Gerhard Mercator
Gerhard Mercator (5. mars 1512 í Rupelmonde – 2. desember 1594 í Duisburg) var fremsti kortagerðamaður síns tíma og var orðin þjóðsögn í lifanda lífi. Hann umbylti kortagerð (Mercator-vörpun) og var auk þess mikilshæfur stærðfræðingur, guðfræðingur og heimspekingur.
Æviferill
[breyta | breyta frumkóða]Gerhard Mercator fæddist í belgíska bænum Rupelmonde og hét þá Gerard De Kremer. Eftir andlát föður síns ólst hann upp í Hertogenbosch á Niðurlöndum. Frá og með 1530 nam hann heimspeki, guðfræði og stærðfræði við háskólann í Leuven og lagði einnig stund á kortagerð. 1537 bjó hann til fyrsta kortið sitt og ári síðar heimskort. Fleiri kort fylgdu í kjölfarið, svo sem kort af Flæmingjalandi (Flanderen). Einnig bjó Mercator til hnattlíkön sem seldust víða í stóru upplagi. Á þessum tíma var kaþólska kirkjan enn með sterk ítök í suðurhluta Niðurlanda (Belgíu í dag). Kirkjunni mislíkaði nýja heimsmyndin og var Mercator handtekinn og ákærður fyrir trúvillu. Í dýflissu mátti hann dúsa í fleiri mánuði. Þegar hann var látinn laus hélt hann áfram að búa til kort og hnattlíkön. Einnig bjó hann til stjörnukort. 1551 þáði hann boð um að koma til þýsku borgarinnar Duisburg. Þar kenndi hann við háskólann, sem þá var nýstofnaður. Mercator lifði í Duisburg til æviloka. 1569 hafði hann þróað með sér nýja aðferð til kortagerðar. Með nýju aðferðinni fékkst kort sem var áttarétt að öllu leyti. Aðeins fjarlægðirnar brengluðust. Vörpun þessi heitir í dag Mercator-vörpun og er enn mikið notuð. Með þessari nýju tækni bjó Mercator til heimskort sem veitti honum heimsfrægð. Síðasta verk hans var landakortabók, en honum entist ekki aldur til að ljúka henni. Mercator lést í Duisburg og var lagður til hvíldar í Salvatorkirkjunni þar í borg. Grafreitur hans er týndur, en grafarplatti hans hangir í kirkjunni. Sonur hans Rumold lauk landakortabókinni og gaf hana út. Í bókinni voru mýmörg kort af Frakklandi, Þýskalandi, Niðurlöndum og Evrópu. Í henni var einnig eitt Íslandskort.
Heimildir
[breyta | breyta frumkóða]Fyrirmynd greinarinnar var „Gerhard Mercator“ á þýsku útgáfu Wikipedia. Sótt apríl 2010.