Fara í innihald

Dan Quayle

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Dan Quayle
Varaforseti Bandaríkjanna
Í embætti
20. janúar 1989 – 20. janúar 1993
ForsetiGeorge H. W. Bush
ForveriGeorge H. W. Bush
EftirmaðurAl Gore
Öldungadeildarþingmaður fyrir Indiana
Í embætti
3. janúar 1981 – 3. janúar 1989
ForveriBirch Bayh
EftirmaðurDan Coats
Fulltrúadeildarþingmaður fyrir 4. kjördæmi Indiana
Í embætti
3. janúar 1977 – 3. janúar 1981
ForveriEdward Roush
EftirmaðurDan Coats
Persónulegar upplýsingar
Fæddur4. febrúar 1947 (1947-02-04) (77 ára)
Indianapolis, Indiana, Bandaríkjunum
ÞjóðerniBandarískur
StjórnmálaflokkurRepúblikanaflokkurinn
MakiMarilyn Tucker (g. 1972)
Börn3
HáskóliDePauw-háskóli (BA)
Indiana-háskóli (JD)
StarfStjórnmálamaður
Undirskrift

James Danforth Quayle (f. 4. febrúar 1947) er bandarískur lögfræðingur og stjórnmálamaður sem var varaforseti Bandaríkjanna frá 1989 til 1993, í forsetatíð George H. W. Bush. Hann hafði áður setið á fulltrúadeild Bandaríkjaþings frá 1977 til 1981 og á öldungadeild þingsins fyrir Indiana frá 1981 til 1989.

Sem varaforseti varð Quayle alræmdur fyrir fjölda mismæla og rangfærslna hans sem lituðu mjög ímynd hans meðal fjölmiðla og almennings. Hann var einnig þekktur fyrir íhaldssöm viðhorf í félagsmálum, meðal annars varðandi einstæðar mæður og málefni samkynhneigðra.

Dan Quayle er af auðugum ættum frá Indiana og var erfingi dagblaðaveldis sem afi hans, Eugene C. Pulliam, stofnaði.[1] Quayle lauk fyrrihlutanámi í háskóla árið 1969 og var þá viðbúið að hann yrði kallaður til herþjónustu í Víetnamstríðinu. Quayle skráði sig sem sjálfboðaliði í þjóðvarðlið Indiana, sem gerði honum að mestu kleift að lifa eðlilegu lífi án þess að eiga á mikilli hættu að vera sendur til að berjast í Víetnam.[2]

Quayle var kjörinn á fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir Repúblikanaflokkinn árið 1977 og komst á öldungadeild þingsins árið 1981. Á þingi var Quayle dyggur stuðningsmaður Ronalds Reagan Bandaríkjaforseta og talaði fyrir auknum framlögum til varnarmála og uppbyggingu og endurnýjun á kjarnorkuvopnum Bandaríkjanna, auk þess sem hann studdi geimvarnaáætlun Reagans. Quayle hafði efasemdir um viðræður Reagans við Sovétríkin og neitaði að greiða atkvæði með samningnum um meðaldrægar kjarnaeldflaugar þar til Reagan þrýsti á hann að gera það.[2]

Eftir að George H. W. Bush var valinn forsetaefni Repúblikana fyrir forsetakosningarnar 1988 valdi hann Quayle sem varaforsetaefni sitt. Þegar Bush tilkynnti valið á Quayle lagði hann áherslu á að Quayle væri fjölskyldumaður og kallaði hann „mann framtíðarinnar“. Jafnframt stóðu vonir til að Quayle myndi vinna framboði Bush kvenhylli þar sem hann þótti ungur og myndarlegur.[3]

Mótframbjóðendur Bush og Quayle úr Demókrataflokknum voru Michael Dukakis og Lloyd Bentsen. Í kosningabaráttunni gagnrýndu Demókratar valið á Quayle vegna reynsluleysis hans og ungs aldurs en Quayle benti á að hann væri á svipuðum aldri og hefði álíka mikla reynslu á þingi og John F. Kennedy þegar hann varð forseti.[4] Lloyd Bentsen þótti lítið til þessa samanburðar koma og lét fleyg orð falla þegar hann bar á góma í sjónvarpskappræðum varaforsetaframbjóðendanna 1988:

Öldungadeildarþingmaður, ég þekkti Jack Kennedy. Ég sat á þingi með Jack Kennedy. Jack Kennedy var vinur minn. [Stutt þögn.] Öldungadeildarþingmaður, þú ert enginn Jack Kennedy.
 

