Fara í innihald

Þýska keisaradæmið

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Þýska keisaraveldið)
Þessi grein fjallar um keisaradæmið sem var til frá 1871 til 1918. Nafnið gæti einnig átt við um Heilaga rómverska ríkið.
Þýska keisaradæmið
Deutsches Reich
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Gott mit uns
(Guð með okkur)
Þjóðsöngur:
Heil dir im Siegerkranz
„Heill sé þér í sigurkransi“
Höfuðborg Berlín
Opinbert tungumál Þýska
Stjórnarfar Hálf-þingbundin konungsstjórn

Keisari
 -1871 til 1888
 -1888
 -1888 til 1918

Vilhjálmur 1.
Friðrik 3.
Vilhjálmur 2.
Kanslari
 -1871 til 1890
 -1918

Otto von Bismarck (fyrstur)
Maximilian von Baden (síðastur)
Saga
 • Stofnun 18. janúar 1871 
 • Upplausn 28. nóvember 1918 
Flatarmál
 • Samtals

540.857,54 km²
Mannfjöldi
 • Samtals (1910)
 • Þéttleiki byggðar

64.925.993
97/km²
Gjaldmiðill Þýskt mark

Þýska keisaradæmið, formlega nefnt Deutsches Reich á þýsku,[1] var þýskt þjóðríki sem varð til við sameiningu Þýskalands árið 1871 og leystist upp þegar Vilhjálmur 2. Þýskalandskeisari steig af stóli árið 1918 og Þýskaland varð lýðveldi.

Þýska keisaradæmið samanstóð af 26 fylkjum sem flest lutu stjórn konungsfjölskylda. Þar á meðal voru fjögur konungdæmi, sex stórhertogadæmi, fimm hertogadæmi, sjö furstadæmi, þrjú frjáls borgríki og ein landeign keisarans. Þótt prússneska konungdæmið hafi orðið aðeins eitt margra konungdæma í nýja ríkinu bjó það yfir mestum mannfjölda og landsvæði og var því þungavigtin innan keisaradæmisins sem tók flestar ákvarðanir. Prússneskar hugmyndir höfðu líka mikil áhrif á þýska menningu.

Frá árinu 1850 höfðu þýsku ríkin iðnvæðst ört, sérstaklega með tilliti til kola- járn- og stálvinnslu, efnafræðirannsókna og byggingu járnbrauta. Árið 1871 bjuggu 41 milljón manns í þýska ríkinu og árið 1913 taldi ríkið um 68 milljónir. Árið 1815 höfðu þýsku ríkin fyrst og fremst verið dreifbýli en Þýskaland sameinað varð fyrst og fremst þéttbýlt.[2] Í þau 47 ár sem þýska keisaradæmið var til var það iðn-, tækni-, og vísindarisi sem vann til fleiri Nóbelsverðlauna fyrir vísindi en nokkuð annað land.[3]

Þýskaland varð heimsveldi sem bjó yfir sífellt stærra járnbrautakerfi, sterkasta her heims og æ stærri iðnkjarna.[4] Á innan við einum áratug varð þýski keisaraflotinn næststærsti herfloti heims á eftir konungsflota Bretlands. Eftir að Otto von Bismarck kanslari var leystur frá störfum af Vilhjálmi 2. tók keisaradæmið nýja og árásargjarna utanríkisstefnu sem leiddi að lokum til fyrri heimsstyrjaldarinnar. Þegar Frans Ferdinand erkihertogi var skotinn í Sarajevó árið 1914 átti Þýskaland tvo bandamenn, Ítalíu og austurrísk-ungverska keisaradæmið, en Ítalía batt enda á bandalag sitt við Þjóðverja áður en heimsstyrjöldin hófst.

Í fyrri heimsstyrjöldinni mistókst áætlun Þjóðverja um að hertaka París haustið 1914 og því varð til pattstaða á vesturvígstöðvunum. Viðskiptabann Bandamanna gegn Þýskalandi olli hungursneyð þar í landi. Þjóðverjar neyddust ítrekað til að senda liðsauka til Austurríkis og Tyrklands á öðrum vígstöðvum. Þjóðverjar unnu þó mikla sigra á austurvígstöðvunum; þeir hernámu mikil landsvæði að austan eftir að hafa sigrað Rússa og neytt nýja stjórn Bolsévikanna til að undirrita Brest-Litovsk-samninginn. Sú ákvörðun Þjóðverja að beita óhömdum kafbátahernaði árið 1917 átti að þjarma að Bretum; þetta mistókst vegna fylgdar herskipa við kaupskip á leið yfir Atlanshafið. Ákvörðunin, ásamt Zimmermann-símskeytinu alræmda, leiddi hins vegar til inngöngu Bandaríkjanna í stríðið. Á þeim tíma voru þýskir borgarar og hermenn þreyttir á stríðinu og undir áhrifum frá öfgum rússnesku byltingarinnar.

Miðstjórn hersins undir forystu Paul von Hindenburg og Erich Ludendorff réð í auknum mæli lögum og lofum í ríkinu. Þeir tefldu öllu fram í einu lokaáhlaupi vorið 1918 áður en liðsauki Bandaríkjamanna gæti borist og notuðu fjölda hermanna, flugvéla og fallbyssa sem áður höfðu verið á austurvígstöðvunum. Þetta mistókst og í október neyddust herir þeirra til að hörfa, Austurríki-Ungverjaland og Tyrkjaveldi hrundu, Búlgaría gafst upp og Þjóðverjar sjálfir höfðu glatað trú sinni á stjórnarkerfi sínu. Eftir að reyna í fyrstu að halda í stjórnvölinn, sem kom af stað gífurlegum usla, hrundi þýska keisaradæmið í byltingu í nóvember 1918 og keisarinn sagði af sér ásamt öllum öðrum einvöldum ríkisins. Þetta leiddi til stofnunar Weimar-lýðveldisins.

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. Þýska stjórnarskrá ársins 1871, skoðað 23. júlí 2017.
  2. J. H. Clapham, The Economic Development of France and Germany 1815–1914 (1936)
  3. Nobel Prizes by Country – Evolution of National Science Nobel Prize Shares in the 20th Century, by Citizenship (Juergen Schmidhuber, 2010), Idsia.ch, sótt 23. júlí 2017.
  4. Paul Kennedy, The Rise and Fall of the Great Powers: Economic Change and Military Conflict from 1500 to 2000 (1987)