Glerárhverfi

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Litið yfir Glerárhverfi út Eyjafjörð; Glerá sést neðst til vinstri á myndinni.

Glerárhverfi er hverfi á Akureyri, til þess telst sá hluti bæjarins sem er norðan Glerár, í daglegu tali er það af sögulegum ástæðum oftast kallað Þorpið.

Hverfið skiptist í minni hverfi eftir endingum götunafnanna, þar eru Holtahverfi, Hlíðahverfi, Síðuhverfi og Giljahverfi sem eru að mestu íbúðahverfi en Nesjahverfi er iðnaðar- og athafnasvæði í vexti. Einnig eru atvinnusvæði við Krossanes, milli Austursíðu og Hörgárbrautar og við Óseyri þar sem er meðal annars smábátahöfn. Þrír grunnskólar eru í hverfinu, Glerárskóli, Giljaskóli og Síðuskóli. Nú búa rúmlega 7000 manns í hverfinu.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Framan af 20. öld voru bæjarmörk Akureyrar við Glerána. Heyrði svæðið norðan hennar undir Glæsibæjarhrepp og var því ekki innan lögsagnarumdæmis kaupstaðarins. Á seinni hluta 19. aldar fór að myndast vísir að þéttbýli á svæðinu nálægt ánni (þar sem nú er Langahlíð og Höfðahlíð) og þegar kom fram á 20. öld var komin þorpsmynd á svæðið sem fór að ganga undir heitinu Glerárþorp. Þorpið byggði einkum efnaminna fólk sem hafði ekki efni á því að reisa sér hús á Akureyri vegna byggingarreglugerða sem höfðu verið teknar upp þar sem bönnuðu m.a. byggingu torfbæja en nokkrir slíkir risu í Þorpinu á þessum árum. Fyrstu íbúar Þorpsins stunduðu sjálfsþurftarbúskap á litlum landskikum við hús sín og sóttu vinnu í iðnfyrirtæki á Akureyri þegar slíkt stóð til boða, sumir sóttu sjóinn.

Áður fyrr voru bara sveitabæir í Glerárþorpi. Nöfnin á þeim eru:

Búið er að rífa mörg af gömlu húsunum í glerárþorpi

Árið 1955 var Glerárþorp svo sameinað Akureyri og var þá kallað Glerárhverfi þó að þorpsnafnið hafi haldist allar götur síðan. Upp úr 1960 hófst skipulögð uppbygging í hverfinu sem þandist hratt út á áttunda, níunda og tíunda áratug 20. aldar.