Háskólinn á Akureyri

Úr Wikipediu, frjálsa alfræðiritinu
Stökkva á: flakk, leita
Háskólinn á Akureyri
Merki skólans
Stofnaður: 1987
Gerð: Ríkisháskóli
Rektor: Eyjólfur Guðmundsson
Nemendafjöldi: 1.500
Staðsetning: Akureyri, Ísland
Vefsíða

Háskólinn á Akureyri er háskóli í bænum Akureyri á Íslandi sem stofnaður var árið 1987. Hann hefur vaxið mikið síðan og í dag eru þar skráðir í kring um 1.500 nemendur en af þeim eru um 500 í fjarnámi en um 900 í staðbundnu námi. Skólinn er meðal þeirra fremstu á Íslandi á sviði fjarnáms.

Saga[breyta | breyta frumkóða]

Íslandsklukkan við Sólborg

Háskólinn á Akureyri var stofnaður 5. september 1987 og starfaði hann fyrst í stað í húsnæði Verkmenntaskólans á Akureyri að Þingvallastræti 23. Fyrsti rektor skólans var Haraldur Bessason. Fyrstu útskriftarnemarnir voru 10 iðnrekstrarfræðingar, útskrifaðir 1989. Fyrstu framhaldsnemarnir voru útskrifaðir með M.Sc. í hjúkrunarfræðum 26. febrúar 2000.

Nám[breyta | breyta frumkóða]

Fjölbreytt nám er í boði við Háskólann á Akureyri, bæði á grunnstigi og framhaldsstigi. Kennsla fer fram á þremur vítt skilgreindum fræðasviðum veturinn 2009-2010. Þau eru:

Heilbrigðisvísindasvið[breyta | breyta frumkóða]

Heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri starfrækir þrjár deildir; hjúkrunarfræðideild og iðjuþjálfunarfræðideild sem bjóða grunnnám til bakkalárprófs (B.s.) og framhaldsnámsdeild sem býður upp á þverfaglegt framhaldsnám til meistaragráðu (M.s.) og diplómugráðu í heilbrigðisvísindum.

Margvíslegar rannsóknir í heilbrigðisvísindum eru stundaðar á heilbrigðisvísindasviði sem tengjast inn í framhaldsnámsdeildina og eru í samræmi við stefnu og grunnmarkmið heilbrigðisvísindasviðs og stefnu Háskólans á Akureyri hverju sinni.

Hug- og félagsvísindasvið[breyta | breyta frumkóða]

Hug- og félagsvísindasvið Háskólans á Akureyri spannar þrjár deildir; félagsvísindadeild, kennaradeild og lagadeild. Þar er boðið upp á fjölbreytt grunnnám til bakkalárprófs (B.A. og B.Ed.) og framhaldsnám til meistaraprófs (M.A., M.Ed., M.l. og ll.M). Miðstöð skólaþróunar við Háskólann á Akureyri tilheyrir sviðinu einnig og starfar það í nánum tengslum við kennaradeild að þróunar- og umbótastarfi í skólum, ásamt ráðgjöf og fræðslu.

Námið einkennist af fjölbreyttum áherslum sem koma til móts við ólíkar þarfir og áhuga nemenda. Hver deild hefur sína sérstöðu: Í lagadeild er boðið upp á alþjóðatengt nám og lotukennslu; í félagsvísindadeild eru þverfaglegar áherslur, rannsóknarþjálfun og fjölbreytt val áherslusviða í samvinnu við aðra háskóla; í kennaradeild er byggt á heildstæðri sýn á menntun, nemendur, kennara, skóla og rannsóknir. Með nánu samstarfi við Miðstöð skólaþróunar skapast einnig ómetanleg tenging kennaranáms við þróun á vettvangi og margs konar sérþekkingu.

