Sankti Vinsent og Grenadínur

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Saint Vincent and the Grenadines
Fáni Sankti Vinsent og Grenadína Skjaldarmerki Sankti Vinsent og Grenadína
Fáni Skjaldarmerki
Kjörorð:
Pax et justitia
Þjóðsöngur:
St Vincent Land So Beautiful
Staðsetning Sankti Vinsent og Grenadína
Höfuðborg Kingstown
Opinbert tungumál enska
Stjórnarfar Þingbundin konungsstjórn

Drottning
Landstjóri
Forsætisráðherra
Karl 3.
Susan Dougan
Ralph Gonsalves
Sjálfstæði frá Bretlandi
 • Tengt ríki 27. október 1969 
 • Sjálfstæði 27. október 1979 
Flatarmál
 • Samtals
 • Vatn (%)
184. sæti
389 km²
~0
Mannfjöldi
 • Samtals (2013)
 • Þéttleiki byggðar
196. sæti
103.000
307/km²
VLF (KMJ) áætl. 2016
 • Samtals 1,243 millj. dala (179. sæti)
 • Á mann 11.291 dalir (101. sæti)
VÞL (2007) 0.772 (91. sæti)
Gjaldmiðill austurkarabískur dalur (XCD)
Tímabelti UTC-4
Þjóðarlén .vc
Landsnúmer +1-784

Sankti Vinsent og Grenadínur eru eyríki í Karíbahafi og hluti Kulborðseyja, syðst í Litlu-Antillaeyjaklasanum. Eyjarnar urðu hluti af Sambandsríki Vestur-Indía 1958 þar til það leystist upp árið 1962. Eyjarnar urðu síðastar Kulborðseyja til að fá sjálfstæði 1979.

Langstærstur hluti ríkisins er á eyjunni Sankti Vinsent þar sem nær allir búa, en það nær að auki yfir norðurhluta Grenadína sem liggja í suður í átt til Grenada. Norðan við Sankti Vinsent er eyríkið Sankti Lúsía og Barbados liggur austan við eyjarnar. Eyjarnar eru í fellibyljabeltinu.

Eyjarnar voru byggðar Karíbum sem komu í veg fyrir landnám Evrópumanna þar á 17. öld. Flóttamenn af afrískum uppruna komu þangað og mægðust við innfædda (garífúnar). Árið 1719 náðu Frakkar frá Martinique völdum á eyjunni og hófu þar plantekruræktun með afrískum þrælum. Með Parísarsáttmálanum 1763 fengu Bretar yfirráð yfir eyjunum. Á 19. öld settust þar að Portúgalir frá Madeira og verkamenn frá Austur-Indíum. Þrælahald var afnumið 1834 og eyjarnar urðu krúnunýlenda árið 1877. Sankti Vinsent var gerð að tengdaríki árið 1969. Eyjan fékk þá nánast fullt sjálfstæði. Í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1979 fékk landið fullt sjálfstæði frá Bretlandi.

Undirstaða efnahags eyjanna er bananaræktun en atvinnuleysi er mikið. Ferðaþjónusta er vaxandi atvinnugrein. Kvikmyndin Pirates of the Caribbean var tekin á Sankti Vinsent og jók áhuga ferðamanna á landinu.

Heiti[breyta | breyta frumkóða]

Karíbar nefndu eyjuna Sankti Vinsent Hairouna. Kristófer Kólumbus nefndi hana síðan Sankti Vinsent eftir heilögum Vinsent frá Saragossa, verndardýrlingi Lissabon, þar sem hann sá eyjuna á messudegi hans 22. janúar 1502. Grenadínur kölluðust Los Granadillos á spænsku eftir eyjunni Grenada sem spænskir sjómenn nefndu líklega eftir borginni Granada á Spáni.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Ýmsir hópar frumbyggja settust að á eyjunum fyrir komu Evrópumanna á 16. öld, þar á meðal Siboney, Aravakar og Karíbar, sem líklega fluttust þangað frá árdal Orinoco-fljóts. Þegar Kristófer Kólumbus sigldi framhjá Sankti Vinsent í fjórðu ferð sinni 1502 bjuggu þar aðeins Karíbar. Þeir voru herskáir og komu í veg fyrir landnám Evrópumanna á eyjunum fram á 18. öld. Þrælar frá Afríku komu þangað sem skipbrotsmenn og flóttamenn frá evrópsku nýlendunum á Sankti Lúsíu og Grenada. Afkomendur þeirra og Karíba voru þekktir sem svartir Karíbar eða Garífúnar.

Englendingar gerðu tilkall til eyjarinnar þegar árið 1627 en fyrsta evrópska nýlendan á Sankti Vinsent var Barrouallie sem Frakkar stofnuðu á vesturströnd eyjarinnar 1719. Frönsku landnemarnir stofnuðu plantekrur sem þrælar yrktu og ræktuðu tóbak, kaffi, sykur, indigó og maís. Eftir sigur Breta á Frökkum og Spánverjum í Sjö ára stríðinu 1763 kom Sankti Vinsent í hlut þeirra fyrstnefndu. Karíbar gerðu uppreisn gegn breskum yfirráðum í Fyrsta Karíbastríðinu. Frakkar tóku aftur við stjórn eyjarinnar 1779 en Bretar fengu hana síðan aftur í friðarsamningunum eftir Bandaríska frelsisstríðið 1783. Svartir Karíbar gerðu röð uppreisna með stuðningi Frakka. Bretum tókst að berja andspyrnuna á bak aftur með sigri í Öðru Karíbastríðinu 1797. Eftir það voru 5000 Karíbar fluttir til eyjarinnar Roatán undan strönd Hondúras.

