Innbærinn (Akureyri)
Innbærinn er eitt hverfa Akureyrar og það elsta þeirra. Innbærinn stendur á flatlendisræmu á milli fjöru og nokkuð brattrar brekku og norðurmörk hans liggja að miðbænum en skilin oftast dregin við Samkomuhúsið við Hafnarstræti 57. Íbúar Innbæjarins voru 442 í 216 íbúðum 1. desember 2003 en þær tölur eiga þó við um allt svæðið sunnan Kaupvangsstrætis sem er aðeins stærra en Innbærinn samkvæmt hefðbundinni skilgreiningu. Húsin eru flest gömul með 2–4 íbúðum hvert en á síðustu árum hefur töluvert hefur verið byggt af nýjum einbýlishúsum á uppfyllingum austan Hafnarstrætis og Aðalstrætis sem urðu til þegar Drottningabraut var lögð. Fyrir tíð Drottningabrautar og Leiruvegar gekk sjór alveg upp að Aðalstræti og Hafnarstræti sem þá voru líka aðalumferðaræðarnar í gegnum bæinn.
Minjasafnið á Akureyri og Nonnahús eru í Innbænum og Laxdalshús (Hafnarstræti 11) einnig sem er elsta hús bæjarins, reist 1795.