John Nance Garner
John Nance Garner | |
---|---|
Varaforseti Bandaríkjanna | |
Í embætti 4. mars 1933 – 20. janúar 1941 | |
Forseti | Franklin D. Roosevelt |
Forveri | Charles Curtis |
Eftirmaður | Henry A. Wallace |
Forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings | |
Í embætti 7. desember 1931 – 3. mars 1933 | |
Forveri | Nicholas Longworth |
Eftirmaður | Henry Rainey |
Fulltrúadeildarþingmaður fyrir 15. kjördæmi Texas | |
Í embætti 4. mars 1903 – 3. mars 1933 | |
Forveri | Kjördæmi stofnað |
Eftirmaður | Milton H. West |
Persónulegar upplýsingar | |
Fæddur | 22. nóvember 1868 Red River County, Texas, Bandaríkjunum |
Látinn | 7. nóvember 1967 (98 ára) Uvalde, Texas, Bandaríkjunum |
Þjóðerni | Bandarískur |
Stjórnmálaflokkur | Demókrataflokkurinn |
Maki | Mariette Rheiner (g. 1895; d. 1948) |
Börn | 1 |
Háskóli | Vanderbilt-háskóli |
Starf | Stjórnmálamaður |
Undirskrift |
John Nance Garner III (22. nóvember 1868 – 7. nóvember 1967), einnig þekktur undir viðurnefninu Cactus Jack, var bandarískur stjórnmálamaður úr Demókrataflokknum. Hann var forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings frá 1931 til 1933 og síðan varaforseti Bandaríkjanna á fyrstu tveimur kjörtímabilum Franklins D. Roosevelt forseta, frá 1933 til 1941.
Uppvöxtur og fjölskylda
[breyta | breyta frumkóða]Garner fæddist 22. nóvember árið 1868 í bjálkakofa í Red River County í Texas. Foreldrar hans voru John Nance Garner Jr. og Sarah Guest Garner.[1][2] Bjálkakofinn þar sem hann fæddist er ekki lengur til en húsið þar sem hann ólst upp stendur enn og er nú á götunni 260 South Main Street í Detroit, Texas.
Garner gekk í Vanderbilt-háskóla í Nashville, Tennessee, í eina önn en hætti síðan námi og sneri aftur heim. Hann nam lögfræði við lögmannsstofuna Sims and Wright í Clarksville, Texas, hlaut lögmannsréttindi árið 1890[1] og hóf lögmannsstörf árið 1896 í Uvalde, Texas.[3]
Garner hóf þátttöku í stjórnmálum árið 1893 þegar hann bauð sig fram til embættis héraðsdómara Uvalde County, helsta stjórnsýsluembætti sýslunnar. Andstæðingur Garners í prófkjöri Demókrataflokksins var kona og bóndadóttir, Mariette „Ettie“ Rheiner. Eftir kosningarnar steig Garner í væng við hana og kvæntist henni árið 1895. Garner vann prófkjörið og síðan kosningarnar. Hann gegndi dómaraembættinu til ársins 1896.[4][5]
Stjórnmálaferill í Texas
[breyta | breyta frumkóða]Garner var kjörinn á fulltrúadeild fylkisþings Texas árið 1898 og endurkjörinn árið 1900. Á þingtímabili hans var valið fylkisblóm fyrir Texas. Garner var ötull stuðningsmaður þess að fíkjukaktus yrði fyrir valinu og hlaut því viðurnefnið „Cactus Jack“. Lúpínan var hins vegar valin á endanum.
