Elbridge Gerry
Elbridge Gerry | |
---|---|
Varaforseti Bandaríkjanna | |
Í embætti 4. mars 1813 – 23. nóvember 1814 | |
Forseti | James Madison |
Forveri | George Clinton |
Eftirmaður | Daniel D. Tompkins |
Fylkisstjóri Massachusetts | |
Í embætti 10. júní 1810 – 5. júní 1812 | |
Vararíkisstjóri | William Gray |
Forveri | Christopher Gore |
Eftirmaður | Caleb Strong |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 17. júlí 1744 Marblehead, Massachusetts, bresku Ameríku |
Látinn | 23. nóvember 1814 (70 ára) Washington, D.C., Bandaríkjunum |
Þjóðerni | Bandarískur |
Stjórnmálaflokkur | Demókrat-repúblikanar |
Maki | Ann Thompson (g. 1786) |
Börn | 10 |
Háskóli | Harvard-háskóli (BA, MA) |
Starf | Stjórnmálamaður |
Undirskrift |
Elbridge Thomas Gerry (17. júlí 1744 í Marblehead Massachusetts – 23. nóvember 1814 í Washington D.C.) var bandarískur stjórnmála- og embættismaður, kjörinn fimmti varaforseti Bandaríkjanna undir James Madison (1813 – 1814). Gerry var annar varaforsetinn til að deyja í embætti og annar tveggja varaforseta James Madison sem báðir létust á meðan þeir gengdu embættinu (hinn var George Clinton). Hann var fyrsti varaforsetinn sem bauð sig aldrei fram til forseta. Gerry var níundi fylkisstjóri Massachusetts (1810 – 1812).
Ævi og starfsferill
[breyta | breyta frumkóða]Gerry var þriðji í röð tólf systkina, lagði stund á læknisfræði við Harvard háskóla og starfaði jafnframt hjá skipafélagi föður síns. Hann gat sér fyrst frægðar fyrir andstöðu sína við skattlagningu Bresku krúnunnar á bandarískar vörur og var kosinn á fylkisþing Massachusetts 1772, á and-breskum forsendum.
Elbridge Gerry var kjörinn á seinna fulltrúarþing hinna þrettán nýlenda (e. Continental Congress) og var einn af þeim sem undirritaði sjálfstæðisyfirlýsingu Bandaríkjanna og hann skrifaði einnig undir fyrstu stjórnarskrá Bandaríkjanna (Articles of Confederation).
Gerry var einn þriggja fulltrúa á bandaríska stjórnlagaþinginu 1787, sem neitaði að skrifa undir stjórnarskrá Bandaríkjanna vegna þess að í hana vantaði mannréttindakaflann, sem síðar var bætt við hana með Réttindaskrá Bandaríkjanna.
Elbridge Gerry lést úr hjartaslagi í Washington D.C. þann 23. nóvember 1814.
„Gerrymandering“
[breyta | breyta frumkóða]Bandaríska hugtakið yfir kjördæmahagræðingu, gerrymandering, er dregið af nafni Elbridge Gerry. Orðið er samsuða af orðinu Salamander og nafninu Gerry. Orðið kom fyrst fram í dagblaðinu Boston Gazette þann 26. mars árið 1812 en í kjölfarið á lagabreytingu er varðaði kjördæmaskipan í Massachusettsfylki þótti breytingin einkum henta flokki sitjandi ríkisstjóra, Elbridge Gerry. Auk þess þótti eitt kjördæmið líkjast salamöndru og nýttu andstæðingar Gerry's það til að hæða ríkisstjórann og til þess að draga réttmæti breytinganna í efa í huga kjósenda. Gagnrýnin hlaut byr undir báða vængi því í kjölfarið á þessum kosningum hélt flokkur Gerry sæti sínu í öldungadeild alríkisstjórnar Bandaríkjanna þrátt fyrir tap flokksins á Massachusetts-þingi jafnt og ríkisstjórasæti Elbridge Gerry.[1][2]
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Griffith, Elmer (1907). The Rise and Development of the Gerrymander. Chicago: Scott, Foresman and Co. bls. 72–73. OCLC 45790508.
- ↑ Martis, Kenneth C. (2008). „The Original Gerrymander“. Political Geography. 27 (4): 833–839. doi:10.1016/j.polgeo.2008.09.003.