Jónas Fr. Jónsson
Jónas Fr. Jónsson (f. 1966), lögmaður með réttindi til málflutnings fyrir héraðsdómstólum, Landsrétti og Hæstarétti og eigandi lögmannsstofunnar Rökstóla ehf. sem veitir alhliða lögmannsþjónustu en leggur sérstaka áherslu á löggjöf á sviði viðskipta, einkum fjármálaþjónustu, og Evrópurétt. Stjórnarformaður Alfreðs ehf. atvinnuleitarmiðils. Varamaður í félagsdómi. MBA frá Vlerick Leuven Gent Management School (2003) og L.LM-gráða í lögum frá Cambridge University (1996). Meðhöfundur skýrslu[1] sem Samtök fjármálafyrirtækja gáfu út haustið 2016 um breytingar á regluverki fjármálamarkaða á Íslandi, í Evrópu og Bandaríkjunum í kjölfar fjármálakreppunnar árið 2008.
Árin 2013–2017 gegndi Jónas formennsku í stjórn Lánasjóðs íslenskra námsmanna, fimmtu stærstu lánastofnunar landsins með rúmlega 200 milljarða króna í heildarútlán. Árin 2010–2013 var Jónas stjórnarformaður Keldunnar sem þá var upplýsingavefur um fjármálaþjónustu. Jónas hefur verið fyrirlesari í Háskólanum í Reykjavík og kennt MBA-nemum viðskiptalögfræði (2005–2018) auk þess sem hann kenndi hluta námskeiðs í BA-námi um Ísland og Evrópusambandið (2004–2008).
Jónas var forstjóri Fjármálaeftirlitsins (FME) frá 18. júlí 2005 til 1. mars 2009. Sem slíkur vann hann að því að stækka og efla stofnunina á sama tíma og íslenskt fjármálakerfi óx á leifturhraða (það þrefaldaðist á tímabilinu 2003–2005), en það fól m.a. í sér skipulagsbreytingar, auknar fjárveitingar í áföngum og fjárfestingu í hæfni starfsfólks auk þess sem áhersla var lögð á uppfærslu upplýsingatækni. Fjöldi starfsfólks hjá FME næstum tvöfaldaðist á árunum 2005–2008 og fjárveitingar þreföldust, sbr. umfjöllun um starfsemina í FSAP-úttekt Alþjóðagjaldeyrissjóðsins um Ísland árið 2008, þ.e. málsgreinar 48–53.
Í október 2008 leiddi alþjóðlega fjármálakreppan til falls viðskiptabankanna þriggja. Með neyðarlögum fól Alþingi eftirlitsstofnuninni að koma reglu á innlent fjármálakerfi. Verkefnið fólst í rauninni í áfallastjórnun, þ.e. að taka stjórnina í föllnu bönkunum, halda þeim í rekstri og ákveða um framhaldið. Bönkunum var skipt í nýja banka (innlendan rekstur) og gamla banka (erlendan rekstur) en þeir fóru í slitameðferð. Enn fremur voru hafnar rannsóknir á lögbrotum í föllnu bönkunum sem sumar leiddu til fangelsisdóma yfir fyrrverandi bankamönnum.
Í stjórnarkreppunni í kjölfarið á bankahruninu sagði Björgvin G. Sigurðsson viðskiptaráðherra, sem einnig var ráðherra bankamála, af sér og skömmu síðar ríkisstjórnin. Jónas sagði starfi sínu lausu Geymt 9 apríl 2022 í Wayback Machine og samdi um starfslok í lok febrúar 2009.
Jónas var framkvæmdastjóri Innra markaðssviðs Eftirlitsstofnunar EFTA (ESA) 2000–2005 og veitti þannig forstöðu stærsta sviði alþjóðastofnunar sem fylgist með að EFTA-ríkin, Noregur, Ísland og Liechtenstein, uppfylli skuldbindingar sínar samkvæmt EES-samningnum milli þessara ríkja og Evrópusambandsins. Skuldbindingarnar varða innleiðingu og framkvæmd evrópskrar löggjafar um frjálst flæði vöru, fólks, þjónustu og fjármagns og tengdra málaflokka eins og umhverfisréttar og neytendaverndar.
Áður en Jónas hóf störf hjá Eftirlitsstofnun EFTA var hann aðstoðarframkvæmdastjóri og lögfræðingur hjá Verzlunarráði Íslands og sá um rekstur skrifstofunnar og fyrirsvar gagnvart félagsmönnum og utanaðkomandi aðilum. Auk þess veitti hann ráðgjöf um löggjöf á sviði viðskiptamála.
Foreldrar Jónasar eru Jón Magnússon, fv. Alþingismaður, og Halldóra Rafnar (f. 31. maí 1947), kennari og blaðamaður.
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Eigum að reyna að halda þjóðfélagskerfinu óbreyttu; viðtal við Jónas í Fréttablaðinu 15. okt, 2008
- Stormurinn, reynslusaga ráðherra eftir Björgvin Sigurðsson, fv. viðskiptaráðherra, 2010 (2018) Geymt 9 apríl 2022 í Wayback Machine
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ skýrslu Geymt 25 september 2022 í Wayback Machine