Mótmæli vörubílstjóra á Íslandi 2008

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Átök brutust út á milli lögreglu og mótmælenda þann 23. apríl 2008.

Mótmæli vörubílstjóra á Íslandi 2008 voru mótmæli sem vörubílstjórar á Íslandi skipulögðu til að mótmæla háum olíusköttum og of stífum reglum um hvíldartíma atvinnubílstjóra.

Mótmælin lýstu sér í því að atvinnubílstjórar lögðu vörubílum sínum á stórum umferðaræðum á höfuðborgarsvæðinu, og hindruðu þannig alla umferð.

Mótmæli[breyta | breyta frumkóða]

Samkvæmt Sturlu Jónssyni, talsmanni vörubílstjóra voru helstu baráttumálin eftirfarandi[1]:

 • Breytingar á reglum um hvíldartíma
 • Að fallið verði frá fyrirhuguðu umhverfisgjaldi
 • Álögur verði lækkaðar, bæði gjald á vörubifreiðar og virðisaukaskattur á eldsneyti
 • Að nýjar reglur um endurnýjun á meiraprófsréttindum verði endurskoðuð.

Álögur á eldsneyti eru eftirfarandi: fyrir olíu er vörugjaldið 41 króna[2][3] en fyrir bensín er 9,28 krónur auk sérstaks bensíngjalds sem er 32,95 krónur.[4][5] Virðisaukaskattur af eldsneyti á ökutæki er almennt 24,5%.[6][7] Þessar álögur hafa ekki breyst nýlega. Það sem ætla má að valdi hækkun á eldsneytisverði er hátt heimsmarkaðsverð á hráolíu og veikt gengi íslensku krónunnar.

Samgönguráðherra setur lög og reglur um hvíldartíma ökumanna.[8] Samkvæmt reglugerð um skipulag á vinnutíma ökumanna þarf ökumaður að hvílast í samtals 45 mínútur fyrir hvern 4,5 klukkutíma sem ekinn er.[9] Vörubílstjórar segja að þessar reglur, sem byggja á evrópskum reglum, henti ekki á Íslandi auk þess sem hvíldaraðstaða við vegi landsins er lítil sem enginn.

Samkvæmt lauslegum útreikningum blaðamanns Morgunblaðsins kostuðu mótmælin, frá 27. mars til 4. apríl, samfélagið að minnsta kosti 31,4 milljónir króna.[10] Brugðist var við þessu í annarri grein í Morgunblaðinu og niðurstöðurnar dregnar í efa.[11]

27. mars 2008[breyta | breyta frumkóða]

Mótmælin hófust með því að hópur vörubílstjóra lagði bílum sínum í Ártúnsbrekku og stöðvaði þannig umferð. Páll Pálsson forsvarsmaður hagsmunasamtaka vörubílstjóra sagði mótmælinn ekki að frumkvæði samtakanna. Sturla Jónsson var skipuleggjandi mótmælanna og Páll Pálsson sagði að vörubílstjórar myndu mótmæla daglega með sama hætti þar til að álögur yrðu lækkaðar.[12][13]

28. mars 2008[breyta | breyta frumkóða]

Þann 28. mars stífluðu vörubílstjórar alla umferð í Ártúnsbrekku.

Vörubílstjórar mótmæltu með sama hætti og fyrri daginn en lokuðu umferð í báðar áttir. Mótmælin hófust um fjögurleytið og stóðu yfir í um hálftíma. Áætlað var að um hundrað manns hafi tekið þátt. Þá tilkynntu vörubílstjórar að þeir myndu halda áfram eftir helgi, fengju þeir ekki að funda með ráðamönnum um málefni sín. Bílstjórarnir fóru leynt með ráðagerðir sínar af ótta um að lögreglan myndi koma í veg fyrir þær. Jón Viðar Matthíasson, slökkviliðsstjóri, gagnrýndi mótmælaaðgerðirnar vegna þess að þær voru ekki tilkynntar og því hafi ekki verið hægt að gera ráðstafanir fyrir sjúkraflutninga ef til þess kæmi.[14][15]

31. mars 2008[breyta | breyta frumkóða]

Aftur var mótmælt í Ártúnsbrekku og einnig var Reykjanesbraut lokað við Kúagerði.[16] Lögreglan hafði undirbúið sig og var aukalegur mannskapur á vakt. Mótmælin stóðu yfir í rúma klukkustund og lauk laust eftir átta.[17] Boðað var til mótmæla á Austurvelli klukkan 16:00 þann 1. apríl á vef Ferðaklúbbsins 4X4[18]. Einnig var veginum lokað við Lónsvegamót á Höfn í Hornafirði frá kl 16:45 til 17:10[19]

