Óslóartréð

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Óslóartréð vísar til jólatrés sem Norðmenn hafa fært Íslendingum að gjöf á hverju ári síðan 1951. Oslóartréð stendur á Austurvelli, og hefur tendrun þess mikilvægan sess í jólaundirbúningi borgarbúa. Hefð er fyrir því að fjölskyldur komi saman á Austurvelli á Aðventuhátíðinni þar sem tekið er formlega við trénu frá sendiherra Noregs. Grenitréð hefur í gegnum tíðina verið bæði höggvið í Noregi (rauðgreni) en á síðari árum hefur verið notast við sitkagreni í Heiðmörk fyrir utan Reykjavík.[1]

Óslóartréið 2009[breyta | breyta frumkóða]

Óslóartréið árið 2009 var höggvið í Maridalen í Noregi. Grenitréð var rúmlega 12 metra hátt og glæsilegt í alla staði. Margit Tveiten, sendiherra Noregs afhenti tréð fyrir hönd Oslóarborgar við hátíðlega athöfn á Austurvelli sunnudaginn 30. nóvember. Hanna Birna Kristjánsdóttir, þáverandi borgarstjóri tók við trénu fyrir hönd Reykjavíkurborgar. [2]

Kveikt í Oslóartrénu[breyta | breyta frumkóða]

Þann 20. janúar 2009 var kveikt í Oslóartrénu. Bruni trésins er af mörgum talinn einn minnisstæðasti atburður mótmælanna þá um veturinn, Búsáhaldabyltingarinnar svokölluðu.

Fyrr um kvöldið höfðu mótmælendur reynt að kveikja í trénu þar sem það stóð en eldurinn hafði slokknað að sjálfum sér.[3] Það var ekki fyrr en laust upp úr miðnætti sem nokkrir mótmælendur tóku að gera aðra atlögu að trénu með því að klippa á víra sem hélt því uppi. Það gekk ekki alveg sem skyldi í fyrstu en eftir dágóða stund náðist að fella tréð með þeim afleiðingum að það féll á jörðina. Mótmælendur drógu tréð og fóru með það fyrir framan tengibyggingu Alþingishússins á Austurvelli.[4] Gerðar voru nokkrar tilraunir til þess að kveikja í trénu en það reyndist erfitt að fá það til að loga. Það hafðist þó að lokum og stóð í ljósum loga fram eftir morgni.[3]

Afleiðingar[breyta | breyta frumkóða]

Það voru engar pólitískar afleiðingar vegna verknaðarins. Reykjavíkurborg fékk aftur jólatré að ári liðnu.[5] Árið 2012 fór Jón Gnarr, þáverandi borgarstjóri Reykjavíkurborgar sjálfur til Noregs til þess að fella Óslóartréið. Það gerði hann til þess að bæta fyrir tréð sem var brennt á Austurvelli í Búsáhaldabyltingunni 2009.[6]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. http://reykjavik.is/thjonusta/adventuhatid-ljosin-tendrud-osloartrenu
  2. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2008/11/30/ljosin_kveikt_a_osloartrenu/    
  3. 3,0 3,1 http://www.visir.is/osloartred-fellt-og-brennt/article/2009276463267    
  4. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2009/01/21/osloartred_borid_a_balid/
  5. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2010/11/26/kveikt_a_osloartrenu_a_sunnudag/
  6. http://www.ruv.is/frett/ekkert-osloartre-a-austurvelli