Mótmælasamtökin Nýir tímar

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu

Nýir tímar voru samtök mótmælenda sem störfuðu um skamma hríð haustið 2008 undir forystu Kolfinnu Baldvinsdóttur, dóttur Bryndísar Schram og Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi utanríkisráðherra. Samtökin héldu sinn fyrsta mótmælafund 25. október 2008 við Ráðherrabústaðinn við Tjarnargötu. Þau hófust einni klukkustund eftir mótmælafund Radda fólksins, undir forystu Harðar Torfasonar, sem þá var að halda sinn þriðja skipulagða mótmælafund á Austurvelli í röð.

Vikuna á undan undirbjó Kolfinna mótmælin ásamt Snorra Ásmundssyni, myndlistarmanni, og fleirum.[1] Var það ekki síst vegna óanægju með þau mótmæli sem Hörður Torfason hafði staðið að vikurnar á undan. Opnuð var vefsíðan www.nyjirtimar.com, sem þó hefur verið lokað fyrir margt löngu. Slagorð samtakanna var: "VÍK BURT RÍKISSTJÓRN" og kynntu þau sig sem þverpólitísk samtök. Nýir tímar kröfðust þess að ríkisstjórn Íslands færi frá völdum, að þjóðstjórn tæki við og að boðað yrði til kosninga við fyrsta mögulega tækifæri. Krafan um afsögn Davíðs Oddssonar, seðlabankastjóra, og Jónasar Fr. Jónssonar, forstjóra Fjármálaeftirlitsins, var einnig hávær meðal samtakanna.[1]

Samtökin létu útbúa fyrir sig merki þar sem táknið var rauður skálaga kross á nær alsvörtum feldi með fjóra kreppta hnefa í miðju. Mörgum þótti myndmálið minna á hakakross nasista og aðrir sáu vísanir í bolsévisma og blóðuga byltingu. Var merkinu breytt og krossinn gerður hornréttur og í stað hins rauðsvarta bakgrunns komu fánalitirnir.[2]

Mótmælin 18. október 2008[breyta | breyta frumkóða]

Raddir fólksins voru með mótmæli þann 18. október klukkan 15:00 á Austurvelli þar sem á bilinu 500 til 2.000 manns komu saman[3]. Beindust mótmælin að Davíð Oddssyni Seðlabankastjóra og var þess krafist að hann segði af sér. Kolfinna Baldvinsdóttir er sögð ein af skipuleggjendum mótmælanna en samtökin Nýir tímar hvergi nefnd. Á fundinum kvaddi hún sér hljóðs og mælti „röggsamlega“ eins og greint er frá í bókinni Hrunið, Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar, eftir Guðna Th. Jóhannesson. Aðrir aðstandenur mótmælanna voru; Hörður Torfason, Birgir Þórarinsson, Dr. Gunni og Andri Sigurðsson.

Kolfinna tók fullan þátt í að kynna mótmælin og kom fram í nokkrum viðtölum vegna þeirra:

"Þetta verður tilraun til að sýna að við höfum rödd og okkur sé ekki skítsama og framtíð okkar er í húfi, þetta verða stór mótmæli,“ segir Kolfinna í viðtali við DV.[4]

„Við teljum bankamenn bera mikla ábyrgð, ríkisstjórnina bera meiri ábyrgð og Davíð Oddson bera mesta ábyrgð á núverandi efnahagsástandi, og viljum losna við hann,“ segir Kolfinna í viðtali við Fréttablaðið.[5]

Mótmælin 25. október 2008[breyta | breyta frumkóða]

Kolfinna birti færslu á facebook-síðunni Nýjan seðlabankastjóra þann 22. október og boðaði til kyndilgöngu frá Austurvelli að ráðherrabústaðnum þann 25. október 2008. Í færslunni[6] segir hún:

„Krafan er einföld, og þverpólitísk, RJÚFUM ÞÖGN RÁÐAMANNA. Mætum öll á Austurvöll - til að hittast, til að sýna fram á að við höfum rödd, að við erum til. Sýnum hvert öðru samhyggð, að við stöndum saman, og ef ekki einfaldlega til að finna að við erum ekki ein - og að við finnum til. Kyndla er hægt að kaupa í Rúmfatalagernum (en búast má við að kyndlar verði til sölu á Austurvelli, ekki komið á hreint).“

Fyrsti og eini mótmælafundur Nýrra tíma hófst svo við ráðherrabústaðinn í Tjarnargötu kl. 16:00, laugardaginn 25. október 2008. Þar tóku til máls; Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra, Ómar Ragnarsson, fréttamaður, og Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu. Á þessum fyrstu mótmælum Nýrra tíma var kveikt í fána Landsbanka Íslands[7] fyrir utan ráðherrabústaðinn.[1]

