Fara í innihald

Árni Johnsen

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Árni Johnsen (ÁJ)
Fæðingardagur: 1. mars 1944(1944-03-01)
Fæðingarstaður: Vestmannaeyjar
Dánardagur: 6. júní 2023 (79 ára)
9. þingmaður Suðurkjördæmis
Flokkur: Merki Sjálfstæðisflokksins Sjálfstæðis­flokkurinn
Nefndir: Félags- og tryggingamálanefnd, samgöngunefnd og Íslandsdeild Vestnorræna ráðsins
Þingsetutímabil
1983-1987 í Suðurl. fyrir Sjálfst.
1991-2001 í Suðurl. fyrir Sjálfst.
2007-2009 í Suður fyrir Sjálfst.
2009-2013 í Suður fyrir Sjálfst.
= stjórnarsinni
Embætti
1999-2001 Formaður samgöngunefndar
1996-2001 Formaður Íslandsdeildar Vestnorræna ráðsins
Tenglar
Æviágrip á vef Alþingis

Árni Johnsen (fæddur í Vestmannaeyjum 1. mars 1944 - dáinn 6. júní 2023) var blaðamaður, rithöfundur og fyrrum alþingismaður Sjálfstæðisflokksins. Árni var þjóðþekktur fyrir að leiða brekkusöng um Verslunarmannahelgar í Vestmannaeyjum í þrjá áratugi. Sumarið 2001 var Árni viðriðinn hneykslismál þegar í ljós kom að hann hafði notað reikninga á vegum ríkisins til þess að greiða fyrir varning sem hann notaði persónulega og var hann í kjölfarið dæmdur í tveggja ára fangelsi af Hæstarétti.[1]

Sumarið 2006 hlaut Árni Johnsen uppreist æru og var þannig gert kleift að bjóða sig fram í Alþingiskosningunum 2007. Náði hann aftur inn á þing, þó hann félli niður sæti á framboðslistanum vegna fjölda útstrikana. Sat hann á þingi til ársins 2013.

Fjölskylda, menntun og störf

[breyta | breyta frumkóða]

Foreldrar Árna voru þau Ingibjörg Á. Johnsen og Poul C. Kanélas, bandarískur hermaður af grískum ættum. Árni kvæntist árið 1966 Margréti Oddsdóttur, kennara, en þau skildu síðar. Þau eiga saman dæturnar Helgu Brá og Þórunni Dögg. Árni kvæntist árið 1970 Halldóru Fillippusdóttur, flugfreyju, og eiga þau saman soninn Breka.

Árni lauk kennaraprófi frá Kennaraháskóla Íslands árið 1966 og starfaði sem kennari í Vestmannaeyjum frá 1964-65 og í Reykjavík 1966-67. Hann var starfsmaður Surtseyjarfélagsins sumrin og haustin 1966 og 1967. Hann hefur verið blaðamaður við Morgunblaðið frá 1967 og dagskrárgerðarmaður við Ríkisútvarpið og sjónvarpið frá stofnun þess.

Árni var alþingismaður suðurlandskjördæmis árin 1983 til 1987 og árin 1991 til 2001 fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins. Hann var varaþingmaður hluta úr árum 1988 til 1991 og sat í fjárlaganefnd 1991 til 2001, samgöngunefnd 1991 til 2001 og menntamálanefnd frá 1991 til 2001. Meðfram þingstörfum hefur Árni gegnt ýmsum öðrum störfum, aðallega nefndastörfum, t.d. sem formaður nefndar um lagfæringar á Þjóðleikhúsinu og endurbyggingu Þjóðhildarkirkju í Brattahlíð á Grænlandi.