Garner samdi jafnframt frumvarp að lögum sem hefðu skipt Texas upp í fimm fylki. Frumvarpið var samþykkt á fulltrúadeildinni en fylkisstjórinn beitti neitunarvaldi gegn því.[5]
Árið 1901 greiddi Garner atkvæði með frumvarpi að lögum sem lögðu kosningaskatta. Lögin, sem meirihluti Demókrata á þinginu stóð fyrir, voru hönnuð til að erfiða skráningu kjósenda og draga úr fjölda svartra kjósenda og kjósenda úr öðrum minnihlutahópum í kosningum.[6] Lögin takmörkuðu kosningarétt flestra minnihlutahópa fram á sjöunda áratug 20. aldar og útrýmdu pólitískri samkeppni við Demókrata í Texas, sem varð í reynd flokksræði.[7]
Garner ferðaðist um suðurhluta Texas sem voru undir stjórn flokksklíka og vann sér inn stuðning pólitískra velgjörðamanna sem höfðu tangarhald á kjósendum og héraðskosningum. Bakhjarlar Garners bjuggu til kjördæmi sérstaklega fyrir hann með kjördæmahagræðingu, 15. kjördæmi Texas, sem var löng og mjó ræma sem var dregin þannig að hún náði yfir mikið landflæmi á landsbyggðinni.[8]
Fulltrúadeild Bandaríkjaþings
[breyta | breyta frumkóða]Garner var kjörinn á fulltrúadeild Bandaríkjaþings í fyrsta sinn árið 1902. Hann náði endurkjöri í kjördæminu fjórtán sinnum í röð. Kona hans var á launum sem einkaritari hans á þessum tíma. Á ferli sínum hélt Garner tryggð við hvíta landeigendur sem stjórnuðu kjörklefum í suðurhluta Texas. Hann leit á mexíkóskan kjósendahóp sinn sem „óæðri og óæskilega sem bandaríska ríkisborgara“.[8]
Garner var kjörinn sem leiðtogi minnihlutaþinghóps Demókrata árið 1929 og árið 1931 varð hann forseti fulltrúadeildar Bandaríkjaþings þegar Demókratar náðu meirihluta.[9][10]
Varaforseti (1933–1941)
[breyta | breyta frumkóða]Árið 1932 gaf Garner kost á sér í forvali Demókrataflokksins fyrir forstakosningarnar sama ár. Ljóst var orðið að Franklin D. Roosevelt, fylkisstjóri New York, var sigurstranglegasti frambjóðandinn, en hann vantaði 8.725 atkvæði upp á tilskilinn tveggja þriðju meirihluta til að tryggja sér útnefningu flokksins. Eftir að Garner gerði samkomulag við Roosevelt sem tryggði honum útnefninguna varð Garner varaforsetaefni hans.
Garner var endurkjörinn á fulltrúadeildina þann 8. nóvember 1932 og var um leið kjörinn varaforseti Bandaríkjanna. Þann 8. febrúar 1933 tilkynnti fráfarandi varaforsetinn Charles Curtis kjör eftirmanns síns, þingforsetans Garners, á meðan Garner sat við hlið hans aftan við ræðupúltið. Garner var annar maðurinn, á eftir Schuyler Colfax, sem gegndi bæði embætti forseta fulltrúadeildarinnar og forseta öldungadeildarinnar. Garner var endurkjörinn varaforseti ásamt Roosevelt árið 1936 og gegndi embættinu frá 4. mars 1933 til 20. janúar 1941.
