Fara í innihald

Theodore Roosevelt

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Theodore Roosevelt
Theodore Roosevelt árið 1904.
Forseti Bandaríkjanna
Í embætti
14. september 1901 – 4. mars 1909
VaraforsetiEnginn (1901–1905)
Charles W. Fairbanks (1905–1909)
ForveriWilliam McKinley
EftirmaðurWilliam Howard Taft
Varaforseti Bandaríkjanna
Í embætti
4. mars 1901 – 14. september 1901
ForsetiWilliam McKinley
ForveriGarret Hobart
EftirmaðurCharles W. Fairbanks
Fylkisstjóri New York-fylkis
Í embætti
1. janúar 1899 – 31. desember 1900
VararíkisstjóriTimothy L. Woodruff
ForveriFrank S. Black
EftirmaðurBenjamin Barker Odell Jr.
Persónulegar upplýsingar
Fæddur27. október 1858
New York-borg, New York-fylki, Bandaríkjunum
Látinn6. janúar 1919 (60 ára) Oyster Bay, New York-fylki, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn (1880–1911; 1916–1919)
Framfaraflokkurinn (1912–1916)
MakiAlice Lee (g. 1880; d. 1884)
Edith Carow (g. 1886)
BörnAlice, Theodore III, Kermit, Ethel, Archibald og Quentin
HáskóliHarvard-háskóli
Undirskrift

Theodore Roosevelt (27. október 18586. janúar 1919) var 26. forseti Bandaríkjanna fyrir repúblikana frá 14. september 1901 til 4. mars 1909. Hann var sá yngsti til þess að taka við sem forseti í sögu Bandaríkjanna. Hann gegndi einnig embætti varaforseta Bandaríkjanna frá 4. mars 1901 til 14. september 1901. Hann vann til friðarverðlauna Nóbels árið 1906.

Theodore Roosevelt fæddist þann 27. október árið 1858 í New York. Foreldar hans voru Theodore Roosevelt eldri (1831-1931) og Martha Stewart Bullock (1835-1884). Theodore átti þrjú systkyni, þau Bamie (1861-1933), Corinne (1861-1933) og Anna (1855-1931). Í æsku þjáðist hann af astma og lélegri líkamlegri heilsu. Þrátt fyrir það var hann uppátækjasamur og fjörugur krakki. Hann þróaði fljótt með sér mikinn áhuga á dýraríkinu og hóf snemma að veiða dýr og stoppa þau upp, áhugamál sem átti eftir að fylgja honum lengi. Hann tók upp að æfa hnefaleika til að bæta upp fyrir lélegt líkamlegt ástand hans.[1]

Theadore var að mestu leyti kennt á heimili sínu af kennurum og foreldrum sínum. Árið 1876 hóf hann nám við Harvard-háskóla. Þar vegnaði honum vel og skaraði fram úr á ýmsum sviðum. Átti hann auðvelt með að leggja fyrir sér námið og stundaði hann einnig hnefaleika af kappi. Eftir útskrift árið 1880 gekk hann í Columbine Law School. Þótti Theodore laganámið heldur óathyglisvert og eyddi litlum tíma í að sinna því. Árið 1881 hætti hann laganáminu og bauð sig fram til innanfylkiskosninga sem fulltrúi Repúblikana og fékk meirihluta atkvæða.[2]

Árið 1880 giftist hann Alice Hathaway Lee (1861-1884) og eignuðust þau saman dótturina Alice Lee Roosevelt. Stuttu eftir fæðingu dóttur þeirra lést Ali Hathaway úr nýrnabilun. Sama dag lést móðir hans úr taugaveiki.[3] Þetta var mikið áfall fyrir hinn unga Theodore.

Upphaf stjórnmálaferilsins

[breyta | breyta frumkóða]
Roosevelt sem ofursti í Bandaríkjaher.