Í félagsvísindadeild er boðið upp á nám í eftirfarandi greinum:

Í kennaradeild er boðið upp nám til B.Ed.-gráðu í kennarafræði sem er fullt þriggja ára nám, 180 einingar. Einnig er boðið uppá nám til M.Ed.-gráðu sem veitir kennsluréttindi

Í lagadeild fer fram kennsla í lögfræði bæði á grunn- og framhaldsstigi. Boðið er uppá þriggja ára nám í lögfræði til B.A.-gráðu í lögfræði sem opnar möguleika á framhaldsnámi í lögfræði. Við Háskólann á Akureyri er boðið tveggja ára nám í lögfræði á meistarastigi sem lýkur með prófgráðunni Magister Legis (M.L.). Sú prófgráða, í framhaldi af þriggja ára námi til B.A.-gráðu í lögfræði, jafngildir hefðbundnu fimm ára námi til embættisprófs í lögfræði (cand.jur.)

Viðskipta- og raunvísindasvið[breyta | breyta frumkóða]

Viðskipta- og raunvísindasviði er skipt í auðlindadeild og viðskiptadeild.

Innan auðlindadeildar er boðið upp á nám á grunnstigi (bakkalárnám) í eftirfarandi greinum:

Deildin býður einnig upp á rannsóknatengt framhaldsnám á meistarastigi í auðlindafræðum (líftækni, sjávarútvegs- og fiskeldisfræði, umhverfis- og orkufræði).

Að auki útskrifa Háskóli Íslands og Háskólinn á Akureyri sameiginlega meistaranemendur (M.Sc.) í endurnýjanlegum orkufræðum, en RES Orkuskóli hefur höfuðstöðvar á Akureyri.

Í viðskiptadeild er boðið upp á bæði bakkalárnám og meistaranám í viðskiptafræði.

Stofnanir[breyta | breyta frumkóða]

Innan vébanda Háskólans á Akureyri eru starfræktar ýmsar stofnanir sem sinna rannsóknum og ýmiss konar þjónustu við fræðasamfélagið.

Rannsóknastofnanir[breyta | breyta frumkóða]

 • Heilbrigðisvísindastofnun Háskólans á Akureyri
 • Matvælasetur Háskólans á Akureyri
 • Rannsóknamiðstöð ferðamála
 • Rannsóknasetur forvarna
 • Rannsóknastofnun Háskólans á Akureyri
 • Skólaþróunarsvið
 • Sjávarútvegsmiðstöðin

Þjónustustofnanir[breyta | breyta frumkóða]

 • Bókasafn Háskólans á Akureyri
 • Félagsstofnun stúdenta við Háskólann á Akureyri
 • Símenntun Háskólans á Akureyri
 • Útgáfa Háskólans á Akureyri

Félagslíf[breyta | breyta frumkóða]

Stafnbúi er nemendafélag auðlindadeildar Háskólans á Akureyri. Félagið hefur starfað frá því að sjávarútvegsdeildin var sett á laggirnar við skólann árið 1990. Í upphafi var Stafnbúi félag nema í sjávarútvegsfræði en í dag eru nemar í umhverfis- og orkufræði og líftækni einnig félagar í Stafnbúa.[1] Félagið hefur gefið út rit með sama nafni á hverju ári frá árinu 1993, að undanskildu 2009.[2]

Tilvísanir[breyta | breyta frumkóða]

 1. FSHA - Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri - Stafnbúi. (e.d.). Um félagið - About Stafnbúi. Sótt 08. febrúar 2009 af FSHA.is
 2. Hið íslenska sjávarútvegsfræðafélag. (e.d.) Útgefið efni. Sótt 20. janúar 2010 af Vef hins íslenska sjávarútvegsfræðafélags sjorinn.is
Íslenskir háskólar

Háskóli Íslands | Háskólinn á Akureyri | Háskólinn á Bifröst | Háskólinn í Reykjavík | Hólaskóli | Landbúnaðarháskóli Íslands | Listaháskóli Íslands