Bretar héldu plantekruræktun áfram en lágt sykurverð og eldgos í La Soufrière 1812 urðu til þess að veikja undirstöður hennar. Þrælahald var afnumið 1836 og þrælar fengu fullt frelsi 1838. Í stað þræla voru fluttir inn verkamenn frá Austur-Indíum til að vinna á plantekrunum. Árið 1877 var eyjan gerð að krúnunýlendu. Árið 1902 gaus La Soufrière aftur og um 1700 létust, mest Karíbar. Löggjafarráð var skipað 1925 og almennur kosningaréttur innleiddur 1951. Á þessum tíma reyndu yfirvöld í Bretlandi nokkrum sinnum að sameina stjórn Sankti Vinsent og annarra breskra yfirráðasvæða á Kulborðseyjum. Eyjarnar urðu hluti af hinu skammlífa Sambandsríki Vestur-Indía frá 1958 til 1962.

Þann 27. október 1969 fékk Sankti Vinsent heimastjórn í eigin málum og árið 1979 fengu eyjarnar fullt sjálfstæði í kjölfar þjóðaratkvæðagreiðslu, síðastar Kulborðseyja. La Soufrière gaus aftur í apríl 1979 og olli gríðarlegu tjóni. Árið 2009 var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um að breyta landinu í lýðveldi en það var fellt.

Í apríl 2021 hófst eldgos í La Soufriere eldfjallinu og 16.000 íbúar eyjarinnar flúðu. [1]

Landfræði[breyta | breyta frumkóða]

Kort sem sýnir Sankti Vinsent og Grenadínur.

Sankti Vinsent og Grenadínur liggja vestan við Barbados, sunnan við Sankti Lúsíu og norðan við Grenada. Eyjarnar eru hluti af Kulborðseyjum í Litlu-Antillaeyjum, sem eru eyjaklasi í Karíbahafi. Stærsta eyjan er Sankti Vinsent sem er 344 km² að stærð. Ríkið nær yfir tvo þriðju hluta Grenadína sem eru eyjaklasi minni eyja á milli Sankti Vinsent og Grenada. Til ríkisins teljast 32 þeirra, þar af átta byggðar; Young Island, Bequia, Mustique, Canouan, Union Island, Mayreau, Petit St Vincent og Palm Island. Samanlögð stærð þeirra Grenadína sem tilheyra Sankti Vinsent og Grenadínum er 45 km². Höfuðborgin er Kingstown á Sankti Vinsent.

Sankti Vinsent er brött eldfjallaeyja. Kulborðs (austan megin) er eyjan klettótt en hléborðs eru sandstrendur. Hæsti tindur eyjarinnar er eldfjallið La Soufrière, 1.234 metrar á hæð.

Stjórnmál[breyta | breyta frumkóða]

Sankti Vinsent og Grenadínur eru þingræðisríki og þingbundin konungsstjórn þar sem Karl 3. Bretakonungur er þjóðhöfðingi. Fulltrúi drottningar er landstjóri Sankti Vinsent og Grenadína. Núverandi landstjóri er Frederick Ballantyne.

Landstjórinn fer aðallega með táknrænt vald. Hann setur þingið og skipar ýmsa embættismenn. Stjórnarleiðtogi er forsætisráðherra Sankti Vinsent og Grenadína. Núverandi forsætisráðherra er Ralph Gonsalves, leiðtogi Sameinaða verkamannaflokksins.

Þing Sankti Vinsent og Grenadína fer með löggjafarvald á eyjunum. Það situr í einni deild. Þingmenn eru 21, 15 kjördæmakjörnir og 6 öldungadeildarfulltrúar. Kjörtímabilið er 5 ár en forsætisráðherra getur boðað til kosninga hvenær sem er. Tveir flokkar eiga fulltrúa á þinginu, Sameinaði verkamannaflokkurinn og Nýi demókrataflokkurinn.

Dómsvaldið skiptist milli héraðsdómstóla, Hæstaréttar Austur-Karíbahafs og Breska leyndarráðsins.

Lögregla[breyta | breyta frumkóða]

Enginn her er á Sankti Vinsent og Grenadínum. Lögregla Sankti Vinsent og Grenadína rekur bæði sérsveit og strandgæslu.

Stjórnsýslueiningar[breyta | breyta frumkóða]

Sankti Vinsent og Grenadínur skiptast í sex sóknir. Þar af eru fimm sóknir á Sankti Vinsent en sjötta sóknin nær yfir allar Grenadínurnar. Höfuðborgin, Kingstown, er í sókn heilags Georgs.

Réttindi samkynhneigðra[breyta | breyta frumkóða]

Samkynhneigð er ólögleg á Sankti Vinsent og Grenadínum og varðar allt að sjö ára fangelsi.


Wikiorðabókin er með skilgreiningu á orðinu
  Þessi landafræðigrein er stubbur. Þú getur hjálpað til með því að bæta við greinina.

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

  1. St Vincent volcano: Eruptions likely in coming days, experts warn BBC. Skoðað 13. apríl 2021