Frá 1882 til 1884 var Theodore meðlimur Repúblikana í neðri deild ríkisþings New York-fylkis og er sagður hafa skrifað fleiri lagafrumvörp en nokkur annar löggjafi gerði. Eftir landsþing Repúblikana árið 1884 dró hann sig í stutt hlé frá stjórnmálum og settist að á búgarði sínum í Dakota. Þar lifði hann lífi kúrekans og skrifaði nokkrar bækur. Einnig gegndi hann stöðu fógeta. Eftir að megnið af búpening hans hafði farist í miklum vetrarhörkum 1886-1887 sneri hann aftur til New York og byggði sér hús, Sagamore Hill, sem varð heimili hans allt til dauðadags. Hann sneri sér fljótt aftur að stjórnmálum og bauð sig fram í stöðu Repúblikana sem borgarstjóri New York borgar en náði ekki kjöri. Árið 1886 giftist hann í annað sinn, þá vinkonu sinni úr barnæsku, Edith Kermit Carow (1861-1948), og eignuðust þau saman fimm börn, þau Theodore Roosevelt III (1887-1944), Kermit Roosevelt (1889-1943), Ethel Carow Roosevelt (1891-1977), Archibald Bulloch Roosevelt (1894-1979) og Quentin Roosevelt (1897-1918)

Í forsetakosningunum árið 1888 starfaði Theodore fyrir kosningabaráttu Benjamins Harrison.[4] Harrison réð hann til starfa fyrir nefnd opinberra starfsmanna en þar barðist hann af fullum krafti gegn spillingu og fyrir því að ríkisstarfsmenn framfylgdu opinberum lögum. Hann starfaði einnig fyrir Harrison í kosningabaráttu hans til endurkjörs árið 1892 en þrátt fyrir ósigur réð nýr forseti lýðveldisins, Grover Cleveland, Theodore í sömu stöðu og hann hafði gegnt undir Harrison.

Árið 1895 varð hann kosinn forseti lögreglunefndar New York-borgar og gegndi hann þeirri stöðu í rúm tvö ár. Á þeim stutta tíma gerði hann miklar umbætur á lögreglu borgarinnar sem hafði lengi verið þekkt fyrir mikla spillingu og vangetu.

Árið 1897 var hann skipaður næstráðandi innan bandaríska sjóhersins, en vegna vangetu þáverandi hæstráðanda var hlaut Theodore flestar hans skyldur. Þann 15. febrúar 1898 sprakk herskipið USS Maine þar sem það lá í Havana-höfn á Kúbu, sem þá var í eigu Spánar. Það féll í hendur hans að undirbúa sjóherinn fyrir stríð og var hann óþreyjufullur að sjá getu bandaríska hersins í stríði. Þann 25. apríl sama ár lýstu bandarísk stjórnvöld yfir stríði gegn Spánverjum. Þann sama dag sagði Theodore sig úr stöðu sinni innan sjóhersins og í stað þess hóf hann að safna sjálfboðaliðum, aðalega kúrekum, til að berjast í stríðinu. Þessi sveit var kölluð „Reiðgarparnir“ (e. The Rough Riders)[5][2]

Forsetatíð

[breyta | breyta frumkóða]

Að stríðinu loknu hélt hann áfram að starfa í stjórnmálum og var hann kosinn fylkisstjóri New York-fylkis árið 1898 og í forsetakosningum tveimur árum seinna bauð hann sig fram sem varaforsetaefni William McKinley og sigruðu þeir. Theodore gengdi stöðu varaforseta í aðeins sex mánuði en McKinley lést af skotsárum og var Theodore þá svarinn í embætti. Hann gengdi embætti forseta í alls átta ár og barðist hart gegn spillingu. Í forsetatíð hans var ráðist í byggingu Panamaskurðarins og lýsti því yfir að Bandaríkin væru eina landið sem mættu hafa ganga á milli í málefnum Suður- og Mið-Ameríku. Hann inleiddi lög um réttar merkingar matvæla og að ákveðnum gæðastaðli skyldi viðhaldið í hráefnum þeirra. Með lögum kom hann einnig í veg fyrir að járnbrautarfyrirtæki rukkuðu farþega of hátt fargjald. Theodore sá um málamiðlanir á utanríkisdeilum margra ríkja, þar á meðal í stríði Rússa og Japana, en fyrir það hlaut hann friðarverðlaun Nóbels árið 1906.[6]

Þrátt fyrir miklar vinsældir ákvað Roosevelt að bjóða sig ekki fram til þriðja kjörtímabils árið 1908 og lýsti þess í stað yfir stuðningi sínum við stríðsmálaráðherra sinn, William Howard Taft, sem náði kjöri og tók við forsetaembætti árið eftir.

Roosevelt heldur ræðu í kosningabaráttunni 1912.

