Stríð Rússa og Japana

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Myndir úr stríði Rússa og Japana.

Stríð Rússa og Japana (Русско-японская война á rússnesku, 日露戦争 á japönsku) var stríð á árunum 1904–05 á milli rússneska keisaradæmisins og japanska keisaradæmisins vegna hugmynda beggja veldanna um landvinninga í Mansjúríu og Kóreu. Fremstu vígstöðvar í stríðinu voru Liaodongskaginn og Mukden í suðurhluta Mansjúríu, höfin í kring um Kóreu, Japan og Gulahaf.

Rússar sóttust eftir hlýrri höfn við Kyrrahafið til þess að geyma herflota sinn og til þess að kynda undir sjávarverslun. Höfn þeirra við Vladivostok var aðeins starfræk um sumarið vegna hafíss en höfnin Port Arthur, flotastöð í Liadongsýslu sem Rússar lánuðu Kína, var starfræk allt árið um kring. Frá lokum fyrra stríðs þeirra við Kínverja árið 1895 óttuðust Japanir að Rússar kynnu að skipta sér að áætlunum þeirra um að skapa áhrifasvæði í Kóreu og Mansjúríu. Rússar höfðu rekið útþenslustefnu í austurhluta Síberíu frá valdatíð Ívans grimma á 16. öld.[1] Þar sem þeir litu á Rússa sem keppinauta buðust Japanir til að viðurkenna rússnesk yfirráð í Mansjúríu í skiptum fyrir viðurkenningu á Kóreu sem hluta af japönsku áhrifasvæði. Rússar neituðu og kröfðust þess að Kórea norðan við 39. breiddargráðu yrði hlutlaust svæði milli japanskra og rússneskra áhrifasvæða. Japanska ríkisstjórnin leit á þetta sem rússneska ógn við útþenslustefnu þeirra inn í Asíu og ákvað að fara í stríð. Eftir að samningaviðræður mistókust árið 1904 réðst japanski flotinn óvænt á austurhluta rússneska flotans í Port Arthur.

Rússar töpuðu ítrekað gegn Japönum en Nikulás 2. Rússakeisari var sannfærður um að Rússar gætu unnið stríðið og ákvað að láta ekki undan. Fyrst beið hann eftir útkomum ákveðinna sjóorrusta og síðan framlengdi hann stríðið til að bjarga sæmd Rússaveldis með því að forðast „auðmýkjandi frið.“ Stríðinu lauk með friðarsáttmálum í Portsmouth sem Theodore Roosevelt Bandaríkjaforseti stóð fyrir. Fullnaðarsigur japanska hersins kom áhorfendum um allan heim í opna skjöldu. Valdajafnvægi var umbylt í Austur-Asíu og innganga Japana á alþjóðasviðið var endurmetin. Stríðið var fyrsti nútímastórsigur Asíuveldis á Evrópuveldi.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. John Steinburg, Was the Russo-Japanese Conflict World War Zero?. bls. 2.