Bjarni Ármannsson

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Bjarni Ármannsson (f. 23. mars 1968 á Akranesi) er íslenskur tölvunarfræðingur sem var bankastjóri Glitnis þar til í maí 2007 þegar Lárus Welding tók við af honum. Nafn hans hefur borið á góma eftir bankahrunið í lok árs 2008 enda var Glitnir fyrsti bankinn til að verða gjaldþrota. Í grein Sölva Tryggvasonar blaðamanns í DV kemur fram að miklar breytingar urðu í áherslum Glitnis eftir að Bjarni hætti þar störfum.

Bjarni vakti athygli fyrir starfslokasamning að fjárhæð 370 milljónir króna sem hann endurgreiddi í kjölfar bankahrunsins á Íslandi. Ári síðar í desember 2009, endurgreiddi hann yfirverð hlutafjár sem hann stjórn bankans greiddi fyrir bréf hans í bankanum við starfslok. Alls námu endurgreiðslur Bjarna tengd starfslokum hans 1.020 milljónum króna. Árni Tómasson, formaður skilanefndar Glitnis, hefur staðfest að Bjarni hafi endurgreitt umræddar rúmar 600 milljónir eftir að nefndin hótaði Bjarna að leita réttar síns fyrir dómstólum til að fá samningi Bjarna við fyrrverandi stjórn Glitnis um sölu hans í bankanum á yfirverði rift.[1]

Bjarni var fyrstur þeirra sem komu að íslensku fjármálakerfi til að viðkenna mistök varðandi uppbyggingu kerfisins. Það gerði hann í grein í Fréttablaðinu 5. janúar 2008, þar sem í framhaldi af því fór hann í Kastljósviðtal þar sem hann baðst afsökunar og sagði frá endurgreiðslu starfslokasamnings. Bjarni kom einnig að fjárfestingu í Reykjavík Energy Invest í október 2007. Aðkomu hans þar lauk með þeim hætti að hann dró fjárfestingu sína til baka. Bjarni lauk B.Sc. í tölvunarfræði frá Háskóla Íslands árið 1990 og MBA-gráðu frá IMD í Sviss 1996.

Umfjöllun[breyta | breyta frumkóða]

Í Rannsóknarskýrslu um bankahrunið[breyta | breyta frumkóða]

Fjallað er um Bjarna Ármannsson á nokkrum stöðum í Rannsóknarskýrslu Alþingis um bankahrunið. Í 3. bindi kemur fram að meðalmánaðarlaun Bjarna hafi fimmfaldast á þremur árum, farið úr 9 milljónum kr. árið 2004 í rúmar 50 milljónir árið 2007.

Í Viðauka 1 - Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008 er m.a. vitnað í John Quitter, bankamann í London, sem sagði að skort hefði á raunverulega reynslu íslenskra bankastjóra af „on the ground“ bankastarfsemi áður en þeir hófu störf. Bjarni varð forstjóri Fjárfestingarbanka atvinnulífsins aðeins tveimur árum eftir að hann lauk MBA-námi í Sviss.

Launakjör lykilstjórnenda í bankakerfinu breyttust mikið þegar Fjárfestingarbanki atvinnulífsins hf. var settur á laggirnar undir stjórn Bjarna Ármannssonar og kaupréttir og hlutabréfaeign stjórnenda tók að vekja athygli. Lífeyrisréttindi Bjarna þóttu einnig ríflegri en þekktust. Þessi þróun átti eftir að hafa víðtæk áhrif á viðskiptalífið og samfélagið allt.

Bjarni Ármannsson, Sigurjón Þ. Árnason, fyrrverandi bankastjóri Landsbankans og Jónas Fr. Jónsson, fyrrverandi forstjóri Fjármálaeftirlitsins voru saman í háskóla og stúdentapólitík. Jónas fullyrti fyrir rannsóknarnefnd Alþingis að þessi kunningjatengsl hefðu ekki veikt hann í starfi.[2]

Í Glitnisskjölunum[breyta | breyta frumkóða]