Líkt og flestir varaforsetar á þessum tíma fékk Garner lítið að gera og hafði lítil áhrif á stefnumál forsetans. Hann lét síðar hin fleygu orð falla að varaforsetaembættið væri „ekki meira virði en fötufylli af volgu hlandi“.[11] Sagnfræðingurinn Patrick Cox telur hann hafa sagt þetta í samtali árið 1969 við Lyndon B. Johnson, sem ráðfærði sig við Garner um það hvort hann ætti að þiggja tilboð Johns F. Kennedy um að vera varaforsetaefni í forsetaframboði Kennedys.[12]
Á öðru kjörtímabili Roosevelts fór að anda köldu milli Garners og forsetans þar sem Garner var afar mótfallinn Roosevelt í ýmsum mikilvægum málefnum. Garner hvatti til inngrips alríkisstjórnarinnar til að binda enda á setuverkfall í verksmiðju General Motors í Flint í Michigan, studdi aðhald í ríkisútgjöldum, var á móti fyrirhuguðum breytingum Roosevelts á réttarkerfinu til að fjölga dómurum í Hæstaréttinum, og var á móti afskiptum framkvæmdavaldsins af innri störfum þingsins.[13]
Árin 1938 og 1939 hvöttu margir leiðtogar Demókrata Garner til að bjóða sig fram í forsetakosningunum árið 1940. Garner naut mests fylgis hinnar hefðbundnu forystu flokksins, sem var oft á öndverðum meiði við stuðningsmenn Nýju gjafarinnar sem Roosevelt hafði innleitt. Skoðanakönnun Gallup sýndi að Garner naut mests fylgis meðal kjósenda Demókrataflokksins, að því gefnu að Roosevelt hygðist virða hina gömlu hefð um að forsetinn gegndi aðeins tveimur kjörtímabilum.
Sumir aðrir Demókratar voru ekki eins hrifnir af Garner. Í vitnisburði við þingið lýsti verkalýðsforinginn John L. Lewis honum sem „verkalýðsglepjandi, pókerspilandi, viskíþambandi, illgjörnum gömlum karli“.[14]
Garner lýsti yfir framboði en Roosevelt neitaði að útiloka að hann gæfi kost á sér að nýju. Ljóst var að ef Roosevelt færi fram að nýju ætti Garner litla möguleika á að vinna tilnefningu flokksins en hann hélt engu að síður áfram framboði. Hann var á móti sumum stefnumálum Nýju gjafarinnar, sér í lagi þeim sem áttu að höfða til verkafólks,[15] og var almennt mótfallinn því að forsetar sætu lengur en tvö kjörtímabil. Garner var þó jafnframt eignaður heiður af því að tryggja framgang fjölda lagasetninga á þingi á fyrstu hundrað dögum Roosevelts í embætti. Samband hans við Roosevelt fór ekki að kala fyrr en á öðru kjörtímabili hans, þegar vonir Garners um að leiðrétta fjárhagshallann og draga úr sumum velferðarverkefnum Nýju gjafarinnar þvurru.[16] Hann lét einnig að sér kveða á ríkisstjórnarfundum Roosevelts í tengslum við landlæg stefnumál og lagasetningaraðgerðir, sem stuðlaði að auknum áhrifum hins táknræna varaforsetaembættis.[16] Fyrirhuganir Roosevelts um að fjölga dómurum í Hæstarétti Bandaríkjanna árið 1937 jók ágreininginn milli þeirra Garners[16] og síðasta hálmstráið í sambandi þeirra kom þegar forsetinn reyndi að hreinsa burt andófsmenn úr Demókrataflokknum af þingi fyrir kosningarnar 1938.[16] Árið 1940 var Garner jafnframt farinn að styðja alríkislöggjöf gegn múgæsingsaftökum (e. lynching) (en líklega fremur af hentistefnu frekar en sannfæringu), sem Roosevelt var á móti.[17]
Á landsþingi Demókrataflokksins árið 1940 bjó Roosevelt svo um hnútana að „skyndilega“ yrði kallað eftir endurútnefningu hans sem forsetaefnis og vann útnefningu hans í fyrstu atkvæðagreiðslu. Garner hlaut aðeins 61 atkvæði af 1.093. Roosevelt valdi Henry A. Wallace sem varaforsetaefni sitt í stað Garners.[18]
Eftir varaforsetatíðina (1941–1967)
[breyta | breyta frumkóða]Garner lét af embætti þann 20. janúar 1941 og batt þar með enda á 46 ára feril í opinberum störfum. Hann dró sig til hlés á heimili sínu í Uvalde síðustu 26 ár ævi sinnar, stýrði þar umfangsmiklum fasteignum sínum, varði tíma sínum með langafabörnunum, og fór í fiskveiðiferðir. Á eftirlaunaárum Garners ráðfærðu stjórnmálamenn úr Demókrataflokknum sig gjarnan við hann og hann átti í nánu sambandi við eftirmann Roosevelts, Harry S. Truman.