Árið 1995 kom upp hneykslismál vegna Árna. Fluttu fjölmiðlar fréttir af því að Árni, sem þá var orðinn þingmaður Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi, hefði hlotið hálfrar milljóna króna styrk frá sjóði á vegum Húsnæðismálastjórnar til að reisa sér bjálkahús í Vestmannaeyjum. Var gagnrýnt að styrkveitingin væri einsdæmi og vísindalegt gildi verkefnisins væri ekkert.[2]

Upp komst um misnotkun Árna á opinberu fé sumarið 2001. Fyrst var fjallað um þessi málefni í DV laugardaginn 13. júlí. [3] Þar kom fram að Árni hefði pantað vörur hjá BYKO á nafni Þjóðleikhússins fyrir á aðra milljón króna en Árni hafði verið nefndarmaður í byggingarnefnd Þjóðleikhússins frá því að hún var stofnuð árið 1989. Árni var varaformaður nefndarinnar fyrsta starfsár hennar en svo formaður frá 1990. Hann hafði áður gegnt formennsku í tveimur nefndum sem komu að undibúningi viðhaldsvinnu við Þjóðleikhúsið. Í viðtali við Björn Bjarnason, þáverandi menntamálaráðherra, eftir að upp komst um Árna, kom fram að meginverkefnum nefndarinnar hefði verið lokið fyrir rúmum tveimur árum síðan.[4]

Inntur eftir útskýringu á þessu kvað Árni að um mistök væri að ræða og að verið væri að reyna að gera „tortryggilegt að ég breytti nafninu á pöntuninni en annað var ekki hægt, því ég var að drífa þessa pöntun í flutning út í Vestmannaeyjar“.[5] Þá kom fram að þessi mistök hefðu verið leiðrétt og gjaldfærð á reikning í eigu Árna. Engu að síður varð þetta til þess að Gísli S. Einarsson, alþingismaður Samfylkingarinnar, fór fram á opinbera rannsókn á starfi Árna þar sem hann sæti bæði í fjárlaganefnd Alþingis og bygginganefnd Þjóðleikhússins.

Hluti af þessari pöntun hjá BYKO voru þakrennur sem voru pantaðar hjá erlendum birgi í gegnum fyrirtækið Vírnet hf. Sú pöntun var ekki afpöntuð fyrr en 16. júlí og fullyrti Árni að hann hefði hvergi komið nærri því.[6]

Óðalssteinarnir

[breyta | breyta frumkóða]

Í kjölfarið beindist athygli manna að viðskiptum sem Árni hafði átt við BM-Vallá í maí sama ár. Þá kom á daginn, þann 15. júlí, að Árni hafði keypt svokallaða óðalssteina af BM-Vallá fyrir hönd byggingarnefndar Þjóðleikhússins, sem enginn vissi hvar væru niðurkomnir og hann sagði vera í geymslu.

Að morgni 16. júlí bárust fréttir af því að Árni hefði sagt af sér embætti sem formaður byggingarnefndar Þjóðleikhússins og viðurkenndi að hafa logið um það hvar hleðslusteinarnir væru. Þeim væri nú búið að hlaða við heimili hans í Vestmannaeyjum. Árni undirstrikaði að um mistök hefði verið að ræða sem hann hafi ætlað að leiðrétta en ekki enn gert. Hann þvertók fyrir það að hafa misnotað almannafé af ásettu ráði.[7] Í yfirlýsingu frá BM-Vallá kom fram að Árni hefði sjálfur sótt umrædda steina að fjárhæð 160.978 kr. m/vsk og jafnframt að hann hafi fengið endurgreitt skilagjald á þeim sekkjum sem steinarnir voru geymdir í að upphæð 12 þúsund kr.[8][9]

Kristján: En er [þér] áfram sætt í byggingarnefnd leikhússins?
Árni: Nei, ég held að ekki bara út af þessu, heldur út af þessu fjaðrafoki öllu, þá held ég að sé eiginlega kominn tími á mig í byggingarnefnd Þjóðleikhússins.

Kristján: En fjaðrafokið er það ekki fyrst og fremst vegna þess að þú hefur kosið að segja fjölmiðlum ósatt?
Árni: Ég sagði ekki beint ósatt, ég sagði ekki allan sannleikann, en nú hef ég gert það.

Kristján: En þú sagðir að steinarnir væru á brettum út í bæ
Árni: Já, ég sagði það vegna þess að þegar maður gengur að lager hjá fyrirtæki sem selur þessa steina þá eru þeir geymdir þannig.