Kolfinna boðaði í viðtali við DV[8] í vikunni áður að samtímis yrði boðað til mótmæla á Akureyri, Ísafirði og á Seyðisfirði og var það gert. Sagðist Kolfinna vera að verða ær og að þögnin væri að fara með hana í gröfina. Hún lýsti mótmælunum sem þverpólitískum og þau væru ætluð til að rjúfa þögn ráðamanna, þar gætu allir tekið þátt, hvort sem þeir væru á hægri eða vinstri væng stjórnmálanna. Meðal þeirra sem Kolfinna nefndi við DV að stæðu að mótmælunum með henni voru faðir hennar Jón Baldvin Hannibalsson, Þorvaldur Gylfason, prófessor, Páll Óskar Hjálmtýsson, tónlistarmaður, Daníel Ágúst Haraldsson, tónlistarmaður, og Ómar Ragnarsson, fréttamaður.

Ekki sátt um mótmæli í tvennu lagi[breyta | breyta frumkóða]

Einhverjir voru til þess að gagnrýna að hafa tvenn mótmæli á sama degi. Þar á meðal bloggarinn Jenný Anna Baldursdóttir sem hvatti menn til að vita „hvort þeir væru að koma eða fara.“[9] Á bloggsíðu Björns Bjarnasonar[10], fyrrverandi menntamálaráðherra, eru dregin saman ýmis ummæli sem menn viðhöfðu eftir mótmælin og gagnrýni á þau. Þar er meðal annars vitnað í Helgu Völu Helgadóttur, lögfræðing, sem var óánægð með að til illinda hefði komið á milli mótmælenda og sagði á vefsíðu sinni:

„Þetta voru tvenn mótmæli.. sem bæðevei er algerlega ótrúlegt.. en ... mér fannst leitt að það þyrfti að koma til illinda milli hópa mótmælenda, og að sá hópur sem fannst á sér traðkað skyldi eyða hálfum fundi í að tala um að “hinir illu traðkarar” væru að fara illa með sig. Þetta hefði vel getað runnið saman, enda var það raunin fyrir fjölmarga sem mættu á báða staðina. En fyrir þá sem kannski voru að mæta í fyrsta sinn, virkaði þetta ekkert sérlega vel.“

Ásakanir ganga á víxl[breyta | breyta frumkóða]

Eftir mótmælin gengu í fjölmiðlum[11] ásakanir á víxl milli Kolfinnu og Harðar um ástæður þess að mótmælt væri í tvennu lagi. Sagði Hörður m.a. að Kolfinna vildi innvinkla stjórnmálamenn í mótmælin sem hann væri alfarið á móti. Kolfinna aftur á móti ásakaði Hörð um að vera sjálfan orðinn mjög pólitískan í sínum mótmælum og sagði að hann væri talandi dæmi um ástæður þess að Íslendingar gætu aldrei unnið saman.

Áður, eða eftir mótmælin 18. október, hafði einnig verið töluverður hiti í umræðunni. Þannig ritar Kolfinna Baldvinsdóttir á facebook-síðu Ákalls til þjóðarinnar 20 október 2008: „Við undirrituð hörmum orð Dr Gunna í þætti Egils síðastliðinn sunnudag 20. okt. Þar fór hann niðrandi orðum um þá sem að mótmælunum stóðu sem Egill tók undir með“.[12] Í framhaldinu gagnrýndi hún Dr. Gunna fyrir að hafa ekki látið sjá sig við skipulagningu mótmælanna 18. október og Egil fyrir að mótmæla ekki orðum Dr. Gunna í téðum sjónvarpsþætti.

Sama dag birtir Kolfinna aðra færslu á facebook-síðunni Ákall til þjóðarinnar[12] og gagnrýnir íslenska fjölmiðla fyrir að gefa ekki út réttar upplýsingar til lesenda sinna. Meðal þess sem hún gagnrýnir er að íslenskir fjölmiðar hafi gefið út að einungis 500 mótmælendur hafi mætt á Austurvöll laugardaginn 18. október - en í erlendum fjölmiðlum, þ.á.m. Reuters, hafi verið sagt frá því að um 2.000 manns hafi mætt til mótmælanna. Í DV þann 24. október 2008 er haft eftir lögreglunni að fjöldi mótmælenda hafi verið um 500.[3]

Aðilar ná sátt um að mótmæla saman[breyta | breyta frumkóða]

Að lokum fór svo að Nýir tímar náðu samkomulagi við Hörð Torfason og Raddir fólksins um að mótmæla sameiginlega. Kolfinna dró sig þó fljótlega út úr skipulagsstarfinu og Snorri Ásmundsson stuttu síðar og kom ekki aftur til þess að mótmæli á sköruðust líkt og 25. október 2008.[1] Nýir tímar héldu þó áfram störfum með öðrum hætti.