Í október 2017 fjallaði Stundin um gögn innan úr Glitni banka þar sem m.a. var að finna tölvupóstsamskipti Bjarna Ármannssonar og Bjarna Benediktssonar frá árinu 2005. Bjarni Benediktsson, þá þingmaður, bað þar Bjarna Ármannsson, þá bankastjóra, um athugasemdir og hugmyndir við lagafrumvarp um Fjármálaeftirlitið.[3] Í umfjöllun Stundarinnar er greint frá öðrum tölvupósti milli þeirra nafna frá 2005 þar sem fjallað er um umdeilda sölu Íslandsbanka á 66% hlut í Sjóvá til Milestone. Þar er fullyrt að Barni Ármannsson hafi hagnast verulega á hlutabréfaviðskiptum í Íslandsbanka vegna sölunnar á Sjóvá, en hann keypti hlutabréf í bankanum fyrir rúma þrjá milljarða með lánum frá Milestone, áður en gengið var frá sölunni á Sjóvá til fyrirtækisins. Hann átti bréfin í einungis þrjá mánuði. Sérstakur saksóknari rannsakaði viðskiptin sem meint innherjaviðskipti en málið reyndist fyrnt. Í umfjöllun Stundarinnar er fullyrt að BjarnI Ármannsson og Bjarni Benediktsson séu vinir.[4]

REI-málið[breyta | breyta frumkóða]

Tilkynnt var á blaðamannafundi 11. september 2007 að Bjarni Ármannsson yrði stjórnarformaður Reykjavík Energy Invest (REI), félags í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, og að félagið ætlaði að safna um 50 milljörðum króna hlutafé til að fjármagna alþjóðleg jarðhitaverkefni.Bjarni keypti sjálfur hluti í félaginu fyrir hálfan milljarð króna. Miklar deilur hófust í kringum fyrirtækið eftir að ákveðið var að sameina REI og Geysi Green Energy (GGE) til að búa til eitt öflugt útrásarfélag í orkuiðnaði. Fram kemur í fréttaskýringu DV árið 2008 að Bjarni og Hannes Smárason, forstjóri FL-Group, hafi verið leiðandi við að sameina félögin.[5] Óánægja beindist m.a. að því að hagsmuna Orkuveitu Reykjavíkur hefði ekki verið nægilega gætt í þessu ferli. Fulltrúar minnihluta í borginni gagnrýndu málið harðlega og borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins gengu á fund Geirs H. Haarde, formanns Sjálfstæðisflokksins, og greindu honum frá óánægju sinni með vinnubrögð borgarstjóra í málinu. Vilhjálmur Þ. Vilhjálmsson, þáverandi borgarstjóri, sagði þá í viðtali að hann hefði ekki fengið fullnægjandi upplýsingar um fyrirhugaðan samruna. Í kjölfarið slitnaði upp úr meirihlutasamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í borginni og sameining REI og GGE fór endanlega út um þúfur. Í kaupsamningi Bjarna Ármannssonar var ákvæði um forsendubrest og hann gat því selt Orkuveitu Reykjavíkur aftur hlut sinn í REI á upprunalegu kaupverði.

Dómur Hæstaréttar og Mannréttindadómstólsins[breyta | breyta frumkóða]

Hæstiréttur dæmdi Bjarna árið 2014 í átta mánaða skil­orðsbundið fang­elsi fyr­ir meiri hátt­ar brot gegn skatta­lög­um.[6] Árið 2019 komst Mannréttindadómstóll Evrópu að þeirri niðurstöðu að íslenska ríkið hefði brotið á mannréttindum Bjarna með því að refsa honum tvisvar fyrir sama brotið, annars vegar með endurákvöröðun gjalda ríkisskattstjóra árið 2012 og hins vegar með fyrrgreindum dómi Hæstaréttar.[7]

Tenglar[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. „Skilanefndin hótaði Bjarna Ármanns“. 11. desember 2009.
  2. Rannsóknarnefnd Alþingis um aðdraganda og orsakir falls íslensku bankanna 2008. (Apríl 2010). „Viðauki 1, Siðferði og starfshættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008“. Alþingi.
  3. Ingi Freyr Vilhjálmsson og Jóhannes Kr. Kristjánsson (6. október 2017). „Seldi í Sjóði 9 sama dag og neyðarlögin voru sett“. Stundin.
  4. Ingi Freyr Vilhjálmsson (21. október 2017). „Bjarni um viðskipti með Sjóvá sem fóru til saksóknara: „Mér líst mjög vel á þetta mál". Stundin.
  5. „Auðmaðurinn sem slapp“. DV. 31. október 2008.
  6. „Mál nr. 465/2013“.
  7. „CASE OF BJARNI ÁRMANNSSON v. ICELAND“. The European Court of Human Rights. 16. apríl 2019.
  Þetta æviágrip sem tengist Íslandi er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.