Stuðmenn

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stuðmenn
UppruniReykjavík, Íslandi
Ár1970–í dag
StefnurPopp
MeðlimirJakob Frímann Magnússon
Valgeir Guðjónsson
Ásgeir Óskarsson
Ragnhildur Gísladóttir
Ómar Guðjónsson
Stefanía Svavarsdóttir
Eyþór Ingi Gunnlaugsson
Fyrri meðlimirGylfi Kristinsson
Ragnar Danielsen
Egill Ólafsson
Sigurður Bjóla
Þórður Árnason
Tómas Magnús Tómasson
Vefsíðahttp://www.studmenn.com
Hulstur fyrri kvikmyndar þeirra Með allt á hreinu frá 1982.

Stuðmenn er íslensk rokkhljómsveit stofnuð árið 1970 í Menntaskólanum við Hamrahlíð. Fyrsta smáskífa sveitarinnar, Honey, will you marry me?, kom þó ekki út fyrr en árið 1974. Upprunalegir meðlimir hljómsveitarinnar voru Jakob Frímann Magnússon, Valgeir Guðjónsson, Gylfi Kristinsson og Ragnar Danielsen. Stuðmenn tóku upp Sumar á Sýrlandi sem kom út sumarið 1975 og sló rækilega í gegn. Þá höfðu gengið til liðs við sveitina þeir Tómas Tómasson, Egill Ólafsson og Sigurður Bjóla. Platan var sett upp sem hálfgildings konseptplata sem lýsti á gamansaman hátt þróun skemmtanamenningar Íslendinga úr brennivínsmenningu í hippamenningu. Ári síðar fylgdu þeir henni eftir með Tívolí sem var meira hreinræktað og pólitískt konseptverk og varð líka gríðarvinsæl. Þá hafði Þórður Árnason gítarleikari gengið til liðs við Stuðmenn. Árið 1978 stofnuðu Egill, Tómas, Ásgeir Óskarsson og Þórður Árnason framúrstefnurokksveitina Þursaflokkinn sem gaf út fjórar hljómplötur á næstu fjórum árum. Valgeir hélt til Noregs í nám og Jakob var búsettur í London og síðar Los Angeles þar sem hann hljóðritaði nokkrar sólóplötur, m.a. fyrir Warner Brothers, Capitol og Golden Boy, sem hann fylgdi eftir með tónleikaferðum auk þess að hljóðrita og leika á tónleikum með hljómsveit Long John Baldry, Kevin Ayers o.fl.

Árið 1982 gerðu Stuðmenn kvikmyndina Með allt á hreinu ásamt pönkhljómsveitinni Grýlunum í leikstjórn Ágústs Guðmundssonar. Kvikmyndin sló í gegn og hljómplata með lögum úr myndinni varð ekki síður vinsæl. Tveimur árum síðar gerði hljómsveitin kvikmyndina Hvítir mávar þar sem dýpra var á húmornum, enda náði hún ekki að slá við vinsældum fyrri myndarinnar þótt lögin úr henni yrðu mörg feykivinsæl, svo sem lagið „Búkalú“ sem var mánuðum saman í efstu sætum vinsældalista. Árið 1984 hélt hljómsveitin fræga útihátíð í Atlavík þar sem Ringo Starr kom fram.

Árið 1986 hélt hljómsveitin í tónleikaferð til Kína í boði kínversku stjórnarinnar. Rætt var um að Stuðmenn hefðu verið önnur vestræna popphljómsveitin sem hélt tónleika í Kína á eftir hljómsveitinni Wham!. Hljómsveitin kom fram á tólf tónleikum. Heimildarmyndin Strax í Kína var gerð um ferðina. Eftir Kína-ævintýrið tók við nokkuð hlé þar sem meðlimir hljómsveitarinnar einbeittu sér að eigin verkefnum. Árið 1987 innleiddu Stuðmenn söngvarakeppnina Látúnsbarkann, eins konar forvera Idol-keppninnar og sama ár kom út Á gæsaveiðum. Eftir útgáfu þeirrar plötu dró Valgeir sig út úr hljómsveitinni næstu tvo áratugi. Árið 1989 kom út Listin að lifa og 1990 Hve glöð er vor æska. Eftir það tók aftur við hlé þar til út komu Ærlegt sumarfrí, Hvílík þjóð! ,EP+ 1997 og 1998. Samstarfsverkefni Stuðmanna og Karlakórsins Fóstbræðra, tónleikaplatan Íslenskir karlmenn sló öll sölumet árið 1998, en skífan seldist í 25.000 eintökum.