Á 95. afmæli Garners, þann 22. nóvember 1963, hringdi John F. Kennedy Bandaríkjaforseti í hann til að óska honum til hamingju. Þetta var aðeins fáeinum klukkustundum áður en Kennedy var myrtur. Blaðamaðurinn Dan Rather segist hafa heimsótt búgarð Garners þennan morgun til að taka upp viðtal við Garner.[19]
Einkahagir og andlát
[breyta | breyta frumkóða]Garner og Mariette Rheiner kynntust og urðu par eftir prófkjörið árið 1893. Þau giftust í Sabinal í Texas þann 25. nóvember árið 1895. Mariette var einkaritari eiginmanns síns á þingferli hans og var varaforsetafrú eftir að Garner var varaforseti. Sonur þeirra, Tully Charles Garner (1896–1968), varð banka- og viðskiptamaður. Garner lést úr kransæðastíflu þann 7. nóvember 1967, 15 dögum fyrir 99 ára afmæli sitt. Garner er enn langlífasti varaforseti í sögu Bandaríkjanna.[20]
Eftirmæli
[breyta | breyta frumkóða]Almenningsgarðurinn Garner State Park, sem er 30 km norðan við Uvalde, er nefndur eftir honum, og einnig Garner Field austan við borgina. Heimavist stúlkna við Southwest Texas Junior College er nefnd eftir eiginkonu hans. Grunnskólinn John Garner Middle School í San Antonio er einnig nefndur eftir honum.
Garner og Schuyler Colfax, varaforseti í stjórn Ulysses S. Grant, eru einu varaforsetarnir sem voru forsetar fulltrúadeildar þingsins áður en þeir urðu varaforsetar. Þar sem varaforsetinn er jafnframt forseti öldungadeildarinnar eru Garner og Colfax þeir einu sem hafa formlega stýrt báðum deildum þingsins.
Tilvísanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ 1,0 1,1 „John Nance Garner, 32nd Vice President (1933-1941)“. Sótt 23. október 2017.
- ↑ Lionel V., Patenaude (15. júní 2010). „Garner, John Nance“. Texas State Historical Association. Sótt 27. mars 2018.
- ↑ Anders, Evan (11. febrúar 1987). Boss Rule in South Texas: The Progressive Era (enska). University of Texas Press. bls. 106. ISBN 978-0-292-70763-4.
- ↑ „GARNER, John Nance | US House of Representatives: History, Art & Archives“. history.house.gov (enska). Sótt 22. janúar 2023.
- ↑ 5,0 5,1 Neal, Steve (6. júlí 2004). Happy Days are Here Again: The 1932 Democratic Convention, the Emergence of FDR - and How America Was Changed Forever. Harper Collins. bls. 83. ISBN 0-06-001376-1. Sótt 13. janúar 2023.
- ↑ "Nixon v. Condon. Disfranchisement of the Negro in Texas", The Yale Law Journal, bindi 41, nr. 8, júní 1932, bls. 1212, sótt 21. mars 2008
- ↑ Texas Politics: Historical Barriers to Voting, accessed 11 Apr 2008 Geymt 2 apríl 2008 í Wayback Machine
- ↑ 8,0 8,1 Minutaglio, Bill (2021). A Single Star and Bloody Knuckles: A History of Politics and Race in Texas. University of Texas Press. bls. 68–69. ISBN 9781477310366.
- ↑ „The Opening of the 72nd Congress | US House of Representatives: History, Art & Archives“. history.house.gov.
- ↑ Patrick Cox, University of Texas at Austin, "John Nance Garner," West Texas Historical Association joint meeting with the East Texas Historical Association at Fort Worth, February 26, 2010
- ↑ Johns, Daniel (1. júlí 2012). „The Vice Presidents That History Forgot“. Smithsonian. Sótt 3. janúar 2017.