Kristján: En þeir voru í garðinum heima hjá þér!
Árni: Já

Kristján: Ekki á bretti út í bæ!
Árni: Nei

Kristján: En þú sagðir þjóðinni það í gær
Árni: Já, það er ósatt og það er ekki gott.

Kristján: Er þér þegar það er upplýst að þú segir þjóðinni ósatt, er þér sætt áfram sem þingmaður fyrir þjóðina?
Árni: Já, já ég held að það sé ekki þess eðlis þetta mál. Þegar standa öll járn á manni, þá reynir maður ósjálfrátt að víkja sér undan, og þetta er nú ekki alvarlegt.

Kristján: Þér finnst þetta ekki alvarlegt?
Árni: Nei, ekki stóralvarlegt, en ekki til fyrirmyndar
 
— Úr viðtali Kristjáns Guy Burgess við Árna Johnsen alþingismann, í hádegisfréttum RÚV 16. júlí 2001[10]

Árni gaf sömuleiðis ótvírætt til kynna að um einangrað dæmi væri að ræða og honum fyndist ekki ástæða til þess að láta af þingmennsku sökum þessa. Í öðru viðtali sagðist hann hafa tekið steinana „til geymslu heima hjá mér. Þá stóðst ég ekki mátið og fór að hlaða úr þeim sem stóð alls ekki til“.[11] En þá kom líka fram að forstjóri BYKO rengdi útgáfu Árna á viðskiptum hans við fyrirtækið. Það voru viðskipti upp á um 400 þúsund sem einnig höfðu átt sér stað í maí.

Tengsl við Ístak

[breyta | breyta frumkóða]

Á forsíðu Fréttablaðsins þann 16. júlí 2001 mátti lesa viðtal við undirverktaka Ístaks, eins stærsta byggingarverktakafyrirtækis landsins, sem sagðist hafa unnið verk við einbýlishús í eigu Árna í Breiðholtinu en fengið þau fyrirmæli frá yfirmanni hjá Ístaki að hann ætti að skrá verkið á annað verknúmer í ljósi þess að Árni „væri fyrir löngu búinn að greiða þetta með gullmolum sem hann hefði rétt Ístaki.“ Árni neitaði þessum sökum.[12] Af þeim 76,2 milljónum króna fjárútlátum byggingarnefndarinnar á árunum 1999-2001 námu greiðslur til Ístaks hf. 43 milljónum eða 56% af heildarfjárhæðinni.[13]

Daginn eftir, eða þann 17. júlí hófu fjölmiðlar umfjöllun um þéttidúk sem Árni keypti fyrr í sama mánuði, að andvirði 173 þúsundum kr., í Garðheimum. Árni sagði dúkinn hafa verið keyptan til framkvæmda við Þjóðleikhúsið sem hefðu tafist en að dúkinn mætti finna í Þjóðleikhúsinu eða í geymslu í húsi úti í bæ.[6] Rafn Gestsson, húsvörður Þjóðleikhússins, staðfesti þetta einnig við Morgunblaðið. Sú frétt birtist kl: 05:55 aðfaranótt miðvikudagsins 18. júlí.[14]

Að morgni 18. júlí sagði Stefán Baldursson Þjóðleikhússtjóri þetta vera rangt, hann hefði engar upplýsingar um þennan dúk. En kl: 14:11 var staðfest að dúkinn væri að finna í geymslu á vegum Þjóðleikhússkjallarans uppi í Gufunesi.[15] Þá hafði Árni bent fjölmiðlum á geymslu í Gufunesi á vegum Þjóðleikhúskjallarans (fyrirtæki með rekstur aðskilinn Þjóðleikhúsinu), þar sem dúkurinn væri geymdur. Daníel Helgason, starfsmaður Þjóðleikhússkjallarans, tók á móti fréttamönnum við geymsluna þangað sem Árni hafði bent þeim á að fara. Þar sagði hann fréttamönnunum að dúkurinn hefði verið í þessari geymslu í 7-10 daga.

