Mótorhjólasafn Íslands
Mótorhjólasafn Íslands er safn á Akureyri um sögu mótorhjóla á Íslandi í yfir 100 ár. Þar eru til sýnis mótorhjól, myndir og munir í nýrri 800 fermetra byggingu sem hönnuð var sérstaklega fyrir mótorhjólasafnið.
Safnið sem er opið allt árið, er staðsett á svokölluðu safnasvæði sunnan við Iðnaðarsafnið á Krókeyri á Akureyri.
Saga
[breyta | breyta frumkóða]Mótorhjólasafn Íslands var stofnað 20. desember árið 2007 til minningar um Heiðar Þórarinn Jóhannsson sem lést ári áður í hörmulegu bifhjólaslysi. Fjölskylda og vinir Heiðars settu á laggirnar sjálfseignarstofunun um byggingu og rekstur safnsins.[1] Mótorhjólasafnið opnaði síðan formlega 15. maí árið 2011 á afmælisdegi Heiðars, sem hefði orðið 57 ára hefði hann lifað.[2]
Heiðar hafði í mörg ár safnað mótorhjólum og hjólatengdum munum og átti lengi þann draum að opna mótorhjólasafn. Hann lét eftir sig vel á þriðja tug hjóla. Í safninu er starfrækt sérstök minningardeild þar sem hjól og munir Heiðars eru sýndir og varðveittir.[3]
Auk hjóla Heiðars fékk safnið mörg önnur að gjöf og á nú orðið um 50 mótorhjól sem munu vera til sýnis.
Starfssemi
[breyta | breyta frumkóða]Safninu er ætlað að vera heimildageymsla um sögu mótorhjóla í samgöngusögu Íslands.[4] Það sýnir og varðveitir sögu mótorhjóla á Íslandi í máli, munum og myndum ásamt því að varðveita minningu Heiðars og þau áhrif sem hann hafði á hjólamenningu landsmanna.
Mótorhjólasafnið sýnir hverju sinni um fimmtíu mótorhjól og mikinn fjölda af hjólatengdum munum og ljósmyndum sem spanna alla sögu mótorhjólsins á Íslandi.
Safnkosturinn telur um hundrað mótorhjól af öllum stærðum og gerðum. Til dæmis eru þar nokkur sjaldgæf bresk hjól og Motoguzzi, ítalskur gæðagripur sem var fyrsta stóra lögregluhjólið á götum Akureyrar.[5]
Auk hefðbundinnar safnastarfsemi er hugmyndin að skapa athvarf fyrir hjólafólk á Akureyri eða hjólafólk á ferð um landið.
Í tengslum við mótorhjólasafnið er starfrækt minjagripasala, ráðstefnu- og veislusalur, vetrargeymsla á hjólum, sölusýningar og samstarf við umboð, þrifaðstaða fyrir hjól, kaffitería, umferðarfræðsla, námskeið og fundaraðstaða ásamt öðrum hugsanlegum jaðarrekstri.[6]
Tían
[breyta | breyta frumkóða]Bifhjólaklúbburinn Tían var stofnaður í janúar árið 2007 og er hann hollvinafélag safnsins. Tían hefur á þriðja hundrað meðlimi sem leggja fram vinnu, aðstoð og að stuðla að uppbyggingu og hagsmunum safnsins. Félagsmenn Tíunnar og aðrir velunnarar hafa lánað safninu hjól og aðra gripi til varðveislu eða á einstaka sýningar.[7]
Tenglar
[breyta | breyta frumkóða]- Vefur Mótorhjólasafns Íslands
- Vonir um Mótorhjólasafn íslands, grein Sigurjóns Baldurs Hafsteinssonar, prófessor við Háskóla íslands í safnablaðið Kvist - 1. tölublað, (01.09.2016), bls. 21-21.
Tilvitnanir
[breyta | breyta frumkóða]- ↑ Bifhjólaklúbburinn Tían (20. júlí 2008). „Opna Mótorhjólasafn á Akureyri“. Bifhjólaklúbburinn Tían. Sótt 8. mars 2021.
- ↑ Morgunblaðið: Karl Eskil Pálsson (26. maí 2011). „Bílablað Morgunblaðsins: Mótorhjólasafn Íslands á Akureyri var opnað fyrr í mánuðinum“. Morgunblaðið / Árvakur. Sótt 8. mars 2021.
- ↑ Fréttablaðið (23. apríl 2013). „Mótorhjólasafn Íslands“. Fréttablaðið. Sótt 8. mars 2021.
- ↑ Bifhjólaklúbburinn Tían (20. júlí 2008). „Opna Mótorhjólasafn á Akureyri“. Bifhjólaklúbburinn Tían. Sótt 8. mars 2021.
- ↑ Morgunblaðið: Karl Eskil Pálsson (26. maí 2011). „Bílablað Morgunblaðsins: Mótorhjólasafn Íslands á Akureyri var opnað fyrr í mánuðinum“. Morgunblaðið / Árvakur. Sótt 8. mars 2021.
- ↑ Fréttablaðið (23. apríl 2013). „Mótorhjólasafn Íslands“. Fréttablaðið. Sótt 8. mars 2021.
- ↑ Fréttablaðið (23. apríl 2013). „Mótorhjólasafn Íslands“. Fréttablaðið. Sótt 8. mars 2021.