- ↑ Cox, Patrick L. „John Nance Garner on the Vice Presidency—In Search of the Proverbial Bucket“. Briscie Center for American History (bandarísk enska). Sótt 20. nóvember 2022.
- ↑ Sean J. Savage (1991). Roosevelt, the Party Leader, 1932–1945. University Press of Kentucky. bls. 33. ISBN 978-0-8131-1755-3.
- ↑ Time August 7, 1939
- ↑ „John Nance Garner“. Texas Monthly. nóvember 1996. Sótt 12. maí 2021.
- ↑ 16,0 16,1 16,2 16,3 „Garner the Vice President (1933–1941)“. Briscoe Center for American History. Afrit af upprunalegu geymt þann 12. maí 2021. Sótt 12. maí 2021.
- ↑ Magness, Phillip W. (31. júlí 2020). „How FDR Killed Federal Anti-Lynching Legislation“. American Institute for Economic Research.
- ↑ Timothy Walch (1997). At the President's Side: The Vice Presidency in the Twentieth Century. University of Missouri Press. bls. 50. ISBN 9780826211330.
- ↑ Dan Rather, The Camera Never Blinks (1976), page 113.
- ↑ Lewis, Janna (22. desember 2015). „Texans who were presidents, vice-presidents“. Fort Hood Sentinel. Fort Hood, Texas. Sótt 21. desember 2022.
Ítarefni
[breyta | breyta frumkóða]- Anders, Evan. "The Election of John Nance Garner to Congress" in Anders, Boss Rule in South Texas. Austin, TX: University of Texas Press, 1982. online
- Brown, Norman D. (2000). „Garnering Votes for "Cactus Jack ": John Nance Garner, Franklin D. Roosevelt, and the 1932 Democratic Nomination for President“. The Southwestern Historical Quarterly. 104 (2): 149–188. JSTOR 30239246.
- Champagne, Anthony. "John Nance Garner", in Raymond W Smock and Susan W Hammond, eds. Masters of the House: Congressional Leadership Over Two Centuries (1998) pp 144–80.
- Cooper, George. "Texas, Banks, and John Nance Garner." East Texas Historical Journal 56.1 (2018): 7+ online.
- Cox, Patrick. "John Nance Garner" in Kenneth E. Hendrickson Jr., ed. Profiles in Power: Twentieth-Century Texans in Washington (2nd ed. 2004)
- Fisher, Ovie Clark (1982). Cactus Jack. Texian Press. ISBN 978-0-87244-066-1.
- Patenaude, Lionel V. "The Garner Vote Switch to Roosevelt: 1932 Democratic Convention." Southwestern Historical Quarterly 79.2 (1975): 189–204.
- Patenaude, Lionel V. "Garner, Sumners, and Connally: The Defeat of the Roosevelt Court Bill in 1937." Southwestern Historical Quarterly 74.1 (1970): 36–51.
- Schwarz, Jordan A. (maí 1964). „John Nance Garner and the Sales Tax Rebellion of 1932“. The Journal of Southern History. 30 (2): 162–180. doi:10.2307/2205071. JSTOR 2205071.
- Spencer, Thomas T. (janúar 2018). „For the Good of the Party: John Nance Garner, FDR, and New Deal Politics, 1933–1940“. Southwestern Historical Quarterly. 121 (3): 254–282. doi:10.1353/swh.2018.0000. S2CID 149356041.
- Timmons, Bascom N. Garner of Texas: A Personal History. 1948. online
- Will, George. "In Cactus Jack's Footsteps". Jewish World Review Jan 6, 2000.
Fyrirrennari: Charles Curtis |
|
Eftirmaður: Henry A. Wallace | |||
Fyrirrennari: Nicholas Longworth |
|
Eftirmaður: Henry Rainey |