Daginn eftir birtist svo frétt af því að umræddur þéttidúkur hefði verið sendur til Vestmannaeyja vikuna á undan og svo aftur til Reykjavíkur þann 17. júlí. Þá hafi bíll frá prentsmiðju í Kópavogi sótt dúkinn og skutlast með hann og fleiri vörur til Gufuness, eftir fyrirmælum Árna, þar sem tekið var á móti þeim.[16][17] Því var ljóst, að sögn Morgunblaðsins, að bæði Rafn Gestsson, húsvörður við Þjóðleikhúsið sem og Daníel Helgason, starfsmaður Þjóðleikhússkjallarans hefðu hylmt yfir með Árna og logið að fjölmiðlum.[3]

Með þessu framferði mínu taldi ég mig á engan hátt vera að vernda Árna Johnsen, heldur húsvörð Þjóðleikhússins sem Árni hafði sagt mér að hefði tjáð Þjóðleikhússtjóra að dúkurinn hefði verið fluttur úr Þjóðleikhúsinu í geymsluna í Gufunesi. Þegar ég talaði hins vegar við húsvörðinn seinnipartinn í gær, sagði hann Árna segja ósatt um þetta.
 
— Úr opinberri yfirlýsingu Daníels Helgasonar „Vegna frétta af dúkamáli Árna Johnsens alþingismanns“[17]

Árni tilkynnti Davíð Oddssyni, þáverandi forsætisráðherra og formanni Sjálfstæðisflokksins, afsögn sína að morgni 19. júlí sem gaf út yfirlýsingu um að hann styddi þá ákvörðun Árna að segja af sér þingmennsku en hann væri „um margt ágætismaður þótt honum hafi orðið þetta á sem er óverjanlegt“.[18] Daginn eftir sendi Davíð bréf til Ríkisendurskoðunar þar sem hann sagði nauðsyn á að rannsaka öll opinber umsvif Árna.

Í kjölfar þessa voru önnur opinber störf Árna rannsökuð, þar á meðal starf hans á vegum Vest-Norræna þingmannaráðsins að sjá um framkvæmdir við Þjóðhildarkirkju á Grænlandi.[19]

Í kjölfar afsagnar Árna og umræðu um brot hans í fjölmiðlum hóf efnahagsbrotadeild ríkislögreglustjóra rannsókn á málinu. Henni lauk með útgáfu ákæru í 28 liðum 6. maí 2002. 27 ákæruliðir beindust að Árna og vörðuðu fjárdrátt, umboðssvik, rangar skýrslur til yfirvalda og mútuþægni í opinberu starfi, fjórir einstaklingar til viðbótar voru einnig ákærðir fyrir hlutdeild í umboðssvikum Árna og fyrir að bera mútur á opinberan embættismann.

Árni var sakfelldur 3. júlí 2002 í héraði vegna 18 ákæruatriða, þar af játaði hann sök í 12, en hann var sýknaður vegna 9 ákæruatriða og hlaut 15 mánaða fangelsisdóm. Meðákærðu voru allir sýknaðir af þeim sökum sem þeir voru bornir. Í dómi hæstaréttar frá 6. febrúar 2003 var Árni sakfelldur vegna 4 ákæruliða til viðbótar (eða 22 liða alls) en sýknaður af 5 ákæruliðum, refsing hans var þyngd í 2 ára fangelsi. Að auki var Gísli Hafliði Guðmundsson sakfelldur fyrir hlutdeild í umboðssvikum og fyrir að bera mútur á opinberan starfsmann, hann hlaut 3 mánaða fangelsisrefsingu.[20]

Árni afplánaði dóm sinn í fangelsinu á Kvíabryggju á Snæfellsnesi. Á meðan hann var þar keypti Rauði krossinn ný rúm fyrir fangana. Fram kom í fjölmiðlum að Árni hefði ýtt á eftir málinu[21]. Hann notaði einnig tímann til þess að búa til fjöldann allan af listaverkum úr fjörugrjóti og málmi, sem hann hélt sýningu á í Duushúsum í Keflavík, Reykjanesbæ, eftir að hann var látinn laus[22].

