Ástþór Magnússon
![]() |
Þessi grein þarfnast hreingerningar svo hún hæfi betur sem grein hér á Wikipediu. |
Ástþór Magnússon (f. í Reykjavík 4. ágúst 1953) er íslenskur viðskiptamaður og stofnandi Friðar 2000.
Eftir landspróf hóf Ástþór nám í Verslunarskóla Íslands en fór síðan til Bretlands í nám við Medway College of Art and Design og lauk prófi í auglýsingaljósmyndun og markaðsfræðum. Hann sótti síðan fjölda námskeiða bæði heima og erlendis í stjórnun og rekstri fyrirtækja. Ástþór var upphafsmaður að stofnun Eurocard á Íslandi árið 1979 en það var fyrsta kreditkortafyrirtæki landsins. Ástþór stofnaði einnig og rak um árabil myndiðjuna Ástþór og póstverslunarfyrirtæki með útibúum í Færeyjum og Danmörku. Árið 1983 flutti Ástþór til Danmerkur og síðan til Bretlands þar sem hann gerðist frumkvöðull í þróun tölvutækni fyrir gagnvirk upplýsinga- og verslunarkerfi. Hann kom einnig að flugrekstri um árabil og er með yfir 2000 flugtíma mest við stjórn á litlum einkaþotum.[heimild vantar]
Ástþór var upphafsmaður að stofnun Friðar 2000 1994 með þátttöku meira en 100 erlendra friðarsamtaka og yfir 1000 einstaklinga árið 1995.
Ástþór kynnti hugmyndafræði sína í forsetaframboði 1996 og í bókinni Virkjum Bessastaði sem dreift var á öll heimili landsmanna. Ástþór bauð sig fram til forseta Íslands í forsetakosningunum 2012, en þann 1.júní 2012 var framboð hans dæmt ógilt því hann fékk ekki lögboðið vottorð yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis.[1] Forsetaframboð hans árið 2000 var einnig dæmt ógilt, vegna þess að nægjanlegan fjölda meðmælenda vantaði.
Ástþór hefur í gegnum tíðina verið afar gagnrýninn á utanríkisstefnu Bandaríkjanna, sér í lagi á tíma Íraksstríðsins, sem hann segir leidda áfram af hergagnaiðnaðinum.[2] Í deilum milli vesturlanda og Rússlands hefur Ástþór gjarnan tekið afstöðu með Rússum. Meðal annars hrósaði hann innlimun Rússa á Krímskaga árið 2014 og sagði að Vladímír Pútín Rússlandsforseti ætti skilið friðarverðlaun Nóbels fyrir að standa fyrir henni.[3]
Viðurkenningar[breyta | breyta frumkóða]
Árið 1996 hlaut Ástþór Gandhi-mannúðarverðlaunin, sem veitt voru af stofnuninni Gandhi Memorial International Foundation(en) í Orinda í Kaliforníu.[4] Forstöðumaður stofnunarinnar og verðlaunanna var Yogesh K. Gandhi, sem hafði komið til Íslands árið 1996 á vegum Friðar 2000. Gandhi sagðist vera skyldur indverska sjálfstæðisleiðtoganum og friðarsinnanum Mahatma Gandhi,[5] en eiginlegir afkomendur Mahatma sögðu Yogesh hins vegar vera svindlara sem hefði aðallega áhuga á að auðga sjálfan sig og mynda tengsl við valdastofnanir með því að vera ljósmyndaður við hlið þjóðarleiðtoga.[6] Í heimsókn sinni til Íslands árið 1996 hafði Gandhi hlotið fund með Vigdísi Finnbogadóttur, forseta Íslands.[7]
Talið er að stofnunin og veiting Gandhi-mannúðarverðlaunanna hafi verið fjármögnuð af Hogen Fukunaga(en), japönskum milljarðamæringi sem leiddi sértrúarsöfnuð í Japan.[8] Samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Bandaríkjaþings á ólöglegum fjárframlögum til kosningabaráttu Bills Clinton Bandaríkjaforseta frá árinu 1998 beitti Fukunaga Gandhi-stofnuninni og verðlaununum til að koma söfnuði sínum í tengsl við áhrifafólk og auka vegsemd hans.[9] Fukunaga kom til Íslands ásamt Yogesh Gandhi í boði Friðar 2000 árið 1996 og hitti þar meðal annars Steingrím Hermannsson, þáverandi seðlabankastjóra og fyrrum forsætisráðherra Íslands.[10]
Ástþór segist hafa verið sæmdur Heilögum gullkrossi af grísku rétttrúnaðarkirkjunni fyrir meintan þátt sinn við að stilla til friðar milli Bandaríkjanna og Íraks á tíunda áratugnum. Að sögn Ástþórs tilnefndi UNESCO á Grikklandi hann til verðlaunanna.[11]
Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]
- ↑ Frambjóðendur til kjörs forseta Íslands 2012
- ↑ Ástþór Magnússon (22. apríl 2022). „Er mamma sölumaður dauðans?“. Vísir. Sótt 26. apríl 2022.
- ↑ Kolbeinn Tumi Daðason (20. mars 2014). „Skora á Alþingi að virða niðurstöðuna á Krímskaga“. Vísir. Sótt 26. apríl 2022.
- ↑ „Demókratar skila Gandhi-gjöfinni“. Morgunblaðið. 19. nóvember 1996. bls. 19.
- ↑ Í mörgum fréttum og í auglýsingum Friðar 2000 um komu Yogesh Gandhi til Íslands 1996 er hann ranglega sagður afkomandi Mahatma Gandhi.
- ↑ „Gjöfull fátæklingur“. Dagblaðið Vísir. 2. nóvember 1996. bls. 12.
- ↑ „Yogesh K. Gandhi til Íslands“. mbl.is. 8. febrúar 1996. Sótt 26. apríl 2022.
- ↑ Smith, Matt (April 8, 1998). „Here Today, Gandhi Tomorrow? : Amazing tale of Walnut Creek man who gave Clinton $325,000; immunity possible for congressional testimony“. SF Weekly. www.sfweekly.com. Afrit af upprunalegu geymt þann 27. júní 2015. Sótt 26. apríl 2022.
- ↑ "Investigation of Illegal or Improper Activities in Connection with 1996 Federal Election Campaigns", 105th Congress, 2nd Session, United States Senate Report 105-167 Part 5, 105 S. Rpt. 167; Prt. 5, March 10, 1998. hosted at www.senate.gov, See also: Contribution of Yogesh Gandhi[óvirkur tengill].
- ↑ „Welcome! Dr. Hogen Fukunaga“. Morgunblaðið. 31. mars 1996. bls. 3.
- ↑ Ástþór Magnússon (18. júní 2016). „Af hverju ítrekað í forsetaframboð?“. Kjarninn. Sótt 26. apríl 2022.