Þessi ummæli Bentsens um Quayle urðu mjög fræg, en þau höfðu þó engin áhrif á útkomu forsetakosninganna. Bush og Quayle unnu kosningarnar auðveldlega og tóku við embætti forseta og varaforseta þann 20. janúar 1989. Eftir að Quayle varð varaforseti varð hann frægur fyrir axarsköft, mismæli og óheppilegt orðaval sem vakti oft kátínu almennings. Eitt alræmdasta atvikið varð þegar hann átti að dæma stafsetningarkeppni í grunnskóla og „leiðrétti“ stafsetningu nemanda á orðinu potato (ís. kartafla) yfir í potatoe.[6]

Quayle vakti einnig athygli fyrir að láta þau orð falla að samkynhneigð væri fyrst og fremst lífstíll sem fólk veldi sér[7] og fyrir að gagnrýna vinsælu sjónvarpsþættina Murphy Brown. Aðalpersóna þáttanna var einstæð móðir sem átti barn utan hjónabands. Quayle þótti þetta slæmur siðferðisboðskapur og sagði þættina bera merki um að skemmtanaiðnaðurinn gæfi ekki rétta mynd af bandarísku þjóðlífi og gerði lítið úr mikilvægi kjarnafjölskyldunnar.[8] Handritshöfundar Murphy Brown svöruðu Quayle með því að nota úrklippur af ummælum hans í þætti (með titlinum „You Say Potatoe, I Say Potato“) þar sem aðalpersónan þurfti að takast á við sams konar gagnrýni og hann bar fram. Í lok þáttarins hrekktu aðalpersónurnar Quayle með því að fleygja niður bílhlassi af kartöflum á dyraþrepið hans.[9]

Quayle naut lítilla vinsælda sem varaforseti og árið 1991 höfðu aðeins 19 % Bandaríkjamanna gott álit á honum.[10] Bush og Quayle náðu ekki endurkjöri í forsetakosningunum 1992 og Quayle lét því af embætti varaforseta í janúar 1993.[11]

Quayle sóttist eftir útnefningu Repúblikanaflokksins fyrir forsetakosningarnar 2000 en dró framboð sitt til baka vegna lélegs gengis og studdi George W. Bush.[12][13]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
 1. „Dan Quayle: Umdeildur og grátt leikinn í fjölmiðlum“. Morgunblaðið. 10. nóvember 1988. bls. 30-31.
 2. 2,0 2,1 Óli Björn Kárason (28. ágúst 1988). „Hann fór hvorki til Kanada né brenndi fánann“. Morgunblaðið. bls. 6-7.
 3. Ingibjörg Árnadóttir (10. september 1988). „Maður kvenhyllinnar“. Alþýðublaðið. bls. 8.
 4. „Varaforsetaefni Bush á margt ólært!“. Tíminn. 11. október 1988. bls. 9.
 5. „Sjónvarpseinvígi varaforsetaefnanna: Quayle harðskeyttari en demókratar höfðu vænst“. mbl.is. 7. október 1988. Sótt 9. maí 2021.
 6. „Góð dómgreind fram í tímann...“. Vikan. 25. júlí 2000. bls. 26.
 7. Guðrún Þóra Gunnarsdóttir (3. nóvember 1992). „Samkynhneigð að kosningamáli Corvallis, Oregon“. mbl.is. Sótt 9. maí 2021.
 8. „Bush reynir að bera blak af Dan Quayle“. mbl.is. 22. nóvember 1992. Sótt 9. maí 2021.
 9. „That Time 'Murphy Brown' and Dan Quayle Topped the Front Page“. The New York Times.
 10. „Er Dan Quayle eins ómögulegur og bandarískur almenningur heldur?“. Tíminn. 23. maí 1991. bls. 8.
 11. Jón Þ. Þór (2016). Bandaríkjaforsetar. Hafnarfjörður: Urður bókafélag. bls. 402. ISBN 978-9935-9194-5-8.
 12. „Quayle Plans a Bid in 2000 For President“. The New York Times. Reuters. 22. janúar 1999. Afrit af uppruna á 16. september 2018. Sótt 12. maí 2021.
 13. „David Broder on PBS Newshour“. PBS. 27. maí 1999. Afrit af uppruna á 14. janúar 2012. Sótt 12. maí 2021.


Fyrirrennari:
George H. W. Bush
Varaforseti Bandaríkjanna
(20. janúar 198920. janúar 1993)
Eftirmaður:
Al Gore