1. apríl 2008[breyta | breyta frumkóða]

Mótmælin sem boðað var til daginn áður hófust með því að bílstjórar söfnuðust saman í Klettagörðum og óku til Austurvallar. Sturla Jónsson afhenti Sturlu Böðvarsyni, forseta Alþingis, undirskriftalista um lækkun eldsneytisskatta.[20] Hópferðamiðstöðin TREX lýsti yfir stuðningi sínum og sendi netpóst til forsætis-, fjármála-, viðskipta-, iðnaðar- og samgönguráðherranna. Þar sagði að atvinna þeirra sem byggðu afkomu sína á seldum akstri væri í hættu og lýst var yfir vonbrigðum vegna athafnaleysis stjórnvalda.[21] Bílstjórar stöðvuðu einnig umferð við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar í um tíu mínútur þar til lögreglan kom á vettvang.[22] Á Akureyri mótmæltu einnig um 50-60 bílstjórar.[23] Árni M. Mathiesen, fjármálaráðherra, lét þau orð falla í útvarpsviðtali á Bylgjunni að hann væri tilbúinn til að ræða við vörubílstjóra ef þeir „hættu þessum ósköpum á vegunum“ og að það myndi duga að líta við í kaffi.[24]

4. apríl 2008[breyta | breyta frumkóða]

Sunnlenskir vörubílsstjórara mótmæltu með því að aka löturhægt yfir Ölfusárbrú á Selfossi. Lögregla beindi halarófunni annað þegar bílstjórar hugðust aka yfir brúna í þriðja sinn. Atburðurinn fór friðsamlega fram.[25]

23. apríl 2008[breyta | breyta frumkóða]

Mótmæli hófust um kl. 11 um morgun 23. apríl 2008 á Suðurlandsvegi við Rauðavatn í nágrenni Reykjavíkur. Lögreglan var á staðnum, vopnuð óeirðarbúnaði (múgskjöldum og kylfum) og kom til átaka milli þeirra og mótmælenda. Þeir handtóku bílstjóra og mótmælendur og sprautuðu piparúða á fjöldann. Var steinum og eggjum kastað í lögrelumenn og slasaðist einn lögreglumaður þegar hann fékk grjót í höfuðið.[26] 21 mótmælandi var handtekinn og 16 ökutæki gerð upptæk vegna mögulegra brota á 168 gr. almennra hegningarlaga og fyrstu málsgrein 27. gr. umferðarlaga.[27][28][29] Múgstjórnunarsveit lögreglunnar sá um aðgerðir á vettvangi.[30] Sigmar Magnússon bílstjóri kærði lögreglumann sem hrifsaði af honum farsíma og eyddi myndbandsupptöku af aðgerðum lögreglunnar. Lögreglumaðurinn neitaði að gefa upp lögreglunúmer og bar því við að hann hefði ekkert númer.[31] Samkvæmt 10. grein í reglugerð um einkennisbúninga og merki lögreglunnar fá allir lögreglumenn sem lokið hafa prófi frá Lögregluskóla ríkisins og lögreglunemar úthlutað lögreglunúmeri.[32]

Fréttamaður Stöðvar 2, Lára Ómarsdóttir, heyrðist í beinni útsendingu segja: „Ég get nú kannski fengið einhvern til að kasta eggi rétt á meðan við erum live á eftir“.[33] Vöknuðu þá grunsemdir um að fréttamenn Stöðvar 2 hefðu sviðsett fréttaefni.[34] Í yfirlýsingu frá Láru kom fram að um grín hafi verið að ræða.[35] En í kjölfarið ákvað hún að segja starfi sínu lausu sökum sem henni þótti hún hafa misst traust almennings.

24. apríl 2008[breyta | breyta frumkóða]

Ungmenni tefja umferð við gatnamót Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar 25. apríl.

Eigendur ökutækjanna sem voru gerð upptæk voru boðaðir til skýrslutöku á lögreglustöðina við Hverfisgötu klukka 11:15. Þeir mættu í íþróttabolum, framan á þeim var númer og fyrir ofan það stóð „Trukkari“ og aftan á bolnum stóð „Eign ríkisins“. Einar Árnason flutningabílstjóri sagði að bílunum hafi verið löglega lagt á hvíldarstæði.[36] Samkvæmt Einari telur lögreglan að vörubílarnir hafi stíflað veginn.[37]

