Fara í innihald

Akureyri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
(Endurbeint frá Akureyrarkaupstaður)
Akureyrarbær
Miðbær Akureyrar
Miðbær Akureyrar
Skjaldarmerki Akureyrarbæjar
Staðsetning Akureyrarbæjar
Staðsetning Akureyrarbæjar
Hnit: 65°40′57″N 18°05′28″V / 65.68250°N 18.09111°V / 65.68250; -18.09111
LandÍsland
KjördæmiNorðausturkjördæmi
Þéttbýliskjarnar
Stjórnarfar
 • BæjarstjóriÁsthildur Sturludóttir
Flatarmál
 • Samtals136 km2
 • Sæti52. sæti
Mannfjöldi
 (2024)
 • Samtals19.812
 • Sæti5. sæti
 • Þéttleiki145,68/km2
Póstnúmer
600, 603, 611, 630
Sveitarfélagsnúmer6000
Vefsíðaakureyri.is

Akureyri er bær (áður kaupstaður) í Eyjafirði á Mið-Norðurlandi. Í sveitarfélaginu búa um 20.000 (26. apríl 2023). Akureyrarbær er fimmta fjölmennasta sveitarfélag Íslands og er annað fjölmennasta utan höfuðborgarsvæðisins á eftir Reykjanesbæ. Fyrir utan hið eiginlega bæjarland Akureyrar í botni Eyjafjarðar eru eyjarnar Grímsey og Hrísey einnig innan vébanda sveitarfélagsins.

Saga bæjarins

[breyta | breyta frumkóða]
Norðurgata á Eyrinni.
OpenStreetMap kort af Akureyri.

Landnámabók greinir frá því að fyrsti landneminn á svæðinu var Helgi „magri“ Eyvindarson sem kom þangað á 9. öld. Elstu heimildir um nafnið Akureyri eru þó frá 1562 en þá féll dómur á staðnum yfir konu fyrir að hafa sængað hjá karli án þess að hafa giftingarvottorð.

Á 17. öld tóku danskir kaupmenn að reisa búðir sínar á sjálfri Akureyri sem var ein af nokkrum eyrum sem sköguðu út í Pollinn. Þeir völdu staðinn vegna afbragðs hafnarskilyrða og einnig vegna þess að héraðið er og var gjöfult landbúnaðarsvæði en dönsku kaupmennirnir sóttust einkum eftir ull og kjöti. Dönsku kaupmennirnir bjuggu þó ekki á Akureyri allt árið á þessum tíma heldur læstu þeir húsum sínum og yfirgáfu staðinn yfir vetrartímann.

Árið 1778 var fyrsta íbúðarhúsið reist á staðnum og varanleg búseta hófst. 8 árum síðar fékk bærinn kaupstaðarréttindi ásamt fimm öðrum bæjum á Íslandi. Þetta var að undirlagi Danakonungs en hann vildi reyna að efla hag Íslands með því að hvetja til þéttbýlismyndunar þar en slíkt var þá nánast óþekkt á landinu. Akureyri stækkaði þó ekki við þetta og missti kaupstaðarréttindin 1836 en náði þeim aftur 1862 og klauf sig þá frá Hrafnagilshreppi, þá hófst vöxtur Akureyrar fyrir alvöru og mörk Akureyrarbæjar og Hrafnagilshrepps voru færð nokkrum sinnum enn eftir því sem bærinn stækkaði. Bændur í Eyjafirði voru þá farnir að bindast samtökum til að styrkja stöðu sína gagnvart dönsku kaupmönnunum, uppúr því varð Kaupfélag Eyfirðinga (KEA) stofnað. KEA átti mikinn þátt í vexti bæjarins, á vegum þess voru rekin mörg iðnfyrirtæki í bænum sem mörg sérhæfðu sig í úrvinnslu landbúnaðarafurða. Árið 1954 var mörkum Akureyrarbæjar og Glæsibæjarhrepps breytt þannig að það þéttbýli sem tekið var að myndast handan Glerár teldist til Akureyrar, þar hefur nú byggst upp Glerárhverfi.

Á síðasta áratug 20. aldar tók Akureyri miklum breytingum, framleiðsluiðnaðurinn sem hafði verið grunnurinn undir bænum lét töluvert á sjá og KEA dró verulega úr umsvifum sínum. Meiri umsvif í verslun og þjónustu, ferðaþjónustu, sjávarútvegi og Háskólinn á Akureyri hafa nú komið í stað iðnaðarins að miklu leyti. Hríseyjarhreppur sameinaðist Akureyrarbæ 2004 en í kosningum í október 2005 var tillögu um sameiningu allra sveitarfélaga í Eyjafirði hafnað á Akureyri. Grímseyjarhreppur sameinaðist Akureyrarbæ 2009.