Að lokinni forsetatíð sinni árið 1909 hélt hann í árs langan leiðangur um Austur- og Mið-Afríku á vegum The Smithsonian Institute. Í þessari ferð safnaði hann ásamt föruneyti sínu þúsundum eintaka af dýrshömum og heilum dýrum, en alls er talið að þeir hafi skotið eða fangað um 11,400 dýr. Leiðangurinn sem átti að heita til vísindalegra rannsókna varð í raun að blöndu af pólitískum og félagslegum veiðitúr.

Þrátt fyrir að Roosevelt hefði sjálfur hvatt Taft til að bjóða sig fram til forseta var hann um margt óánægður með forsetatíð Taft, sem reyndist talsvert íhaldssamari en Roosevelt hafði verið sem forseti. Að endingu ákvað Roosevelt að kljúfa sig úr Repúblikanaflokknum og stofna eigin flokk, Framfaraflokkinn („Progressive Party“). Árið 1912 bauð hann sig fram í forsetakosningunum gegn Taft og Demókratanum Woodrow Wilson sem frambjóðandi Framfaraflokksins. Theodore ferðaðist um landið í kosningabáráttu sinni og það var í Wisconsin þar sem hann var skotinn rétt áður en hann átti að flytja ræðu. Kúlan hæfði hann í brjóstið, en 50 blaðsíðna ræða og gleraugnahulstur hægði svo á kúlunni að hún fór ekki í gegn, heldur sat föst í vöðva. Í stað þess að hætta við fundinn, flutti hann ræðuna og beið með alla læknisaðstoð. Vegna þeirrar hættu sem gæti skapast við að fjarlægja kúluna var ákveðið að láta hana vera og gekk hann með hana í sér allt til dauðadags.

Þrátt fyrir miklar persónuvinsældir Roosevelt tókst honum aðeins að kljúfa atkvæðahóp Repúblikana milli sín og Taft í kosningunum og greiddi því leið Woodrows Wilson á forsetastól.[2]

Árið 1913 hélt hann í leiðangur til Suður-Ameríku. Takmarkið með leiðangrinum var að finna upptök ánnar Rio De Duvida. Leiðangurinn var að mestu leiti óárangursríkur. Theodore varð mjög veikur í ferðinni, hann get ekki gengið og þurfti stanslausa athygli lækna og hjálp annarra leiðangursmanna. Hungur og sjúkdómar herjuðu á flesta leiðangursmenn.

Hann sneri til Bandaríkjanna árið 1914, þá verulega máttfara vegna leiðangursins og átti hann eftir að hafa gífurleg áhrif á heilsu hans. Hann studdi þáttöku Bandaríkjanna í fyrri heimsstyrjöldinni við hlið Bandamanna. Hann fordæmdi stefnu Wilson forseta um hlutleysi og hvatti hann til harðra aðgerða gegn Þjóðverjum.[7][8][9]

Þann 5. janúar árið 1919 lést Theodore Roosevelt úr blóðtappa þar sem hann svaf á heimili sínu Sagamore Hill. Síðustu orð hans voru: „Slökkvið ljósið!“.[10]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Urður bókafélag. bls. 236.
  2. 2,0 2,1 2,2 Jakob F. Ásgeirsson (30. maí 1982). „Teddi“. Morgunblaðið. Sótt 13. desember 2018.
  3. Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Urður bókafélag. bls. 239.
  4. Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Urður bókafélag. bls. 240.
  5. Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Urður bókafélag. bls. 241.
  6. Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Urður bókafélag. bls. 246.
  7. Theodore Roosevelt (14. janúar 1915). „Ameríka þarf að vera við öllu illu búin!“. Heimskringla. Sótt 13. desember 2018.
  8. Theodore Roosevelt (21. janúar 1915). „Ameríka þarf að vera við öllu illu búin! (framhald)“. Heimskringla. Sótt 13. desember 2018.
  9. Theodore Roosevelt (4. febrúar 1915). „Ameríka þarf að vera við öllu illu búin! (niðurlag)“. Heimskringla. Sótt 13. desember 2018.
  10. „Á deyjanda degi“. Samtíðin. 1937. Sótt 13. desember 2018.


Fyrirrennari:
William McKinley
Forseti Bandaríkjanna
(1901 – 1909)
Eftirmaður:
William Howard Taft
Fyrirrennari:
Garret Hobart
Varaforseti Bandaríkjanna
(1901 – 1901)
Eftirmaður:
Charles W. Fairbanks