Eyjafjarðará
Eyjafjarðará | |
---|---|
Einkenni | |
Uppspretta | syðst í Eyjafjarðardal |
Hnit | 65°25′59″N 18°12′54″V / 65.432928°N 18.215133°V |
Árós | |
• staðsetning | Eyjafjörður nálægt Akureyri |
Lengd | 60-70 km |
breyta upplýsingum |
Eyjafjarðará er dragá í Eyjafirði. Hún á upptök syðst í Eyjafjarðardal, þar sem koma saman lækir og ár úr fjöllunum í kring, og rennur norður eftir dalnum og í sjó í botni Eyjafjarðar eða Pollinum, við Akureyrarflugvöll. Hún er 60-70 km löng frá upptökum til ósa. Talið er að botn Eyjafjarðar hafi áður náð allt inn að Melgerðismelum, um 22 kílómetrum innar en núverandi ós árinnar er.
Í ánni er mjög góð sjóbleikjuveiði en þar veiðist einnig urriði og eitthvað af laxi. Ósasvæði Eyjafjarðarár nær nokkuð langt upp með ánni, að Melgerðismelum, og þar er auðugur og margbreytilegur gróður og dýralíf. Þar voru áður engjalönd sem mikið voru nýtt til heyskapar og beitar en nú er hluti af landinu friðaður og þar er mikið um víði. 25-30 tegundir fugla verpa á þessu svæði.