Á Akureyri hefur verið mönnuð veðurathugunarstöð síðan 1881.

Bæjarstjórn

[breyta | breyta frumkóða]
Sjá einnig: Bæjarstjórnarkosningar á Akureyri

Í bæjarstjórn Akureyrar sitja 11 fulltrúar sem kjörnir eru af íbúum bæjarins yfir 18 ára aldri á fjögurra ára fresti. Bæjarstjórn skipar bæjarráð sem fer með fjármálastjórn bæjarins og aðrar fastanefndir sem fjalla um afmörkuð svið. Forseti bæjarstjórnar er æðsti yfirmaður hennar og hún kemur saman á opnum fundum að jafnaði tvisvar í mánuði en bæjarráð fundar vikulega.

Bæjarstjórinn er yfirmaður embættismannakerfisins, hann er ráðinn af bæjarstjórninni og getur verið annaðhvort kjörinn bæjarfulltrúi eða utanaðkomandi. Stjórnkerfinu er svo skipt í þrjú meginsvið (félagssvið, stjórnsýslusvið, tækni- og umhverfissvið) sem svo skiptast í deildir og undir þeim eru einstakar stofnanir.

Núverandi skipan bæjarstjórnar

[breyta | breyta frumkóða]

Kosningar til bæjarstjórnar voru síðast haldnar 14. maí 2022. Skipting atkvæða og bæjarfulltrúa var sem hér segir:

FlokkurAtkvæði%Fulltrúar+/–
Bæjarlisti Akureyrar (L)1.70518,703+1
Sjálfstæðisflokkurinn (D)1.63917,972-1
Framsóknarflokkurinn (B)1.55017,0020
Flokkur fólksins (F)1.11412,211+1
Samfylkingin (S)1.08211,861-1
Miðflokkurinn (M)7167,8510
Vinstri græn (V)6617,2510
Kattaframboðið (K)3734,0900
Píratar (P)2803,0700
Samtals9.120100,0011
Gild atkvæði9.12096,79
Ógild atkvæði200,21
Auð atkvæði2822,99
Heildarfjöldi atkvæða9.422100,00
Kjósendur á kjörskrá14.69864,10

Bæjarlistinn, Sjálfstæðisflokkurinn og Miðflokkurinn mynduðu saman meirihluta eftir kosningarnar.

Bæjarstjóri

[breyta | breyta frumkóða]

Staða bæjarstjóra var auglýst laus til umsóknar að loknum kosningum 26. maí 2018. Ásthildur Sturludóttir var ráðin bæjarstjóri 31. júlí 2018 og tók til starfa í september. Ráðning hennar var framlengd eftir kosningarnar 2022.

Fyrri bæjarstjórar

[breyta | breyta frumkóða]

Staðhættir

[breyta | breyta frumkóða]

Akureyri stendur við botn Eyjafjarðar við Pollinn en svo er sjórinn milli Oddeyrar og ósa Eyjafjarðarár kallaður. Í gegnum bæinn rennur Glerá sem aðskilur Glerárhverfi (Þorpið) frá öðrum bæjarhlutum. Önnur hverfi bæjarins eru Oddeyri, Brekkan, Naustahverfi, Hagahverfi, Lundahverfi, Innbærinn og Miðbær.

Strætisvagnakerfi er rekið í bænum af Strætisvögnum Akureyrar, og frá og með árinu 2007 voru ferðir gerðar gjaldfrjálsar og fjölgaði farþegum um rúm 60% eftir það,[1] eða úr 640 (þriðju viku ársins 2006) í að meðaltali 1020 (um sama leyti 2007).

Menntastofnanir

[breyta | breyta frumkóða]

Akureyri er mikill skólabær. Í bænum eru tveir stórir framhaldsskólar (MA og VMA) Myndlistaskólinn á Akureyri, Tónlistarskólinn á Akureyri og Háskólinn á Akureyri.

Atvinnuvegir

[breyta | breyta frumkóða]

Helstu atvinnuvegir bæjarbúa eru verslun og þjónusta, framleiðsluiðnaður, sjávarútvegur og opinber þjónusta. Í bænum er Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri, næststærsta sjúkrahús landsins (á eftir Landsspítala Háskólasjúkrahúsi); Hlutur framleiðsluiðnaðar í atvinnulífi í bænum hefur minnkað mikið síðustu 15-20 árin, en á móti hefur sjávarútvegur vaxið og í dag hafa tvö stærstu sjávarútvegsfyrirtæki landsins, Brim og Samherji þar höfuðstöðvar.

Söfn og afþreying

[breyta | breyta frumkóða]

Tilvísanir

[breyta | breyta frumkóða]
  1. „Farþegum strætisvagna á Akureyri stórfjölgar“.