarsigur, fékk tæp 16% atkvæða og tvo þingmenn kjörna. Í Suðurkjördæmi hrundi fylgi hreyfingarinnar úr 17,1% árið 2009 í 5,9% árið 2013. Það má að hluta til rekja til úrsagnar Atla Gíslasonar úr hreyfingunni. Í höfuðborginni blasti fylgistap einnig við flokknum. Hreyfingin missti einn þingmann í hvoru Reykjavíkurkjördæminu og hefur nú þrjá þingmenn í Reykjavík. Ögmundur Jónasson náði kjöri í Suðvesturkjördæmi. Þar fékk hreyfingin 7,9% atkvæða í kosningunum 2013 en hafði fengið 17,4% atkvæða í kosningunum 2009 þegar tveir menn náðu kjöri.

Staða hreyfingarinnar í dag

[breyta | breyta frumkóða]

Eins og staðan er í dag hefur Vinstrihreyfingin - grænt framboð 9 sveitarstjórnarfulltrúa í 6 sveitarfélögum auk þess sem að fjöldi félaga hefur tekið sæti á blönduðum listum sem víða fara með meirihlutavald.

Hreyfingin situr í ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki. Guðmundur Ingi Guðbrandsson er félags- og vinnumarkaðsráðherra, Svandís Svavarsdóttir innviðaráðherra og Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir matvælaráðherra.

Flokkurinn hefur verið gagnrýndur fyrir ósamræmi í stefnu og framkvæmd. Þannig hafi flokkurinn löngum haft úrsögn úr NATO á stefnuskrá en setið í ríkisstjórn á sama tíma og NATO gerði loftárásir á Líbyu árið 2011 og þannig borið pólitíska ábyrgð á þeim.[1]

Alþingiskosningar
Kosningar Atkvæði Þingsæti
1999 9,1% 6
2003 8,8% 5
2007 14,35% 9
2009 21,68% 14
2013 10,87% 7
2016 15,9% 10
2017 16,9% 11
2021 12,6% 8
Sveitarstjórnarkosningar
Kosningar Atkvæði Fulltrúar
2002 6,7% 3
2006 12,8% 14
2010 9.6% 15
2014 10.1% 17
2018 8






Þingflokkur

[breyta | breyta frumkóða]

Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs er skipaður neðangreindum þingmönnum:

  1. Bergþór Ólason (31. maí 2011). „Vinstrigrænir gera loftárásir“.