Uppreist æru og endurkoma á Alþingi

[breyta | breyta frumkóða]

Sumarið 2006 sótti Árni um uppreist æru til Björns Bjarnasonar, þáverandi dómsmálaráðherra. Í fjarveru forseta Íslands, sem lögum samkvæmt veitir uppreist æru, veittu handhafar forsetavalds, þ.e. Geir Haarde, forsætisráðherra, Sólveig Pétursdóttir, forseti Alþingis, og Gunnlaugur Claessen, forseti Hæstaréttar, Árna uppreist æru og gerði það honum kleift að bjóða sig fram í Alþingiskosningunum árið 2007.[23] Ummæli Árna í Kastljósþætti í nóvember 2006 þar sem hann sagði að hann hefði gert „tæknileg mistök“ og átti þá við afbrot sín, voru nokkuð umdeild og vöktu úlfúð innan Sjálfstæðisflokksins sem utan.[24] Árni skrifaði lesendagrein í Morgunblaðið, í henni sagði hann meðal annars:

Ég braut af mér og iðrast í dýpstu rótum hjarta míns. Það er fullkomlega eðlilegt og skylt að menn biðjist fyrirgefningar þegar þeir brjóta af sér, og iðrist af einlægni, það geri ég.
 
— Árni Johnsen, 25. nóvember 2006[25]

Í Alþingiskosningunum 2007 var Árni kosinn í 2. sætið en vegna útstrikana allt að 30% kjósenda sem kusu Sjálfstæðisflokkinn færðist hann niður um eitt sæti, í 3. sætið.[26]

Eftir endurkomu Árna á Alþingi vakti hann m.a. athygli þegar hann tók óvænt lagið í ræðustól á Alþingi í apríl 2009[27] sem og þegar hann var í ágúst 2010 sakaður um að hafa tekið sex stórar móbergshellur af barðinu ofan við Klaufina í Vestmannaeyjum, en hellurnar fundust við heimili Árna að bjálkahúsinu Höfðabóli.[28] Hellunum skilaði hann eftir að fjölmiðlar vöktu athygli á málinu.[29]

Skoðanir Árna á samkynhneigðum

[breyta | breyta frumkóða]

Árni Johnsen er einn fárra Alþingismanna sem barist hafa gegn rétti samkynhneigðra til að ganga í hjónaband, sem og rétti samkynhneigðra til ættleiðinga. Árið 1996 var hann þannig eini þingmaðurinn sem greiddi atkvæði gegn lögum um staðfesta samvist samkynhneigðra. [30] Við það tækifæri sagði hann um rétt samkynhneigðra til að staðfesta samvist sína:

Það er mikilvægt að virða mannréttindi, sagði hv. þm. Kristín Halldórsdóttir. Það er ég fullkomlega sammála henni um. En þegar virða á mannréttindin þarf líka að gæta þess að virða almenna sjónarmiðið. Það er kannski talið hart að segja það, en það er mín sannfæring að kynvilla sé skekkja. Enginn er fullkominn og allir eru með einhverja skekkju á bakinu í sínu lífi. En hvar eru mörkin og hvar á að virða skekkjuna svo að farið sé út í aðra sálma sem kannski snúa frekar að heimspekilegum efnum?
 
— Árni Johnsen, maí 1996[31]

Frægt er þegar Páll Óskar Hjálmtýsson, tónlistarmaður, ásakaði Árna Johnsen um að hafa á Þjóðhátíð komið að sér við að kyssa ástmann sinn. Á Árni að hafa stíað hinu samkynhneigða pari í sundur og hent ástmanni Páls Óskars frá sér þannig að hann lenti utan í vegg. Aðspurður sagði Árni það gert til að "vernda" börn og unglinga frá því að sjá hið "ósiðlega athæfi".[32]

Árið 1995 var Árni beðinn um að greina frá afstöðu sinni til hjónabands og ættleiðinga samkynhneigðra fyrir hönd Sjálfstæðisflokksins, sagði hann um rétt samkynhneigðra til hjónabands:

Ég er á móti því. Fyrst og fremst er það vegna þess að ég er íhaldssamur á ramma samfélagsins og ef maður skoðar þetta út frá almennum kristilegum grundvelli þá höfum við verið með fyrirkomulag sem hefur reynst ágætlega. Á síðari tímum hefur verið síaukin lausung og hreyfing í mörgum þáttum sem hefur skapað mikið rótleysi og ég held að þrátt fyrir að einstaklingar búi við vaxandi skilyrði varðandi eðli og upplag, sem menn ráða ekkert við, sé ég enga ástæðu til þess að færa út kvíarnar með því að réttlæta og viðurkenna hjónabönd af þessu tagi.
 
