Charles Curtis
Charles Curtis | |
---|---|
Varaforseti Bandaríkjanna | |
Í embætti 4. mars 1929 – 4. mars 1933 | |
Forseti | Herbert Hoover |
Forveri | Charles G. Dawes |
Eftirmaður | John Nance Garner |
Öldungadeildarþingmaður fyrir Kansas | |
Í embætti 4. mars 1915 – 3. mars 1929 | |
Forveri | Joseph L. Bristow |
Eftirmaður | Henry Justin Allen |
Í embætti 29. janúar 1907 – 3. mars 1913 | |
Forveri | Alfred W. Benson |
Eftirmaður | William Howard Thompson |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 25. janúar 1860 North Topeka, Kansas, Bandaríkjunum |
Látinn | 8. febrúar 1936 (76 ára) Washington, D.C., Bandaríkjunum |
Þjóðerni | Bandarískur |
Stjórnmálaflokkur | Repúblikanaflokkurinn |
Maki | Annie Baird (g. 1884; d. 1924) |
Börn | 3 |
Undirskrift |
Charles Curtis (25. janúar 1860 – 8. febrúar 1936) var bandarískur stjórnmálamaður úr Repúblikanaflokknum. Hann var varaforseti Bandaríkjanna frá 1929 til 1933 í stjórn Herberts Hoover forseta. Curtis var fyrsti, og enn þann dag í dag eini, varaforseti landsins af amerískum frumbyggjaættum.[1]
Æviágrip
[breyta | breyta frumkóða]Charles Curtis var sonur amerískrar frumbyggjakonu af þjóð Kava (Kaw) og hvíts manns af evrópskum ættum. Eftir dauða móður sinnar ólst Curtis upp á verndarsvæði Kava með móðurforeldrum sínum, sem höfðu varla efni á mat fyrir hann. Þann 1. ágúst 1868 réðst hundrað manna stríðshópur Sjeyenna á verndarsvæðið. Curtis, sem var þá átta ára, gekk tæpa 100 kílómetra ásamt manni af verndarsvæðinu til að leita hjálpar hjá fylkisstjóranum. Í seinni tíð sagðist Curtis gjarnan hafa farið gönguna einsamall. Átökunum lauk án alvarlegs mannskaða en föðurforeldrar Curtis kröfðust þess engu að síður að sonarsonur þeirra yrði fluttur í þeirra umsjá í borginni vegna öryggis hans. Curtis-fjölskyldan naut nokkurra valda og sá til þess að Charles, sem var kallaður Indian Charley, yrði boðinn velkominn í samfélag hvítra Bandaríkjamanna. Hann lærði ensku og gleymdi brátt móðurmálum sínum, kavamáli og frönsku. Curtis nam síðar lögfræði og hlaut lögmannsréttindi árið 1881. Eftir að hafa unnið sem lögmaður í Topeka hóf Curtis stjórnmálaferil í Repúblikanaflokknum og var sjö sinnum kjörinn á fulltrúadeild Bandaríkjaþings fyrir 4. kjördæmi Kansas frá 1893 til 1907.[2]
Árið 1898 var Curtis flutningsmaður og nafni svokallaðs Curtis-frumvarps (e. Curtis Act), sem færði alríkisstjórn Bandaríkjanna umsjón yfir málefnum amerískra frumbyggja. Árið 1907 var Curtis kjörinn á öldungadeild Bandaríkjaþings og sat þar til hann tapaði endurkjöri árið 1913. Árið 1911 fór hann í stuttan tíma með völd aldursforseta öldungadeildar þingsins með þverpólitískum stuðningi eftir afsögn Williams P. Frye.
Curtis náði aftur kjöri á öldungadeildina í nóvember árið 1914, en þetta voru fyrstu kosningarnar sem fóru fram eftir samþykkt sautjánda viðauka stjórnarskrár Bandaríkjanna, sem kvað á um að allir öldungadeildarþingmenn skyldu kjörnir í beinum kosningum. Hann hélt þingsætinu til ársins 1929 og var á þeim tíma leiðtogi þingmeirihlutans frá 1925 til 1929. Hann sagði upp þingsæti sínu eftir að hann var kjörinn varaforseti Bandaríkjanna í forsetaframboði Repúblikanans Herberts Hoover árið 1929.
Þann 30. júlí árið 1932 opnaði Curtis Sumarólympíuleikana í Los Angeles.
Hoover og Curtis töpuðu endurkjöri á móti Franklin D. Roosevelt og John Nance Garner í forsetakosningunum 1932. Curtis sneri aftur til borgaralegra starfa og lést í Washington, D.C. þann 8. febrúar 1936. Hann er grafinn í kirkjugarði í Topeka í Kansas.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]- Andrews, Ann (9. febrúar 2002). „Genealogy of Vice President Charles Curtis“. VPCharlesCurtis.net (enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 5. mars 2002. Sótt 2. desember 2021.
- Andrews, Ann (12. mars 2012). „Genealogy of Vice President Charles Curtis – Mother's side: Pappans (of Charles Curtis)“. VPCharlesCurtis.net (enska). Afrit af upprunalegu geymt þann 17. júlí 2012. Sótt 19. júlí 2010.
- Blackmar, Frank Wilson (1912). Kansas: A Cyclopedia of State History, Embracing Events, Institutions, Industries, Counties, Cities, Towns, Prominent Persons, Etc (enska). Standard Publishing Company. bls. 487.
- Crawford, Samuel J. (1911). Kansas in the Sixties (enska). Chicago, IL: A.C. McClurg. bls. 289.
- Unrau, William E. (1971). Mixed Bloods and Tribal Dissolution: Curtis and the Quest for Indian Identity (enska). Norman, OK: University of Oklahoma Press.
- Warren, Harris Gaylord (1959). Herbert Hoover and the Great Depression (enska). New York: Oxford University Press. bls. 38. ISBN 978-0-313-22659-5.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ „The Oregon daily journal. (Portland, Or.) 1902–1972, September 04, 1902, p. 2, Image 2 « Historic Oregon Newspapers“. oregonnews.uoregon.edu. Sótt 22. ágúst 2023.
- ↑ „S. Doc. 58-1 – Fifty-eighth Congress. (Extraordinary session – beginning November 9, 1903.) Official Congressional Directory for the use of the United States Congress. Compiled under the direction of the Joint Committee on Printing by A.J. Halford. Special edition. Corrections made to November 5, 1903“. GovInfo.gov. U.S. Government Printing Office. 9. nóvember 1903. bls. 34–35. Sótt 2. júlí 2023.
Fyrirrennari: Charles G. Dawes |
|
Eftirmaður: John Nance Garner |