Skjaldborg slegin um Alþingi[breyta | breyta frumkóða]

Nýir tímar stóðu fyrir því að fólk myndaði keðju utan um Alþingi 12. nóvember 2008.[13] Um var að ræða friðsamlega aðgerð sem miðaði að því að sýna að valdið væri hjá fólkinu.[14] Viku síðar, 19. nóvember 2008, kom hópur aftur saman við Alþingi og myndaði keðju utan um húsið á táknrænan hátt. Þau mótmæli fóru að mestu leyti friðsamlega fram en einn mótmælanda kastaði þó eggi að ráðherrabíl Björns Bjarnasonar.[15]

Gagnrýni á Hörð Torfason[breyta | breyta frumkóða]

Þrátt fyrir að sátt hafi náðst milli hreyfinganna um að Raddir fólksins standi ein að mótmælum á Austurvelli er ljóst að töluverð óánægja hefur verið viðloðandi á störf Harðar Torfasonar og í DV þann 27. nóvember 2008[16] var rætt við nokkra aðila sem gagnrýna Hörð harðlega. Þar kallar Kolfinna eftir nýju fyrirkomulagi á mótmælunum og gagnrýnir Hörð Torfason fyrir að hann einn ákveði hverjir fái að tala á mótmælunum og aðrir tóku í sama streng í umfjöllun DV. Þar sagði Kolfinna m.a.:

„Ég fór af stað með mín eigin mótmæli þar sem við gengum að Ráðherrabústaðnum og þá kom upp fýla af hálfu Harðar Torfasonar vegna þess að hann taldi að framhjá honum hefði verið gengið.“[16]

Hún sagðist hafa lagt áherslu á að þetta væri samstarf ólíkra félagasamtaka en að hún skildi ekki í hvaða tilgangi Hörður Torfason væri að mótmæla og fyrir hvaða hreyfingu hann talaði. Sagði hún að skýrt þyrfti að vera og greinilegt hverju væri verið að mótmæla.[16] Þá sagðist Kolfinna hafa útskýrt fyrir Herði að hún hefði ekki talið sig þurfa leyfi frá honum til þess að standa fyrir mótmælum.

Að lokum fór svo að Nýir tímar lognuðust út af hurfu úr opinberri umræðu. Kolfinna Baldvinsdóttir var þó mjög áberandi í umræðunni áfram ein og sér. Hún reyndi m.a. fyrir sér í prófkjöri fyrir Vinstri hreyfinguna grænt framboð fyrir þingkosningarnar 2009 en náði þó ekki árangri í því.

Tilvísanir:[breyta | breyta frumkóða]

  1. 1,0 1,1 1,2 1,3 Guðni Th. Jóhannesson. Hrunið, Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar. JPV útgáfa. Reykjavík, 2009. Bls. 234-235.
  2. Guðni Th. Jóhannesson. Hrunið, Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar. JPV útgáfa. Reykjavík, 2009. Bls. 236.
  3. 3,0 3,1 http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=384212&pageId=6456803&lang=is&q=Kolfinna%2520Baldvinsd%25F3ttir Sótt af vefnum 21. mars 2017.
  4. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=384212&pageId=6456803&lang=is&q=Kolfinna%20Baldvinsd%F3ttir , sótt á vefinn 21.mars.2017
  5. http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=278459, af vef 21.mars
  6. https://www.facebook.com/groups/29837797723/?ref=nf_target&fref=nf Sótt á vefinn 21. mars 2017.
  7. http://www.visir.is/fanabrenna-i-motmaelum-vid-radherrabustadinn/article/2008636608244 Tekið af vefnum 21. mars 2017.
  8. http://www.dv.is/frettir/2008/10/24/motmaela-otholandi-thogn-radamanna/ Geymt 27 október 2008 í Wayback Machine Sótt á vefinn 21. mars 2017.
  9. http://jenfo.blog.is/blog/jenfo/entry/685903/ Sótt á vefinn 21. mars 2017.
  10. http://www.bjorn.is/pistlar/2008/10/25/nr/4676 Tekið af vefnum 21. mars 2017.
  11. http://icelandreview.com/news/2008/10/30/protesters-iceland-protest-against-each-other Sótt á vefinn 21. mars 2017.
  12. 12,0 12,1 https://www.facebook.com/groups/13562004986/?fref=ts Sótt á vefinn 21. mars 2017.
  13. http://www.mbl.is/frettir/innlent/2008/11/12/stadan_er_grafalvarleg/ Sótt á vefinn 21. mars 2017.
  14. Guðni Th. Jóhannesson. Hrunið, Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar. JPV útgáfa. Reykjavík, 2009. Bls. 250.
  15. Guðni Th. Jóhannesson. Hrunið, Ísland á barmi gjaldþrots og upplausnar. JPV útgáfa. Reykjavík, 2009. Bls. 272.
  16. 16,0 16,1 16,2 http://timarit.is/view_page_init.jsp?issId=384109&pageId=6449167&lang=is&q=Kolfinna%20Baldvinsd%F3ttir Sótt á vefinn 21. mars 2017.