— Árni Johnsen, febrúar 1995[33]

Um það hvort samkynhneigðir hafi rétt til ættleiðinga sagði Árni:

Það finnst mér að þurfi að skoða á allt annan hátt. Mín afstaða byggist fyrst og fremst á því að mér finnst þetta óeðlilegt og það er jafnljóst að það er ekkert endilega heilagur sannleikur. Það ræður því enginn hvernig hann er skapaður en það á ekki að hvetja til þess að þessi hegðun sé viðurkennd. Rökin fyrir því eru að mínu mati þau að það virðist vera mjög rík tilhneiging hjá fólki, sem situr uppi með þessar aðstæður, að blanda kynlífi inn í nánast allt. Það er svo mikið í umræðunni hjá því sem fer beint inn á svið kynlífsins, miklu meira en hjá öðru fólki. Það finnst mér sýna veikleika sem ég vil ekki fyrir minn smekk stuðla að að verði vakinn upp. Ég held að því verði miklu meiri vandamál heldur en hitt.
 
— Árni Johnsen, febrúar 1995[31]

Árni greiddi ekki atkvæði um setningu einna hjúskaparlaga í júni 2010.[34] Með þeim var hjónaband samkynhneigðra leyft.

Uppákoma á þjóðhátíð 2005

[breyta | breyta frumkóða]

Undir lok þjóðhátíðar í Eyjum árið 2005 gerðist atvik á sviðinu við Herjólfsdal. Að brekkusöngnum loknum, er þjóðsöngurinn er sunginn og kveikt er á blysum, kastaðist í kekki milli Árna og Hreims Arnar Heimissonar söngvara. Árni lýsti atburðarrásinni á þann veg, að slökkviliðsbíll hefði keyrt upp að sviðinu og hann hefði talið hættu skapast ef fólk hefði hópast saman þar og því hefði hann í snarhasti gripið til hljóðnemans og stuggað við Hreimi í leiðinni. Árni gaf út fréttatilkynningu þar sem hann baðst afsökunar á þessu slysi. Hreimur sagðist ekki vera sammála þessari lýsingu Árna á atburðarásinni.[35] Stuttu síðar var Árni hátíðarhaldari tónleika í Kerinu en þar var Hreimi boðið að syngja. Árni sá sér þá leik á borði og færði honum boxhanska á sviðinu og uppskar hlátur áhorfenda.[36]

