Gerður Kristný

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Jump to navigation Jump to search
Gerður Kristný.

Gerður Kristný Guðjónsdóttir, oftast aðeins Gerður Kristný, (fædd í Reykjavík 10. júní 1970) er íslenskur rithöfundur og ljóðskáld. Gerður hefur á ferli sínum sem blaðamaður og seinna rithöfundur fjallað um m.a. kynferðislegt ofbeldi á Íslandi.

Gerður lauk B.A.-prófi í frönsku og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 1992 og stundaði einnig nám í hagnýtri fjölmiðlun 1992-1993. Hún var ritstjóri Mannlífs 1998 til 2004 en hefur síðan haft ritstörf að aðalatvinnu.

Gerður Kristný hefur sent frá sér ljóðabækur, skáldsögur, smásögur, barnabækur, viðtalsbók og ferðasögu og hafa bækur hennar hlotið ýmsar viðurkenningar, þar á meðal Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness fyrir skáldsöguna Bátur með segli og allt, Bókaverðlaun barnanna 2003 fyrir söguna Marta smarta, Blaðamannaverðlaun Íslands 2005 fyrir bókina Myndin af pabba - Saga Thelmu, vestnorrænu barna- og unglingabókaverðlaunin fyrir barnabókina Garðurinn og Íslensku bókmenntaverðlaunin 2010 fyrir ljóðabókina Blóðhófnir. Sú síðastnefnda var einnig tilnefnd af Íslands hálfu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2011 og hefur verið gefin út í Danmörku, Svíþjóð, Noregi, Finnlandi og á Englandi. Árið 2010 fékk Gerður Kristný Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar sem og Ljóðstaf Jóns úr Vör. Ljóðabálkur Gerðar, Sálumessa kom út árið 2018 og var tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Í febrúar 2011 var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu barnaleikritið Ballið á Bessastöðum, sem byggt er á bókum Gerðar Kristnýjar um prinsessuna og forsetann á Bessastöðum.

Gerði Kristnýju var boðið fyrir Íslands hönd á rithöfundaþingið í Iowa City haustið 2014 og dvaldi hún þar við ritstörf í 10 vikur. Einnig hefur hún sinnt störfum sínum í Bergmangårdarna á Fårö, Baltic Centre for Writers and Translators í Visby á Gotlandi og í Hawthornden á Skotlandi. Hún hefur sótt ljóða- og bókmenntahátíðir víða um heim, m.a. á Indlandi, Finnlandi, Bretlandi, í Nikaragva, Kólumbíu, Kína, Indónesíu og Bangladess.


Helstu verk[breyta | breyta frumkóða]

 • Ísfrétt, 1994.
 • Regnbogi í póstinum, 1996.
 • Eitruð epli, 1998.
 • Launkofi, 2000.
 • Ég veit þú kemur: Þjóðhátíð í Vestmannaeyjum 2002, 2002.
 • Marta smarta, 2002.
 • Bátur með segli og allt, 2004.
 • Jóladýrin, 2004.
 • Myndin af pabba - Saga Thelmu, 2005.
 • Land hinna týndu sokka, 2006.
 • Ballið á Bessastöðum, 2007.
 • Höggstaður, 2007.
 • Garðurinn, 2008.
 • Prinsessan á Bessastöðum, 2009.
 • Blóðhófnir, 2010.
 • Forsetinn, prinsessan og höllin sem svaf, 2011.
 • Strandir, 2012.
 • Ljóðasafn, 2014.
 • Drápa, 2014.
 • Smartís, 2017.
 • Sálumessa, 2018.
 • Heimskaut, 2019.

Heimildir[breyta | breyta frumkóða]

 • „Umfjöllun á Bókmenntavefnum. Skoðað 13. febrúar 2011“.
 • „Umfjöllun á vef Forlagsins. Skoðað 13. febrúar 2011“.
 • Maður verður að vera sæmilegur til samviskunnar, viðtal 20. október 2018
  Þessi bókmenntagrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.