Eftir aldamótin hafa m.a. komið út stór safnplata Tvöfalda bítið, hljómleikaplatan Á stóra sviðinu og hljómplatan Á Hlíðarenda. Árið 2004 gerðu Stuðmenn síðan framhald af kvikmyndinni Með allt á hreinu, Í takt við tímann, með Ágústi Guðmundssyni og hljómsveitinni Quarashi. Samnefnd plata kom út sama ár. Árið 2004 lék hljómsveitin m.a. í Tívolí í Kaupmannahöfn, 2005 í Royal Albert Hall í London, 2006 í Jazz Philharmonic Hall í St. Pétursborg og 2007 í Circus í Kaupmannahöfn. Vorið 2009 kom hljómsveitin fram á minningartónleikum tileinkuðum Rúnari Júlíussyni í Laugardalshöll. Auk stofnendnanna Jakobs og Valgeirs var hljómsveitin þar skipuð hrynparinu Tómasi og Ásgeiri, gítarleikaranum Ómari Guðjónssyni og tveimur ungum forsöngvurum, Stefaníu Svavarsdóttur og Eyþóri Inga Gunnlaugssyni. Sá síðastnefndi er nafni hljómborðs- og slagverksleikarans Eyþórs Gunnarssonar sem starfað hefur með Stuðmönnum frá 1998. Í maí 2009 gáfu Stuðmenn út smáskífu sem var tileinkuð Rúnari Júlíussyni samhliða því að flytja lokalag handknattleikskvikmyndarinnar Gott silfur gulli betra.

Verk[breyta | breyta frumkóða]

Hljómplötur[breyta | breyta frumkóða]

  • Sumar á Sýrlandi (1975)
  • Tívolí (1976)
  • Með allt á hreinu (1982)
  • Tórt verður til trallsins (1983)
  • Grái fiðringurinn (1983)
  • Kókostré og hvítir mávar (1985)
  • Í góðu geimi (1985)
  • Strax – sem hljómsveitin Strax (1987)
  • Á gæsaveiðum (1987)
  • Listin að lifa (1989)
  • Hve glöð er vor æska (1990)
  • Stuðmenn – safnplata (1993)
  • Ærlegt sumarfrí – safnplata (1997)
  • Hvílík þjóð (1998)
  • EP+ (1998)
  • Íslenskir karlmenn Karlakórinn Fóstbræður syngur Stuðmannalög (1998)
  • Í bláum skugga – bók með textum, gítargripum og ljósmyndum (2000)
  • Tvöfalda bítið – safnplata (2001)
  • Á stóra sviðinu – tónleikaplata (2002)
  • Á Hlíðarenda (2003)
  • 6 geysers & a bird (2004)
  • Í takt við tímann (2004)
  • Stuðmenn í Royal Albert Hall (2005)
  • Tapað fundið – Frummenn, fyrsta útgáfa Stuðmanna (2006)
  • Astralterta - Með allt á hreinu (2012)
  • Stuðmenn Á Stórtónleikum Í Hörpu (2012)
  • Tívolí - Tónleikar Í Hörpu (2014)
  • Sumar Á Sýrlandi - Tónleikar Í Hörpu (2015)
  • Astraltertukubbur : Ásgeir Óskarsson (2017)
  • Lög Allra Landsmanna - Safnplata (2020)

Kvikmyndir[breyta | breyta frumkóða]

Bækur[breyta | breyta frumkóða]

  • Illugi Jökulsson, Draumur okkar beggja, Reykjavík, Iðunn, 1983.
  • Þórarinn Þórarinsson Í bláum skugga, Reykjavík, Mál og Mynd, 2000

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]