Bækur, tónlist önnur verk

[breyta | breyta frumkóða]
  • Kvistir í lífstrénu, 1982.
  • Fleiri kvistir, 1987.
  • Þá hló þingheimur: sögur og vísur um stjórnmálamenn (ásamt Sigmund Jóhannessyni), 1990.
  • Enn hlær þingheimur: gamanmál og skopmyndir af stjórnmálamönnum (ásamt Sigmund Jóhannessyni), 1992.
  • Lífsins melódí, 2004.
  • Kristinn á Berg: athafnamaður við Eyjar blár (ritstjóri og höfundur), 2006.
  • Milli lands og eyja (Hljómplata), 1971
  • Þú veizt hvað ég meina (Hljómplata), 1974
  • Ég skal vaka - Árni Johnsen syngur ljóð Halldórs Laxness (Hljómplata), 1975
  • Stórhöfðasvítan og svolítið meira, 1998.
  • Þið spyrjið, 1993.
  • Brekkusöngur, 1999.
  • Gaman að vera til, 2006.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Dómur Hæstaréttar í máli ákæruvaldsins gegn Árna Johnsen, 6. febrúar 2003“.
  2. „Árni fékk styrk til að reisa bjálkahús“. Helgarpósturinn. 22. maí 1995.
  3. 3,0 3,1 „Ósannindi um dúkinn leiddu að lokum til afsagnar Árna“. Morgunblaðið. 20. júlí 2001.
  4. „Meginverkefnum nefndarinnar lauk vorið 1999“. Morgunblaðið. 17. júlí 2001.
  5. „Mistök sem voru leiðrétt um leið“. Morgunblaðið. 14. júlí 2001.
  6. 6,0 6,1 „Finn fyrir ótrúlegum stuðningi fólks“. Morgunblaðið. 18. júlí 2001.
  7. „Árni segir af sér formennsku í byggingarnefnd“. Morgunblaðið. 16. júlí 2001.
  8. „BM-Vallá svarar fyrirspurn Þjóðleikhússtjóra“. Morgunblaðið. 16. júlí 2001.
  9. „Árni Johnsen viðurkennir að hafa sagt ósatt um hleðslusteina“. Morgunblaðið. 16. júlí 2001.
  10. „Þetta er nú ekki alvarlegt“. Fréttablaðið. 17. júlí 2001.
  11. „Biðst afsökunar á mistökunum“. Morgunblaðið. 17. júlí 2001.
  12. "Vann hjá Árna en reikningurinn fór annað". Fréttablaðið. 16. júlí 2001.
  13. „Framkvæmt fyrir 25 milljónir á árinu“. Morgunblaðið. 17. júlí 2001.
  14. „Dúkurinn í geymslu á vegum leikhússins“. Morgunblaðið. 18. júlí 2001.
  15. „Þéttidúkurinn er í geymslu Þjóðleikhúskjallarans“. Morgunblaðið. 18. júlí 2001.
  16. „Þéttidúkur sagður hafa verið í Eyjum“. Morgunblaðið. 19. júlí 2001.
  17. 17,0 17,1 „Segir Árna hafa beðið um að fá að setja dót í geymsluna“. Morgunblaðið. 19. júlí 2001.
  18. „Árni Johnsen segir af sér þingmennsku“. Morgunblaðið. 20. júlí 2001.
  19. „Bókhald vegna framkvæmda við Þjóðhildarkirkju skoðað“. Morgunblaðið. 20. júlí 2001.
  20. „Dómur hæstaréttar í máli nr. 393/2002“.
  21. „Frétt í Morgunblaðinu 5. mars 2003“.
  22. „Frétt í Morgunblaðinu 17. febrúar 2004“.
  23. „Árna Johnsen veitt uppreist æru“. Morgunblaðið. 30. ágúst 2006.
  24. „Sjálfstæðisþingmenn óttast framboð Árna“. Fréttablaðið. 24. nóvember 2006.
  25. „Iðrast af djúpri einlægni og biðst fyrirgefningar“. Morgunblaðið. 25. nóvember 2006.
  26. „Árni og Björn færast niður um eitt sæti“. Morgunblaðið. 20. maí 2007.
  27. „Árni Johnsen með létt og skemmtilegt málþóf og söng“.
  28. „Árni Johnsen tók hellur í leyfisleysi“.
  29. „Árni skilar móbergshellum“.
  30. „Althingi.is: 120. löggjafarþing. 159. fundur. Atkvæðagreiðsla 14923 320. mál. staðfest samvist Þskj. 564. með áorðn. breyt. á þskj. 1070“.
  31. 31,0 31,1 „Ræða Árna Johnsen í 1. umræðu um lög um staðfesta samvist“. Alþingi. 3. maí 1995.
  32. „Páll Óskar svarar fyrir sig“. Morgunblaðið. 23. desember 1998.
  33. „Einsog hraðsuðuketill — bullar bara og bullar“. Helgarpósturinn. 20. febrúar 1995.
  34. Althingi.is: Atkvæðagreiðsla Alþingi 138. löggjafarþing. 137. fundur. Atkvæðagreiðsla 42874 - 485. mál. hjúskaparlög, staðfest samvist o.fl. (ein hjúskaparlög)
  35. „Árni Johnsen biður Hreim afsökunar“. Morgunblaðið. 3. ágúst 2005.
  36. „Frábær stemmning og bongóblíða“. Morgunblaðið. 29. ágúst 2005.