Maður, sem áður hafði titlað sig talsmann vörubílstóra[38], réðst á lögreglumann þegar bílstjórarnir voru að sækja bílana sína á geymslusvæði við Kirkjusand. Árásamaðurinn var handtekinn og vörubílstjórarnir fordæmdu árásina.[39][40][41] Árásamaðurinn, Ágúst Fylkisson, sendi síðar frá sér yfirlýsingu þar sem hann baðst afsökunar á athæfi sínu.[42] Yfirlögregluþjónn höfuðborgarsvæðisins sagði um árásina: „Þetta er með því grófara sem maður hefur séð og mjög hrottaleg árás“.[43] Lögreglumaðurinn sem varð fyrir árásinni nefbrotnaði og tognaði illa á hálsi.[44]

Boðað var til fundar allsherjarnefndar af frumkvæði stjórnarandstöðunnar. Atli Gíslason, fulltrúi Vinstri grænna, vildi að upplýsingum um mótmælin 23. apríl yrði safnað og fulltrúar lögreglu og vörubílstjóra yrðu kallaðir fyrir nefndina.[45] Vörubílstjórar héldu því fram að símar þeirra hefðu verið hleraðir fyrir mótmælin daginn áður en Friðrik Smári Björgvinsson yfirlögregluþjónn þvertók fyrir það.[46]

25. apríl 2008[breyta | breyta frumkóða]

Í kringum hundrað ungmenni töfðu umferð á gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar um fjögurleytið. Eftir að lögregla setti ungmennunum þá afarkosti að fara eða verða handtekin hurfu þau fljótlega á brott.[47][48]

Gagnrýni á mótmæli vörubílsstjóra[breyta | breyta frumkóða]

Mótmælin hafa helst verið gagnrýnd vegna þess að skipuleggjendum láðist að tilkynna þau. Þetta varð til þess að hætta skapaðist þar sem hvorki slökkvilið né sjúkraliðar gátu gert ráðstafanir tímanlega.[49][50] Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, fékk tölvupóst frá ýmsum eftir mótmælin 23. apríl þar sem meðal annars var þess krafist að hann segði af sér.[51][52] Sigurður Líndal, lagaprófessor við Háskóla Íslands, gagnrýndi ofbeldi gagnvart lögreglu þann 23. apríl og ummæli þingmannana Atla Gíslasonar, Steingríms J. Sigfússonar og Guðjóns A. Kristjánssonar en honum þótti þeir gefa í skyn að aðgerðir lögreglu hefðu farið fram úr hófi.[53]

Gagnrýni á aðferðir lögreglu til að halda mannfjölda í skefjum[breyta | breyta frumkóða]

