Fjármálaeftirlitið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Fjármálaeftirlitið (skammstafað FME) er íslensk ríkisstofnun sem starfar sem eftirlitsstofnun eftir lögum um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi og lögum um fjármálafyrirtæki. Eftirlitsskyldiraðilar á fjármálamarkaði eru viðskiptabankar, sparisjóðir, vátryggingafélög, vátryggingamiðlanir, lánafyrirtæki (fjárfestingarbankar og greiðslukortafyrirtæki), verðbréfafyrirtæki, verðbréfamiðlanir, rekstrarfélög verðbréfasjóða og lífeyrissjóðir, auk annarra aðila sem heimild hafa til að taka á móti innlánum. Fjármálaeftirlitið var stofnað árið 199 þegar bankaeftirlit Seðlabanka Íslands og Tryggingaeftirlitið voru sameinuð.

Starfsmenn[breyta | breyta frumkóða]

Núverandi forstjóri þess er Unnur Gunnarsdóttir en áður hafði Gunnar Þ. Andersen tekið við af Jónasi Fr Jónssyni.[1] Fyrsti forstjóri fjármálaeftirlitsins var Páll Gunnar Pálsson, sonur Páls Péturssonar frá Höllustöðum, alþingismanns. [2] Hann var forstjóri á árunum 1999 til 2005.[3]

FME hefur einnig eftirlit með Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og húsbréfadeild Íbúðalánasjóðs.

Bankahrunið[breyta | breyta frumkóða]

Í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá maí 2007 kom fram að efla ætti FME.[4] Þann 6. október 2008 var tilkynnt að FME yrðu veittar miklar heimildir til að hlutast til um íslenskar fjármálastofnanir. Strax morguninn eftir greip FME inn í rekstur Landsbankans.[5]

Í skýrslu rannsóknarnefndar alþingis var komist að þeirri niðurstöðu að:

mikið hafi skort á að Fjármálaeftirlitið væri í stakk búið til þess að sinna eftirliti með fjármálafyrirtækjunum á viðhlítandi hátt síðustu árin fyrir fall bankanna. Þar veldur mestu að ráðstöfunarfé Fjármálaeftirlitsins var ónógt. Ef litið er til rekstrarkostnaðar stofnunarinnar og tekna hennar fram til ársins 2006 er ljóst að vöxtur stofnunarinnar hefur ekki verið nægjanlegur samanborið við vöxt íslenska fjármálakerfisins, flókin eignatengsl á fjármálamarkaði, aukin umsvif eftirlitsskyldra aðila erlendis svo og aukin verkefni sem lögð voru á stofnunina. Ábyrgð á því að Fjármálaeftirlitið fékk ekki meiri fjármuni en raun bar vitni liggur að mati rannsóknarnefndar Alþingis hjá stjórnendum Fjármálaeftirlitsins þar sem þeir óskuðu sjálfir ekki eftir nægum fjárveitingum. Reyndi þannig ekki á hvort löggjafinn var reiðubúinn að breyta fjárhæð eftirlitsgjalda þannig að stofnunin fengi nægar ráðstöfunartekjur. Með þessu er þó ekki verið að segja að ábyrgð viðskiptaráðherra og Alþingis hafi engin verið.
 

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Gunnar Þ. Andersen ráðinn forstjóri Fjármálaeftirlitsins; af Eyjunni.is“. Afrit af upprunalegu geymt þann 6. apríl 2009. Sótt 3. apríl 2009.
  2. „Skipaður í stjórn FME gegn því að ráða son ráðherra sem forstjóra?; af Eyjunni.pressan.is 2013“. Afrit af upprunalegu geymt þann 5. júlí 2013. Sótt 2. júlí 2013.
  3. Fjármálaeftirlitið; af Tíðarandanum.is
  4. Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnar 2007
  5. FME stýrir Landsbankanum

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

FME í fjölmiðlum