Við Rauðavatn 23. apríl hótaði lögreglan að beita piparúða á mótmælendur, sem óhlýðnuðust fyrirmælum hennar. Lögregluþjónar gengu ógnandi um götuna með gasbrúsa og hrópuðu: „Gas! Gas! Gas! Af götunni!“ í þeim tilgangi að gefa fólki færi á að forða sér undan úðanum. Skiptar skoðanir eru á því hvort aðferðir lögregluþjónsins hafi verið réttar og hvort of mikilli hörku hafi verið beitt. Arnar Rúnar Marteinsson aðalvarðstjóri á höfuðborgarsvæðinu segir þetta byggt á algjörum misskilningi. „Okkar markmið er ekki að reyna að klekkja á neinum og við gætum þess að almenningur hafi alltaf útgönguleið. Til þess að svo verði upplýsum við mótmælendur fyrirfram um hvað við hyggjumst gera, hvort sem beita á úða eða kylfum, og veitum þeim þannig tækifæri til að yfirgefa svæðið án átaka.“ segir hann í viðtali við Morgunblaðið þann 28. apríl 2008.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 1. Morgunblaðið: „Mótmæli vörubifreiðastjóra og almennings“. 10. apríl 2008.
 2. althingi.is: „Lög um olíugjald og kílómetragjald“. 9. júní 2004.
 3. Tollskrá: Gasolíur[óvirkur tengill]
 4. althingi.is: „Lög um vörugjald af ökutækjum, eldsneyti o.fl.“. 13. apríl 1993.
 5. Tollskrá: Blýlaust bensín.[óvirkur tengill]
 6. Tollskrá: Blýlaust bensín.[óvirkur tengill]
 7. Tollskrá: Gasolíur[óvirkur tengill]
 8. althingi.is: Umferðarlög, 44. gr. 30. mars 1987.
 9. reglugerd.is: „Reglugerð um aksturs- og hvíldartíma ökumanna“. 2006.
 10. Morgunblaðið: „Dýr mótmæli bílstjóra“. 4. apríl 2008.
 11. Morgunblaðið: „Andsvar: Dýr mótmæli bílstjóra“. 15. apríl 2008.
 12. visir.is: „Vörubílstjórar teppa umferð í Ártúnsbrekku“. 27. mars 2008.
 13. visir.is: „Mótmælum vörubílstjóra lokið - boða dagleg mótmæli“. 27. mars 2008.
 14. visir.is: „Mótmælum vörubílstjóra lokið“. 28. mars 2008.
 15. visir.is: Vörubílstjórar loka á tveimur stöðum. 28. mars 2008.
 16. visir.is: Vörubílstjórar loka götum - talsmaður þeirra handtekinn. 31. mars 2008.
 17. visir.is: „Gríðarlegar umferðartafir í mótmælum vörubílstjóra í morgun“. 31. mars 2008.
 18. visir.is: „Mótmælafundur á Austurvelli á morgun gegn háu olíuverði“. 31. mars 2008.
 19. visir.is: „Bensínverði líka mótmælt á Höfn“. 31. mars 2008.
 20. visir.is: „Vörubílstjórar hitta þingmenn við Austurvöll“. 1. apríl 2008.
 21. visir.is: „Styttist í mótmæli á Austurvelli - bílstjórar safnast saman“. 1. apríl 2008.
 22. visir.is: „Stöðvuðu umferð í skamman tíma á Miklubraut“. 1. apríl 2008.
 23. visir.is: „Vörubílstjórar láta til sín taka á Akureyri“. 1. apríl 2008.
 24. visir.is: „Vill bjóða vörubílstjórum í kaffi“. 1. apríl 2008.
 25. „Bílstjórar mótmæltu á Selfossi“. Mbl.is. 4. apríl 2008.
 26. Mbl.is: „Lögreglumaður á slysadeild“. 23. apríl 2008
 27. Mbl.is: „21 handtekinn í dag“. 23. apríl 2008.
 28. Lögregluvefurinn: „21 handtekinn og lagt hald á 16 ökutæki“. 23. apríl 2008.[óvirkur tengill]
 29. visir.is: „21 handtekinn á Suðurlandsvegi í dag“. 23. apríl 2008.
 30. Lögregluvefurinn: „21 handtekinn og lagt hald á 16 ökutæki“. 23. apríl 2008.[óvirkur tengill]
 31. mbl.is: Lögreglan eyddi gögnum af farsíma. 25. apríl 2008.
 32. „Stjórnartíðindi: REGLUGERÐ um einkennisbúninga og merki lögreglunnar“. 3. janúar 2007.
 33. „Enginn er Eyland: „Var Lára að grínast?". 24. apríl 2008“. Afrit af upprunalegu geymt þann 8. maí 2008. Sótt 24. apríl 2008.
 34. eyjan.is: „Lára tekin á beinið“. 24. apríl 2008[óvirkur tengill]
 35. visir.is: „Yfirlýsing frá Láru Ómarsdóttur“. 24. apríl 2008.
 36. Mbl.is: „Boðaðir til skýrslutöku“. 24. apríl 2008.
 37. Mbl.is: „Gáfu ekki lagalegar skýringar“. 24. apríl 2008.
 38. mbl.is: „Sturla: Ekki á okkar ábyrgð“
 39. mbl.is: „Ráðist á lögreglumann“. 24. apríl 2008.
 40. visir.is: „Myndband: Lögreglumaður laminn á Kirkjusandi“. 24. apríl 2008.
 41. visir.is: „Gæti átt ársfangelsi yfir höfði sér“. 24. apríl 2008.
 42. mbl.is: „Missti stjórn á skapi sínu“. 26. apríl 2008.
 43. visir.is: „Með því grófara sem maður hefur séð“. 28. apríl 2008.
 44. visir.is: „Síðustu vaktinni lauk með hnefahöggi“. 29. apríl 2008.
 45. ruv.is: „Allsherjarnefnd fundar um mótmæli“. 24. apríl 2008.
 46. visir.is: „Lögreglan neitar því að símar hafi verið hleraðir“. 24. apríl 2008.
 47. mbl.is: „Lögreglan hótar handtökum“. 25. apríl 2008.
 48. mbl.is: „Rýmingu lokið við Miklubraut“. 25. apríl 2008.
 49. Morgunblaðið: „Ábyrgðarlaus mótmæli“. 28. mars 2008.
 50. visir.is: „Mótmæli settu sjúkraflutninga úr skorðum“. 23. apríl 2008.
 51. Mbl.is: „Gerðu þjóðini greiða og skjótu þig“. 24. apríl 2008.
 52. Dagbók dómsmálaráðherra, bjorn.is: „Miðvikudagur, 23. 04. 08.“. 23. apríl 2008.
 53. visir.is: „Vörubílstjórum berst stuðningur“. 26. apríl 2008.

Tengt efni[breyta | breyta frumkóða]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Vefsíður[breyta | breyta frumkóða]

Myndbönd af YouTube[breyta | breyta frumkóða]